Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna
Einkennismerki Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna
SkammstöfunWFP
Stofnun19. desember 1961; fyrir 62 árum (1961-12-19)
HöfuðstöðvarFáni Ítalíu Róm, Ítalíu
FramkvæmdastjóriCindy McCain
MóðurfélagAllsherjarþing Sameinuðu þjóðanna
Vefsíðawww.wfp.org/

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) er mannúðarsamtök á vegum Sameinuðu þjóðanna sem berjast gegn hungri. Höfuðstöðvar þeirra eru í Róm.[1] Markmið samtakanna eru í fjórum liðum. Að berjast gegn hungri alls staðar í heiminum. Bjarga lífum og lífsviðurværi í neyðartilfellum. Draga úr hættu á hungri og í þeim tilgangi virkja fólk, samfélög og ríki í því að uppfylla eigin matar- og næringarlegu þarfir. Draga úr vannæringu og koma í veg fyrir hungur á meðal heilla kynslóða.[2]

Árið 2013 dreifði Matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna 3,1 milljón tonnum af mat til 80,9 milljón manna í 75 löndum og eru starfsmennirnir orðnir 14.000.[3] Matvælaáætlunin vann til friðarverðlauna Nóbels árið 2020.[4]

Stjórn[breyta | breyta frumkóða]

Stjórn Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna hefur 36 meðlimi. Stjórnin hittist þrisvar á ári í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Róm. Meðlimir stjórnarinnar eru kosnir til þriggja ára. 18 meðlimir stjórnarinnar eru kosnir af efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna og 18 af matvæla- og landbúnaðarstofnuninni Sameinuðu þjóðanna.

Helstu verkefni stjórnarinnar eru að hjálpa til við að þróa og samhæfa stefnur Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, vera bæði eftirlit gagnvart framkvæmdarstjórn samtakanna og leiðbeina stjórn þeirra og yfirfara og gera endurbætur á fjárhag verkefna ásamt því að yfirfara framkvæmd samþykktra verkefna. Þá gerir stjórnin skýrslu um störf Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna ár hvert fyrir efnahags- og félagsmálaráðið.[5]

Þrettándi og núverandi framkvæmdarstjóri stofnunarinnar er hin bandaríska Cindy McCain sem hóf störf árið 2023.

Aðstoðarframkvæmdarstjórinn er hinn breski og súdanski Amir Mahmoud Abdulla sem hóf störf árið 2009.[6]

Framkvæmdarstjórar Matvælaáætlunarinnar í tímaröð[7]

Röð Nafn Tímabil
1 Addeke Hendrik Boerma maí 1962 - desember 1967
2 Sushil K. Dev janúar 1968 - ágúst 1968
3 Franciso Aquion júlí 1968 - maí 1976
4 Thomas C.M. Robinson júlí 1977 - september 1977
5 G.N. Vogel október 1977 - apríl 1981
6 B. de Azevedo Brito maí 1981 - febrúar 1982
7 Juan F. Yriart febrúar 1982 - apríl 1982
8 James Ingram apríl 1982 - apríl 1992
9 Catherine Bertini apríl 1992 - apríl 2002
10 James T. Morris apríl 2002 - apríl 2007
11 Josette Sheeran apríl 2007 - apríl 2012
12 Ertharin Cousin maí 2012 - apríl 2017
13 David Beasley apríl 2017 - apríl 2023
14 Cindy McCain apríl 2023 - núverandi

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðstöðvar WFP í Róm.

Árið 1960 fór Dwight Eisenhower forseti Bandaríkjanna, fram á það við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna að koma á áætlun sem skyldi dreifa matvælum til þeirra sem á þyrftu að halda í gegnum stjórnkerfi Sameinuðu þjóðanna. George McGovern aðalframkvæmdarstjóri matvælahjálparinnar Matar fyrir frið[8] lagði til 1961 að stofna fjölþjóðlega matvælaaðstoð. Seinna sama ár samþykktu allsherjarþingið og Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna ályktun þess eðlis að stofna Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna. Fyrstu þrjú árin í starfsemi Matvælaáætlunarinnar voru höfð til reynslu.

Í desember 1965 samþykktu bæði Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Allsherjarþingið ályktun þess eðlis að starfsemi Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna skyldi vera til frambúðar.[9]

Markmið[breyta | breyta frumkóða]

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna starfar daglega um allan heim í því skyni að ná að útrýma hungri í heiminum. Til þess að ná að eyða hungri í heiminum starfar Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna nú eftir rammaáætlun sem sett var á árið 2014 og gildir til 2017.

Markmið Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna eru fjögur:

  • Bjarga lífum og vernda lífsviðurværi í neyðartilfellum.
  • Styðja við fæðu- og næringaröryggi og endurbyggja lífsviðurværi við viðkvæmar aðstæður í kjölfar neyðartilfella.
  • Draga úr hættu og virkja fólk, samfélög og ríki til að uppfylla eigin matar- og næringarlegu þarfir.
  • Draga úr vannæringu og koma í veg fyrir hungur á meðal heilla kynslóða.[10]

Aðgerðir[breyta | breyta frumkóða]

Aðgerðir Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna eru hannaðar með það í huga að koma aðstoð eins fljótt og auðið er til þeirra sem þurfa á henni að halda, eins lengi og þörf er talin.

