Hanna Katrín Friðriksson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Hanna Katrín Friðriksson (f. 4. ágúst 1964) er íslensk stjórnmála- og viðskiptakona. Hanna Katrín var kjörin á Alþingi fyrir Viðreisn í Reykjavíkurkjördæmi Suður árið 2016.

Hún er fædd í París í Frakklandi og foreldrar hennar eru Torben Friðriksson (1934-2012) ríkisbókari og Margrét Björg Þorsteinsdóttir (1930-2016) kennari. Maki Hönnu Katrínar er Ragnhildur Sverrisdóttir upplýsingafulltrúi Novators og eiga þær tvíburadætur fæddar árið 2001.

Hanna Katrín lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1985, BA-próf í heimspeki og hagfræði frá Háskóla Íslands árið 1999 og MBA-próf frá University of California Davis árið 2001.

Hún var blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1990-1999, framkvæmdastjóri Stjórnendaskóla Háskólans í Reykjavík frá 2001-2003. Framkvæmdastjóri Háskólans í Reykjavík frá 2003-2005 og framkvæmdastjóri samskiptasviðs Eimskips frá 2005-2006. Hún var aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra frá 2007-2009 og stundakennari við Háskólann á Bifröst 2009-2011. Á árunum 2010-2016 starfaði hún hjá Icepharma sem forstöðumaður viðskiptaþróunar frá 2010-2012 og framkvæmdastjóri heilbrigðissviðs frá 2012-2016. Frá árinu 2016 hefur hún verið alþingismaður Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Hanna Katrín hefur setið í ýmsum nefndum og ráðum, t.d. sem formaður nefndar menntamálaráðuneytis, ÍSÍ og UMFÍ um stefnumótun í íþróttum stúlkna og kvenna frá 1996-1997, formaður nefndar menntamálaráðuneytis og skrifstofu jafnréttismála um konur og fjölmiðla 1998-1999 og í starfshópi menntamálaráðuneytis um mótun íþróttastefnu frá 2005-2006. Hún sat í nefnd á vegum menntamálaráðherra um lög um opinbera háskóla 2007–2008, í stjórn Sjálfstæðra Evrópumanna frá 2010, var í stjórn MP banka frá 2011-2014 og hefur setið í stjórn Hlíðarenda ses. frá 2013 og í Þingvallanefnd síðan 2017.[1]


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Alþingi, Æviágrip - Hanna Katrín Friðriksson (skoðað 15. júlí 2019)