Fara í innihald

Fréttablaðið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Blaðhaus Fréttablaðsins.

Fréttablaðið var íslenskt dagblað sem var gefið út frá 2001 til 2023. Frjáls fjölmiðlun hóf útgáfu blaðsins árið 2001 eftir að hafa fyrst sameinað nokkur eldri flokksblöð í dagblaðið Dag-Tímann. Fyrirmyndin voru svokölluð metróblöð sem er dreift ókeypis og liggja frammi á lestarstöðvum. Hins vegar var ákveðið að bera Fréttablaðið út ókeypis í hús á höfuðborgarsvæðinu og víðar, en þetta fyrirkomulag reyndist of dýrt og Frjáls fjölmiðlun lagði upp laupana árið eftir. Þá keypti félagið Frétt ehf. í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar ásamt fleirum Fréttablaðið út úr rekstrinum. Frétt ehf. breytti svo um nafn árið 2005 og varð 365 miðlar eftir sameiningu við fjölmiðlasamsteypuna Norðurljós. Blaðið kom út í stórum upplögum og var um tíma mest lesna dagblað landsins.

Þegar blaðið var lagt niður var útgáfufélag þess fyrirtækið Torg ehf. að stærstum hluta í eigu Helga Magnússonar. Áður höfðu 365 miðlar rekið blaðið, en þegar fyrirtækið sameinaðist símafyrirtækinu Vodafone árið 2016 gerði Samkeppniseftirlitið það að skilyrði að Fréttablaðið, tímaritið Glamour og vefurinn Iceland Magazine yrðu aðskilin.[1] Í febrúar 2018 var nýr fréttavefur, frettabladid.is, opnaður þar sem lesendur gátu nálgast fréttir Fréttablaðsins ásamt stöðugum fréttum yfir daginn.[2] Áður var Vísir.is fréttavefur Fréttablaðsins, en hann var áfram innan 365 miðla eftir kaupin. Ritstjóri Fréttablaðsins og fréttavefs blaðsins var Sigmundur Ernir Rúnarsson frá 2021 til 2023. Garðar Örn Úlfarsson var aðstoðarritstjóri og Lovísa Arnardóttir var fréttastjóri.[3] Forstjóri Torgs ehf. var Jón Þórisson.[4]

Fréttablaðinu var dreift ókeypis í hús á höfuðborgarsvæðinu frá stofnun og síðar einnig á Akureyri. Þessu var hætt í ársbyrjun 2023. Eftir það var blaðinu dreift víða í verslanir, bensínstöðvar, sundlaugar auk fleiri staða víða um land.[5]

Blaðið hætti útgáfu 31. mars 2023 vegna rekstrarörðugleika.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Ísleifsson, Atli. „Kaup Vodafone á 365 miðlum undirrituð - Vísir“. visir.is. Sótt 17. febrúar 2022.
  2. „Fréttablaðið opnar vefmiðil“. www.frettabladid.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. febrúar 2022. Sótt 17. febrúar 2022.
  3. Fréttablaðið. „Fréttablaðið 1. febrúar 2023“ (PDF).
  4. Ritstjórn. „Jón Þóris­son verður for­stjóri Torgs“. www.frettabladid.is. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. febrúar 2022. Sótt 17. febrúar 2022.
  5. „Breytt og umhverfisvænni dreifing Fréttablaðsins“. Janúar 2023. Sótt Febrúar 2023.
  6. Fréttablaðið og Hringbraut heyra sögunni til Vísir, sótt 31/3 2023

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

teikning af dagblaði  Þessi dagblaðs eða tímaritagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.