Benedikt Sveinsson (f. 1938)
Benedikt Sveinsson (f. 31. júlí 1938) er íslenskur fjárfestir og athafnamaður. Benedikt er faðir Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.
Benedikt varð umtalaður í september 2017 vegna Hjaltamálsins svokallaða, þegar upplýst var um að hann hefði skrifað undir meðmælabréf fyrir dæmdan barnaníðing, Hjalta Sigurjón Hauksson, til þess að Hjalti gæti fengið uppreist æru hjá ríkisstjórn Íslands.[1] Bjarni Benediktsson, sem var þá forsætisráðherra, hafði vitað frá í júlí sama ár að faðir hans væri meðal meðmælenda Hjalta.[2] Málið leiddi til þess að ríkisstjórn Bjarna hrundi þegar Björt framtíð sleit stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn vegna „alvarlegs trúnaðarbrests“.[3]
Benedikt keypti 0,1042% hlut í Íslandsbanka á útboði á eignarhlutum ríkisins í bankanum í mars 2022. Þátttaka Benedikts í útboðinu var harðlega gagnrýnd þar sem sonur hans hafði pólitíska umsjón yfir því sem fjármálaráðherra.[4] Í október 2023 gaf umboðsmaður Alþingis út álit þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði skort hæfi til að samþykkja sölu á eignarhluta í bankanum til föður síns. Álitið leiddi til þess að Bjarni sagði af sér sem fjármálaráðherra þann 10. október.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Magnús Halldórsson (14. september 2017). „Faðir forsætisráðherra ábyrgðist dæmdan barnaníðing“. Kjarninn. Sótt 28. janúar 2021.
- ↑ Freyr Gígja Gunnarsson (14. september 2017). „Sigríður upplýsti Bjarna um aðkomu föður hans“. RÚV. Sótt 28. janúar 2021.
- ↑ Brynjólfur Þór Guðmundsson; Alma Ómarsdóttir (15. september 2017). „Björt framtíð slítur stjórnarstarfi“. RÚV. Sótt 28. janúar 2021.
- ↑ Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir (6. apríl 2022). „Faðir fjármálaráðherra einn fjárfesta sem keypti í Íslandsbanka“. Vísir. Sótt 22. apríl 2022.
- ↑ Jón Þór Stefánsson (11. október 2023). „Nærmynd af Benedikt Sveinssyni: Óvæntur örlagavaldur í pólitísku lífi sonarins“. Vísir. Sótt 14. október 2023.