Suðurríkjasambandið
Suðurríkjasambandið | |
Conferedate States of America | |
![]() |
![]() |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Deo Vindice (Undir Guði, bjargvættinum) | |
Þjóðsöngur: God Save the South (óopinber) | |
![]() | |
Höfuðborg | Montgomery (til 26. maí 1861) Richmond (til 3. apríl 1865) |
Opinbert tungumál | Enska |
Stjórnarfar | Forsetalýðveldi, Sambandsríki
|
Forseti | Jefferson Davis |
' | |
• Stofnun | 8. febrúar 1861 |
• Upplausn | 5. maí 1865 |
Flatarmál • Samtals |
540.857,54 km² |
Mannfjöldi • Samtals (1860) • Þéttleiki byggðar |
9,103,332 5/km² |
Gjaldmiðill | Sambandsdollari |
Suðurríkjasambandið eða Sambandsríki Ameríku (Confederate States of America eða CSA á ensku) var ríki í Norður-Ameríku sem var til frá árinu 1861 til 1865. Suðurríkjasambandið var í upphafi myndað af sjö aðskilnaðarsinnuðum suðurfylkjum Bandaríkjanna þar sem þrælahald var við lýði: Suður-Karólínu, Mississippi, Flórída, Alabama, Georgíu, Louisiana og Texas. Efnahagur þessara fylkja var byggður á landbúnaði, sérstaklega bómullarrækt og plantekrukerfi sem reiddi sig á vinnuafl svartra þræla.[1]
Fylkin sjö sögðu sig úr Bandaríkjunum eftir forsetakosningarnar árið 1860 þar sem frambjóðandi Repúblikana, Abraham Lincoln, vann sigur. Lincoln hafði lofað að hefta framgöngu þrælahalds inn á ný landsvæði Bandaríkjanna í vesturhluta Norður-Ameríku og var þrælaeigendum í suðurríkjunum því mjög í nöp við hann. Áður en Lincoln tók við völdum í mars var ný ríkisstjórn Suðurríkjasambandsins stofnuð í febrúar 1861. Sú ríkisstjórn var talin ólögmæt af stjórnvöldum Bandaríkjanna. Þegar bandaríska borgarastyrjöldin hófst í apríl sögðu fjögur þrælafylki til viðbótar – Virginía, Arkansas, Tennessee og Norður-Karólína – sig einnig úr Bandaríkjunum og gengu til liðs við Suðurríkjasambandið. Suðurríkin samþykktu einnig aðild Missouri og Kentucky, en þau fylki lýstu þó aldrei formlega yfir útgöngu úr Bandaríkjunum né réðu Suðurríkjamenn nokkurn tímann yfir landsvæði þeirra.

Bandaríska alríkisstjórnin viðurkenndi ekki útgöngu Suðurríkjanna úr ríkjasambandinu og taldi Suðurríkjasambandið ólögmætt. Bandaríska borgarastyrjöldin hófst með árás Suðurríkjamanna á Sumter-virki þann 12. apríl 1861. Ekkert erlent ríki viðurkenndi sjálfstæði Suðurríkjasambandsins formlega[2][3][4] en Bretland og Frakkland leyfðu útsendurum þess þó að versla með vopn og aðrar birgðir. Árið 1865, eftir fjögurra ára átök og um 620.000 manna dauðsfall á vígvellinum[5] gáfust heraflar suðurríkjanna upp og Suðurríkjasambandið var leyst upp. Þá höfðu nærri því allir hermenn suðurríkjanna neyðst til að gefast upp eða verið leystir frá störfum og Suðurríkjasambandið var ofurliði borið.[1] Árið 1865 harmaði forseti aðskilnaðarsinnanna, Jefferson Davis, að Suðurríkjasambandið virtist hafa „horfið“.[6]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ 1,0 1,1 Arrington, Benjamin P. „Industry and Economy during the Civil War“. National Park Service. Sótt 27. apríl 2017.
- ↑ „Preventing Diplomatic Recognition of the Confederacy, 1861–65“. U.S. Department of State. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. ágúst 2013.
- ↑ McPherson, James M. (2007). This mighty scourge: perspectives on the Civil War. Oxford University Press US. bls. 65.
- ↑ Thomas, Emory M. The Confederate Nation, 1861–1865 (1979) pp. 256–257.
- ↑ „Learn - Civil War Trust“ (PDF). www.civilwar.org. Sótt 27. ágúst 2017.
- ↑ Davis, Jefferson (1890). Short History of the Confederate States of America. bls. 503. Sótt 10. febrúar 2015.
