Fara í innihald

Umboðsmaður Alþingis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Umboðsmaður Alþingis
Rekstrarform Stofnun Alþingis
Stofnað 1988
Staðsetning Þórshamri, Templarasundi 5
Reykjavík
Lykilpersónur Kristín Benediktsdóttir, umboðsmaður Alþingis
Starfsemi Opinber starfsemi
Vefsíða ubodsmadur.is

Umboðsmaður Alþingis er kjörinn af Alþingi og starfar samkvæmt samnefndum lögum nr. 85/1997.[1] Hlutverk umboðsmanns er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þá skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Umboðsmaður er í störfum sínum óháður fyrirmælum frá öðrum, þar með töldu Alþingi.

Eftirlit umboðsmanns Alþingis með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga er fyrst fremst fólgið í því að til hans geta leitað einstaklingar og lögaðilar, sem telja að á sér hafi verið brotið í stjórnsýslunni, með kvartanir og getur umboðsmaður þá tekið málið til meðferðar. Umboðsmaður getur látið í ljós álit sitt á því hvort athöfn stjórnvalds brjóti í bága við lög eða hvort annars hafi verið brotið gegn vönduðum stjórnsýsluháttum eða siðareglum. Álit umboðsmanns Alþingis eru óbindandi fyrir stjórnvöld en reynslan sýnir að stjórnvöld fara eftir þeim í flestum tilvikum.

Núverandi umboðsmaður Alþingis er Kristín Benediktsdóttir en hún hefur gegnt embættinu frá árinu 2024.[2] Embætti umboðsmanns Alþingis er til húsa í Þórshamri, Templarasundi 5 í Reykjavík.

Saga embættis umboðsmanns Alþingis

[breyta | breyta frumkóða]

Svíar urðu fyrstir þjóða til að setja á stofn embætti umboðsmanns. Voru ákvæði um það í sænsku stjórnarskránni frá 1809. Finnar urðu næstir og tók umboðsmaður þar til starfa árið 1919. Embætti umboðsmanns danska Þjóðþingsins var sett á laggirnar 1954. Eftir það tóku ýmsar aðrar þjóðir að veita verulega athygli þeim hugmyndum, sem þarna lágu til grundvallar. Norðmenn komu embætti umboðsmanns á fót 1963. Nú eru umboðsmenn þjóðþinga í nokkrum tugum landa og fer fjölgandi. Fyrirmyndin er yfirleitt sótt til Norðurlanda, enda þótt nánari útfærsla hennar sé með ýmsum hætti. Við samningu frumvarps til laga um umboðsmann Alþingis var einkum höfð hliðsjón af norsku og dönsku lögunum.

Nokkuð er síðan tillögur komu fram á Alþingi um embætti umboðsmanns hér á landi. Kristján Thorlacius lagði fram á Alþingi 1963 tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar til að undirbúa löggjöf um það efni. Tillagan varð ekki útrædd og sama máli gegndi um sams konar tillögur á næstu þingum. Hinn 19. maí 1972 var samþykkt þingsályktunartillaga Péturs Sigurðssonar alþingismanns um undirbúning löggjafar um embætti umboðsmanns Alþingis. Frumvarp til laga um umboðsmann Alþingis var flutt á þinginu 1973-1974 og var það samið af Sigurði Gizurarsyni. Frumvarpið varð ekki útrætt en var endurflutt á þingunum 1985-1986 og 1986-1987. Á síðarnefndu þingi 1986-1987 var einnig flutt stjórnarfrumvarp um umboðsmann Alþingis, samið af hæstaréttarlögmönnunum Eiríki Tómassyni og Jóni Steinari Gunnlaugssyni. Var það í grundvallaratriðum byggt á fyrrgreindu frumvarpi. Fáeinar breytingar voru gerðar á stjórnarfrumvarpinu í meðferð Alþingis. Frumvarpið var samþykkt á þinginu 1986-1987 með samhljóða atkvæðum og birt sem lög nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis, sem tóku gildi 1. janúar 1988.

