Fara í innihald

Valéry Giscard d'Estaing

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Valéry Giscard d'Estaing
Giscard árið 1975.
Forseti Frakklands
Í embætti
24. maí 1974 – 21. maí 1981
ForsætisráðherraJacques Chirac
Raymond Barre
ForveriGeorges Pompidou
EftirmaðurFrançois Mitterrand
Persónulegar upplýsingar
Fæddur2. febrúar 1926
Koblenz, Þýskalandi
Látinn2. desember 2020 (94 ára) Authon, Frakklandi
DánarorsökCOVID-19
MakiAnne-Aymone Giscard d'Estaing (g. 1952)
BörnValérie-Anne (1953), Henri (1956), Louis (1958), Jacinte (1960–2018)
HáskóliÉcole polytechnique
École nationale d'administration
VerðlaunNansen-verðlaunin (1979)
Karlsverðlaunin (2003)
Undirskrift

Valéry Marie René Georges Giscard d'Estaing, oft kallaður Giscard eða VGE, (2. febrúar 1926 – 2. desember 2020) var franskur stjórnmálamaður. Hann var forseti Frakklands á árunum 1974 til 1981.

Hann var fjármálaráðgjafi áður en hann var fyrst kjörinn á þing fjórða franska lýðveldisins árið 1956, ríkisritari fjármála á árunum 1959 til 1962 og fjármálaráðherra í forsetatíð Charles de Gaulle 1962 til 1966 og síðan aftur í forsetatíð Georges Pompidou 1969 til 1974. Giscard d’Estaing var leiðtogi Sjálfstæðra lýðveldissinna sem mynduðu stjórnarbandalag við Gaullista í þessum ríkisstjórnum.

Giscard d’Estaing var kjörinn forseti Frakklands árið 1974 með 50,81 % atkvæða gegn vinstrimanninum François Mitterrand. Í forsetatíð sinni lét Giscard d’Estaing lækka kosningaaldur Frakka niður í átján ár, lögleiddi fóstureyðingar og hjónabandsskilnaði með gagnkvæmu samþykki hjúa og nam úr gildi rétt forsetans til að fara fram á símahleranir. Í utanríkismálum vann hann að evrópskum samruna ásamt kanslara Vestur-Þýskalands, Helmut Schmidt.

Innanlands beitti Giscard d’Estaing sér fyrir byggingu hraðlestarbrauta og endurvakti franska kjarnorkuiðnaðinn. Franski efnahagurinn fór þó að upplifa erfiðleika eftir þrjátíu ára góðæri („Les Trente Glorieuses” eða „Stórkostlegu árin þrjátíu“) sem ríkt hafði í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þegar Jacques Chirac forsætisráðherra sagði af sér árið 1976 og Raymond Barre kom í stað hans var verulega dregið úr ríkisútgjöldum og stóð það til loka forsetatíðar Giscard d’Estaing. Á sama tíma jókst ágreiningur innan samsteypustjórnar hans á milli Gaullista Chirac á hægri væng og stuðningsmanna Giscard d’Estaing í miðflokknum UDF („Union pour la démocratie francaise“). Í kosningunum 1981 tapaði Giscard d’Estaing óvænt endurkjöri fyrir François Mitterrand frambjóðanda Sósíalistaflokksins.

Giscard d’Estaing sneri sér aftur að stjórnmálum strax næsta ár og gegndi ýmsum ábyrgðarstöðum. Þar á meðal varð hann forseti í héraðsráði Auvergne og þingmaður Puy de Dôme. Sem formaður UDF var hann einn helsti leiðtogi stjórnarandstöðunnar gegn Mitterrand og var orðaður við forsetaframboð árin 1988 og 1995. Hann var einnig sýnilegur á sviði evrópskra stjórnmála og var bæði þingmaður á Evrópuþinginu og forseti ráðstefnu um framtíð Evrópu á árunum 2001 til 2003. Á ráðstefnunni voru drög lögð að samningi um stjórnarskrá fyrir Evrópu en þessi stjórnarskrá tók aldrei gildi. Eftir héraðskosningarnar 2004 gerðist Giscard d'Estaing meðlimur í stjórnlagaþingi Frakklands.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari
Georges Pompidou
Forseti Frakklands
1974 — 1981
Eftirmaður
François Mitterrand