Davíð Oddsson
Davíð Oddsson (fæddur 17. janúar 1948) er íslenskur lögfræðingur, smásagnahöfundur, leikskáld, textahöfundur, fyrrverandi stjórnmálamaður og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins.[1] Davíð er einn sigursælasti og vinsælasti stjórnmálamaður Íslandssögunnar, en hefur verið umdeildur.[2][3] Hann var borgarstjóri Reykjavíkur frá 1982 til 1991, forsætisráðherra Íslands frá 1991 til 2004, utanríkisráðherra Íslands frá 2004 til 2005, seðlabankastjóri frá 2005 til 2009 og hefur verið ritstjóri Morgunblaðsins frá 2009. Davíð var formaður Sjálfstæðisflokksins frá 1991 til 2005.
Davíð bauð sig fram til forseta í forsetakosningunum 2016 og fékk þar 13,7% atkvæða og varð í fjórða sæti í kjörinu.
Fjölskylda, menntun og störf fram að stjórnmálaferli
[breyta | breyta frumkóða]Davíð Oddsson fæddist í Reykjavík en dvaldist fyrstu árin á heimili móðurforeldra sinna á Selfossi. Foreldrar hans eru Oddur Ólafsson (f. 11. maí 1914, d. 4. janúar 1977) barnalæknir og Ingibjörg Kristín Lúðvíksdóttir (f. 28. apríl 1922, d. 2. júní 2016[4]) ritari. Faðir hans var af hinni kunnu Briemsætt og voru þeir Oddur og Gunnar Thoroddsen fjórmenningar. Eftir að Davíð fluttist til Reykjavíkur, ólst hann upp með móður sinni og móðurömmu. Hann íhugaði að fara í leiklistarnám til Japans en varð ástfanginn af Ástríði, sem hann seinna kvæntist, og lauk hann því stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1970.[5] Þar var hann inspector scholae (formaður nemendafélagsins) í sjötta bekk en hann hefur sagt frá því að í skólanum töldu menn að hann hefði „blekkt þá til fylgis við [sig]; ég hefði klæðzt eins og vinstri maður, hárgreiðslan var eins og á vinstri manni og svo talaði [hann] eins og vinstri maður“.[6] Geir H. Haarde varð inspector scholae næst á eftir honum. Davíð lék aðalhlutverkið 1969 í leikritinu Bubba kóngi eftir A. Jarry í Herranótt menntaskólans, en það var líka sýnt í sjónvarpi.[7] Leikur Davíðs vakti athygli Sveins Einarssonar sem réði hann sem leikhúsritara Leikfélags Reykjavíkur árin 1970-2.[5]
Davíð kvæntist 5. september 1970 Ástríði Thorarensen (f. 20. október 1951), og eiga þau einn son, Þorstein Davíðsson (f. 12. nóvember 1971). Davíð hóf lögfræðinám við Háskóla Íslands haustið 1970. Jafnframt sá hann í tvö sumur um hinn vinsæla gamanþátt Matthildi í útvarpinu ásamt skólabræðrum sínum og vinum Þórarni Eldjárn og Hrafni Gunnlaugssyni. Hann var einnig blaðamaður á Morgunblaðinu með námi og sat í stjórnum Stúdentafélags Reykjavíkur, Sambands ungra sjálfstæðismanna og Varðbergs, félags ungra áhugamanna um vestræna samvinnu. Á námsárum sínum þýddi Davíð bókina Eistland - Smáþjóð undir oki erlends valds eftir eistneska blaðamanninn Anders Küng. Davíð náði kjöri í borgarstjórn Reykjavíkur 1974 og vann meðfram því sem útgáfustjóri Almenna bókafélagsins 1975. Eftir að hann lauk lagaprófi 1976 gerðist hann skrifstofustjóri Sjúkrasamlags Reykjavíkur og varð síðan framkvæmdastjóri þess 1978.