Hinn 17. desember 1996 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um umboðsmann Alþingis er var samþykkt og síðan birt sem lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þessi lög eru að því leyti frábrugðin eldri lögum nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að með þeim var starfssvið umboðsmanni Alþingis víkkað út til að ná til stjórnsýslu sveitarfélaga óháð því hvort um er ræða ákvarðanir sem skjóta má til ráðherra eða annars stjórnvalds ríkisins. Sú breyting var einnig gerð á starfssviði umboðsmanns með lögum nr. 85/1997 að það tekur nú einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur með lögum verið fengið opinbert vald til þess að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Með þessu var komið á betra samræmi á milli starfssviðs umboðsmanns Alþingis annars vegar og gildissviðs stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þágildandi upplýsingalaga hins vegar.

Fyrsti einstaklingurinn til að gegna embætti umboðsmanns Alþingis var Gaukur Jörundsson, sem var kjörinn til fjögurra ára frá 1. janúar 1988 á fundi sameinaðs Alþingis 17. desember 1987. Gaukur var endurkjörinn á fundum Alþingis 18. desember 1991 og 22. desember 1995, og þá fyrir tímabilið 1. janúar 1996 til 31. desember 1999. Gaukur fékk leyfi frá starfi umboðsmanns Alþingis frá 1. nóvember 1998 og frá sama tíma var Tryggvi Gunnarsson settur til að gegna starfi umboðsmanns í forföllum Gauks. Tryggvi Gunnarsson var kjörinn umboðsmaður Alþingis til fjögurra ára frá 1. janúar 2000 á fundi Alþingis 4. nóvember 1999. Tryggvi hefur síðan verið endurkjörinn fjórum sinnum, fyrir tímabilin 1. janúar 2004 til 31. desember 2007, 1. janúar 2008 til 31. desember 2011, 1. janúar 2012 til 31. desember 2015 og 1. janúar 2016 til 31. desember 2019. Tryggvi lét af störfum þann 1. maí 2021 og Skúli Magnússon tók við embættinu.[2]

Kjör umboðsmanns Alþingis

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/1997 kýs Alþingi umboðsmann Alþingis til fjögurra ára og skal hann uppfylla skilyrði laga til að gegna embætti hæstaréttardómara og má ekki vera alþingismaður. Ef umboðsmaður andast eða verður af öðrum sökum ófær um að gegna starfi sínu framvegis skal Alþingi kjósa umboðsmann að nýju. Sama hátt skal hafa á ef umboðsmaður fær að eigin ósk lausn frá embætti sínu eða tveir þriðju hlutar þingmanna samþykkja að víkja honum úr embætti. Við tímabundin forföll umboðsmanns setur forseti Alþingis staðgengil til að gegna embættinu meðan forföll vara.

Með lögum nr. 142/2008 var nýrri málsgrein bætt við 14. gr. laga nr. 85/1997, sem kveður á um að ef kjörnum umboðsmanni eru falin sérstök tímabundin verkefni af hálfu Alþingis getur forsætisnefnd Alþingis, að beiðni kjörins umboðsmanns, samþykkt að setja annan mann til að sinna starfi umboðsmanns þann tíma eða samhliða með kjörnum umboðsmanni. Sá sem settur er til starfsins skal uppfylla sömu hæfisskilyrði og umboðsmaður. Ef sá sem settur er starfar samhliða kjörnum umboðsmanni skulu þeir ákveða verkaskiptingu sín í milli og skulu upplýsingar þar um birtar á vefsíðu embættis umboðsmanns. Verði ágreiningur um verkaskiptinguna ákveður kjörinn umboðsmaður hana.

Á tímabilinu 1. janúar 2009 til 1. júlí 2010 var Róbert R. Spanó, nú dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, settur umboðsmaður Alþingis á meðan Tryggvi Gunnarsson gegndi störfum fyrir rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. Jafnframt gegndi Róbert stöðu setts umboðsmanns í tilteknum málum (ad hoc) á árunum 2011 og 2012. Þá var Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri við héraðsdóm Reykjaness, settur umboðsmaður frá 15. febrúar til 30. júní 2014.

Skúli Magnússon var kjörinn umboðsmaður Alþingis 2021 og gegndi því starfi til 2024 þegar Kristín Benediktsdóttir var kjörin[3].

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Lög um umboðsmann Alþingis
  2. 2,0 2,1 Þórður Snær Júlíusson (26. apríl 2021). „Skúli Magnússon nýr umboðsmaður Alþingis“. Kjarninn. Sótt 10. október 2021.
  3. „Kristín Benediktsdóttir kjörin umboðsmaður Alþingis“. Umboðsmaður Alþingis. Sótt 12. nóvember 2024.
  Þessi stjórnmálagrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.