Neyðaraðgerðir eru aðgerðir sem bjóða fólki tafarlausa aðstoð þegar neyðarástand skapast. Neyðaraðgerðir eru notaðar við skyndilegar náttúruhamfarir eins og flóð og jarðskjálfta, hægfara hamfarir eins og uppskerubrest og þurrka og ef upp koma flókin neyðatilfelli eins og átök og efnahagsleg áföll. Fyrsta skrefið þegar grípa þarf til neyðaraðgerða er að meta hve mikla matvælaaðstoð þarf að veita og hver besta leiðin til að afhenta matvælin er. Aftur á móti lánar sjóður Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna eingöngu fjármagn fyrir neyðaraðgerðir í 3 mánuði, eftir það þarf alþjóðasamfélagið að fjármagna áframhaldandi matvælaaðstoð. Neyðaraðgerðir geta varað í 24 mánuði, eftir það telst aðgerð vera langvinn aðstoð og enduruppbyggingaraðgerð.[11]

Langvinn aðstoð og enduruppbyggingaraðgerðir eftir að neyðarástandi lýkur eru aðgerðir hugsaðar til að aðstoða fólk við að koma lífi sínu í fastar skorður þar sem að fæðuöryggi þeirra er ekki ógnað. Þær aðgerðir geta innihaldið matvælaaðstoð gegn menntun og þjálfun til að fólk geti snúið sér að nýjum störfum til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum. Aukin aðstoð er boðin alvarlega vannærðum og viðkvæmum heimilum. Flóttamannaaðstoð er veitt flóttamönnum og vegalausu fólki innan eigin landamæra sem getur ekki tryggt eigið fæðuöryggi. Sem dæmi má nefna að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna útvegar nánast allan mat sem að borðaður er í flóttamannabúðum. Einnig er matvælum dreift á meðan fólk byggir upp grunnvirki ríkja og rækta jarðir sínar á ný. Langvinn aðstoð þarf að vera undirbúin minnst sex mánuðum áður en að neyðaraðgerðum lýkur til að nægur tími sé til að tryggja nauðsynleg hjálpargögn, jafnframt geta aðgerðirnar ekki varað lengur en þrjú ár.[12]

Þróunar aðgerðir eru til að tryggja fæðuöryggi samfélaga. Það er mataraðstoð sem að veitir fólki fæðuöryggi á meðan það tryggir sér varanlegar eignir til þess að fólkið fái betri framtíð. Þessi aðstoð er eingöngu veitt á svæðum sem hafa verið fyrirfram skilgreind sem svæði sem skortir fæðuöryggi og mögulegt hungur ógnar heilsu og framleiðni svæðisins.[13]

Sértækar aðgerðir búa til grunnvirki sem neyðaraðgerðir þarfnast. Slíkt getur falið í sér viðgerðir á vegum, brúum, járnbrautum, flugvöllum, höfnum og búnaði. Komið á óreglulegum flugferðum og sett upp algengar flutningsleiðir. Í þeim tilgangi að tryggja að matvælaaðstoð berist til þeirra sem á þurfa að halda.[14]

Fjármögnun[breyta | breyta frumkóða]

Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna treystir algerlega á frjáls framlög til að halda starfsemi sinni gangandi. Frjálsu framlögin geta verið fjármunir, matvæli eða önnur undirstöðu atriði sem eru nauðsynleg starfseminni til dæmis hýsing matvæla, ræktun matvælanna og matreiðsla þeirra. Eina reglan er sú að framlögum þarf að fylgja fjármagnið sem að nauðsynlegt er til þess að flytja og fylgja eftir aðstoðinni. Árið 2015 fékk Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna 5.057.326.704 Bandaríkjadollara í fjárhagsoð.

Fjármögnun Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna kemur frá:

  • Ríkisstjórnum Stærstur hluti fjármagns Matvælaáætlunar Sameinuðu Þjóðanna kemur frá ríkisstjórnum. Að meðaltali eru það 60 ríkisstjórnir á ári sem að veita Matvælaáætlun Sameinuðu Þjóðanna fjármagn.
  • Fyrirtækjum Framlög frá fyrirtækjum hafa á síðustu árum haft sífellt meira að segja um starfsemi Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna. Fyrirtæki gefa ekki bara fjármagn og vörur heldur einnig sérfræðivinnu sem hafa stórlega bætt verkferla hvað varðar birgðarstjórnun og fjáröflunar eiginleika stofnunarinnar.
  • Einstaklingum Bæði litlar og stórar gjafir einstaklinga geta miklu breytt í lífum svangra og geta útvegað skólamáltíðir, matvæli í neyðartilfellum, hvata með matvælum til að senda stúlkur í skóla, matvæli sem greiðslu fyrir grunnvirki þegar eftir að neyðarástandi lýkur.[15]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 25. febrúar 2015. Sótt 9. mars 2016.
  2. http://www.wfp.org/our-work
  3. http://documents.wfp.org/stellent/groups/public/documents/newsroom/wfp261411.jpg
  4. „Mat­væla­áætl­un SÞ hlýt­ur friðar­verðlaun Nó­bels“. mbl.is. 9. október 2020. Sótt 9. október 2020.
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  7. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. mars 2016. Sótt 10. mars 2016.
  8. http://foodaid.org/food-aid-programs/food-for-peace/ Geymt 23 mars 2016 í Wayback Machine US Food for Peace Programme
  9. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  10. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. maí 2015. Sótt 9. mars 2016.
  11. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  12. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  13. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  14. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. mars 2016. Sótt 9. mars 2016.
  15. http://www.wfp.org/funding