Borgarfulltrúi og borgarstjóri
[breyta | breyta frumkóða]Davíð skipaði níunda sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1974 og náði kjöri. Í kosningabaráttu sinni beitti Davíð þeirri nýbreytni að halda opinn fund við verslunarmiðstöðina Glæsibæ.[8] Sjálfstæðisflokkurinn tapaði meirihluta sínum í borgarstjórn Reykjavíkur í kosningunum 1978 og, eftir að Birgir Ísleifur Gunnarsson, fyrrverandi borgarstjóri, hætti afskiptum af borgarmálum og settist á þing, varð Davíð leiðtogi borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna. Hann sigraði Albert Guðmundsson naumlega í harðri baráttu í prófkjöri um efsta sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 1982. Undir forystu Davíðs vann Sjálfstæðisflokkurinn aftur meirihluta í borgarstjórn.[9][10] Eitt fyrsta verk Davíðs sem borgarstjóri var að fækka borgarfulltrúum úr 21 í 15, en flokkarnir þrír, sem mynduðu meirihluta í borgarstjórn 1978-1982, Alþýðubandalag, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur, höfðu fjölgað þeim.[11]
Davíð hafði árin 1972-76 verið einn af útgefendum tímaritsins Eimreiðarinnar ásamt Þorsteini Pálssyni, Magnúsi Gunnarssyni, Geir H. Haarde, Kjartani Gunnarssyni, Brynjólfi Bjarnasyni, Jóni Steinari Gunnlaugssyni, Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni og fleirum. Vildi „Eimreiðarhópurinn“ sveigja stefnu Sjálfstæðisflokksins í átt til frjálshyggju og sótti hugmyndir til hagfræðinganna Ólafs Björnssonar og Jónasar Haralz hér á landi og Miltons Friedman og Friedrichs A. von Hayek erlendis.[12] Skömmu eftir að Davíð varð borgarstjóri, hafði hann forgöngu um það, að Bæjarútgerð Reykjavíkur var sameinuð einkafyrirtækinu Ísbirninum, en síðan var hið nýja fyrirtæki, sem bar nafnið Grandi selt. Var Brynjólfur Bjarnason forstjóri Granda. Má segja, að með þessu hafi „einkavæðing“ íslensks atvinnulífs hafist. Bæjarútgerðin hafði verið rekin með tapi mörg ár á undan.
Davíð veitti afnot af Höfða, móttökuhúsi borgarstjórnar Reykjavíkur, þegar þeir Ronald Reagan, forseti Bandaríkjanna, og Míkhaíl Gorbatsjov, leiðtogi Sovétríkjanna, hittust á sögulegum fundi sumarið 1986. Davíð beitti sér einnig fyrir því, að Reykjavíkurborg eignaðist verulegt land í Grafarvogi, og myndaðist þar mikil byggð, en árin á undan hafði verið lítið framboð á lóðum. Hann lét gera við Viðeyjarstofu, sem ríkið hafði gefið Reykjavík á tvö hundruð ára afmæli borgarinnar 1986.[13] Hann hóf einnig framkvæmdir við ráðhús við Tjörnina og veitingahúsið Perluna í Öskjuhlíð þrátt fyrir harða gagnrýni. Hann veitti einnig Leikfélagi Reykjavíkur ríflegan stuðning við smíði Borgarleikhússins í nýja miðbænum við Kringluna. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í kosningunum 1986 og 1990.
Forsætisráðherra
[breyta | breyta frumkóða]Davíð Oddsson hafði verið kjörinn varaformaður Sjálfstæðisflokksins á landsfundi 1989.[14] Skömmu fyrir landsfundinn 1991 tilkynnti Davíð, að hann gæfi kost á sér til formanns, en Þorsteinn Pálsson hafði gegnt þeirri stöðu frá 1983.[15] Var formannskjörið tvísýnt, en Davíð hlaut nauman sigur. Undir forystu Davíðs bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig miklu fylgi í þingkosningunum 1991 frá því, sem verið hafði fjórum árum áður.
Stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks 1991-1995
[breyta | breyta frumkóða]Eftir kosningarnar 1991 myndaði Davíð á stuttum tíma ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks, sem hefur verið kölluð „Viðeyjarstjórnin“. Varð Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, utanríkisráðherra. Stjórnin kvaðst berjast við mikinn „fortíðarvanda“, sem fælist í hallarekstri á ríkissjóði, tómum sjóðum vegna misheppnaðra fjárfestinga í fiskeldi og loðdýrarækt og hættu á verðbólgu. Með aðhaldi í fjármálum og peningamálum tókst að halda verðbólgu í skefjum, en það auðveldaði stjórninni leikinn, að aðilar vinnumarkaðarins höfðu gert svonefnda „þjóðarsátt“ árið 1990 um hóflegar launahækkanir. Einnig voru ýmsir opinberir sjóðir lagðir niður, svo sem Framkvæmdasjóður, Hlutafjársjóður og Atvinnutryggingarsjóður og strangar reglur settar um Byggðasjóð. Eitt fyrsta verk stjórnarinnar að ráði þeirra Davíðs og Jóns Baldvins var að viðurkenna á ný sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna þriggja, Eistlands, Lettlands og Litháens, eftir hrun Sovétríkjanna, og varð Ísland fyrst ríkja til þess að gera.
Halla í rekstri ríkisins var á nokkrum árum snúið í afgang, sem síðan var notaður til að lækka skuldir. Aðstöðugjald var fellt niður og tekjuskattur fyrirtækja lækkaður úr 50% í 30% í því skyni að skapa atvinnulífinu betri skilyrði, en vegna minnkandi afla á Íslandsmiðum og óhagstæðrar verðlagsþróunar á alþjóðavettvangi var nokkurt atvinnuleysi fyrstu ár hinnar nýju stjórnar. Atvinnulífið opnaðist einnig verulega, þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið 1994. Í sjávarútvegi var kvótakerfið svonefnda — kerfi varanlegra og framseljanlegra aflakvóta — fest í sessi með margvíslegri löggjöf. Nokkur ágreiningur var þó milli stjórnarflokkanna, því að Alþýðuflokkurinn vildi taka upp auðlindagjald eða sölu veiðileyfa, en Davíð taldi, að það myndi raska rekstri útgerðarfyrirtækja um of. Jafnframt hóf ríkisstjórnin sölu ríkisfyrirtækja eða „einkavæðingu“. Alþýðuflokkurinn vildi þó ekki samþykkja sölu viðskiptabankanna tveggja í ríkiseigu.
Stjórnir Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 1995-2004
[breyta | breyta frumkóða]Alþýðuflokkurinn hafði klofnað 1994, þegar Jóhanna Sigurðardóttir gekk úr honum og stofnaði Þjóðvaka. Ríkisstjórnin hélt þó meiri hluta sínum í kosningunum 1995, en aðeins með einu atkvæði. Davíð myndaði því ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, og varð Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, utanríkisráðherra.[16][17] Davíð sagði á blaðamannafundi sumarið 1995, að kreppu síðustu ára væri lokið og góðæri tekið við. Við tók mikill vöxtur í atvinnulífinu næstu ár. Einnig voru tveir ríkisbankar seldir, Búnaðarbankinn og Landsbankinn, og mörg önnur opinber fyrirtæki. Sala bankanna sætti nokkurri gagnrýni, aðallega vegna þess að kaupendur Búnaðarbankans voru taldir tengjast Framsóknarflokknum, en ríkisendurskoðandi komst að þeirri niðurstöðu í sérstakri skýrslu, að ekkert hefði verið athugavert við hana. Davíð Oddsson gaf út smásagnasafnið Nokkrir góðir dagar án Guðnýjar 1997, en þegar hann varð fimmtugur 1998, kom út mikið afmælisrit eftir fjölda manns, helgað honum. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig fylgi í þingkosningunum 1999, þótt hann hefði haft stjórnarforystu í átta ár. Davíð gaf út annað smásagnasafn 2002, Stolið frá höfundi stafrófsins.
Samskipti Davíðs og ýmissa framámanna úr viðskiptalífinu hafa oft verið stirð. Þar má nefna Jón Ólafsson, sem oft er kenndur við Skífuna, og Jón Ásgeir Jóhannesson og aðra stjórnendur Baugs, en Jónarnir hafa báðir sakað Sjálfstæðisflokkinn um óeðlileg afskipti af fyrirtækjum sínum. Davíð hefur á móti látið í ljós áhyggjur af fákeppni á matvörumarkaði, þar sem Baugur hefur stóra hlutdeild, og einnig vegna eignarhalds sama fyrirtækis í stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins (sem nú heitir Dagsbrún hf.). Í kosningunum vorið 2003 tapaði Sjálfstæðisflokkurinn talsverðu fylgi. Þrátt fyrir það hélt ríkisstjórnin þingmeirihluta sínum, og sömdu stjórnarflokkarnir um að halda samstarfi sínu áfram, og tæki Halldór Ásgrímsson við stöðu forsætisráðherra eftir eitt og hálft ár. Var ákveðið að ráðast í frekari skattalækkanir. Tekjuskattur fyrirtækja var lækkaður í 18%, eignarskattur var felldur niður og erfðaskattur stórlega lækkaður. Tekjuskattur einstaklinga var einnig lækkaður.
Davíð beitti sér vorið 2004 fyrir frumvarpi, sem setti hömlur við eignarhaldi stórfyrirtækja á fjölmiðlum og samþjöppun eignarhalds. Fjölmiðlafrumvarpið svonefnda var mjög umdeilt, enda blasti við að það myndi aðallega bitna á Norðurljósum hf. (nú Dagsbrún hf.), fjölmiðlafyrirtæki sem var að stórum hluta í eigu Baugsfeðga. Frumvarpið var samþykkt eftir talsverðar breytingar sumarið 2004. En forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, synjaði frumvarpinu staðfestingar og var það í fyrsta skipti í sögu lýðveldisins að forseti synjaði frumvarpi frá Alþingi staðfestingar. Davíð gagnrýndi þá ákvörðun bæði vegna persónulegra tengsla forsetans við Baug og einnig vegna þess að stjórnarskrárákvæðið sem hann beitti væri í raun óvirkt þar sem lög hafa aldrei verið sett um hvernig framkvæma eigi þá þjóðaratkvæðagreiðslu sem mælt er fyrir um í því. Eftir nokkurt þóf samþykkti Alþingi að taka frumvarpið aftur, og varð því ekki úr þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvarpið. Skömmu eftir þessar málalyktir greindist Davíð með krabbamein í nýrum og hálsi, en hann náði bata og tók við stöðu utanríkisráðherra haustið 2004.
Íraksstríðið
[breyta | breyta frumkóða]Þann 18. mars árið 2003 lýsti Davíð, ásamt Halldóri Ásgrímssyni utanríkisráðherra, yfir stuðningi við fyrirætlanir Bandaríkjamanna, Breta og Spánverja um að fara í stríð gegn Írak ef stjórn Saddams Hussein færi ekki frá.[18] Vegna stuðningsyfirlýsingar Davíðs og Halldórs var Ísland sett á lista yfir „bandalag viljugra þjóða“ sem studdu hernað Bandaríkjanna í Írak.[19] Davíð og Halldór höfðu ekki samráð við utanríkismálanefnd Alþingis við stuðningsyfirlýsingu sína við styrjöldina og vísuðu til þess að ekki væri um að ræða meiriháttar ákvörðun í utanríkismálum.[20] Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sökuðu ríkisstjórnina um að brjóta gegn þingsköpum með því að ganga fram hjá utanríkismálanefndinni við ákvörðunina.[21]
Stuðningur stjórnar Davíðs við Íraksstríðið naut lítils fylgis meðal Íslendinga. Stuttu eftir að Íraksstríðið hófst sögðust 76 prósent landsmanna vera andvíg stuðningi Íslands við styrjöldina í skoðanakönnun sem Fréttablaðið birti.[21] Í könnun Gallup árið 2005 sögðust 84 prósent aðspurðra vera þeirrar skoðunar að Ísland hefði ekki átt að vera á lista yfir viljugar þjóðir sem styddu hernaðaraðgerðir Bandaríkjamanna í Írak.[22]
Utanríkisráðherra
[breyta | breyta frumkóða]Í utanríkismálum hefur var Davíð eindreginn stuðningsmaður vestræns varnarsamstarfs og bandamaður Bandaríkjanna, en ekki hlynntur aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann gegndi stöðu utanríkisráðherra þó aðeins í eitt ár, því að haustið 2005 tilkynnti hann, að hann myndi ekki gefa kost á sér til formanns í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi, sem þá var framundan, og hætta um leið afskiptum af stjórnmálum. Kvaðst hann vilja rýma fyrir yngri mönnum. Geir H. Haarde, sem verið hafði varaformaður, var kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins og tók við stöðu utanríkisráðherra, en Davíð var skipaður aðalbankastjóri Seðlabanka Íslands af Halldóri Ásgrímssyni sem þá var orðinn forsætisráðherra í stað Davíðs.
Seðlabankastjóri
[breyta | breyta frumkóða]Í september árið 2005 tilkynnti Davíð að hann hygðist hætta í stjórnmálum og taka við stöðu seðlabankastjóra sem Halldór Ásgrímsson, þáverandi forsætisráðherra, skipaði hann í. Hann sagði af sér embætti ráðherra 27. september og tók við stöðu seðlabankastjóra 25. október sama ár. Sem seðlabankastjóri hefur hann oft verið talsmaður óvinsælla ákvarðana Seðlabanka Íslands um hækkanir á stýrivöxtum vegna verðbólguþrýstings á íslenskt efnahagslíf árin 2005 og 2006. Einnig hefur hann gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir skort á aðhaldi við þær aðstæður sem efnahagslífið bjó við.
Þáttur Davíðs í bankahruninu
[breyta | breyta frumkóða]Davíð var afar áberandi þegar efnahagskreppa reið yfir Ísland um haustið 2008. Hann kom sem seðlabankastjóri að umdeildum samningum við stjórnendur Glitnis um kaup ríkisins á 75% hlut í bankanum, sem ríkisstjórn Íslands samþykkti, eftir að bankinn leitaði til seðlabankans um lán til þrautavara.
Þann 7. október 2008 kom Davíð fram í viðtali í Kastljósi RÚV. Þar kom fram að hann teldi íslensku krónuna eiga góða möguleika á að rétta úr kútnum í þeim ólgusjó sem hún væri í um þær mundir. Hann talaði um þá sem hann kallaði „óreiðumenn“ sem íslenska ríkið gæti ekki borgað skuldir fyrir. Davíð sagði það gott að eiga góða vini í Rússlandi og sá enga meinbugi á því að taka risalán hjá Rússum til að styrkja gjaldeyrisforðann. Hann hélt því skýrt fram að íslenska þjóðin myndi ekki borga erlendu skuldir bankanna. Hann taldi mögulegt að skilja að innlendar og erlendar skuldir íslensku bankanna og greiða aðeins 5 til 15 % af erlendu kröfunum, svipað og Bandaríkjamenn hefðu gert þegar bandaríski bankininn Washington Mutual fór í þrot.
Tímaritið Time nefndi Davíð á lista yfir 25 einstaklinga á alþjóðavettvangi sem bera mesta ábyrgð á efnahagshruninu.[23]
Afsögn
[breyta | breyta frumkóða]Þann 8. febrúar 2009 var Davíð Oddsson neyddur til þess að segja af sér sem seðlabankastjóri af forætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.
Ritstjóri
[breyta | breyta frumkóða]Þann 29. september 2009 var tilkynnt að Davíð hefði verið ráðin ritstjóri Morgunblaðsins ásamt Haraldi Johannessen. Þann 17. janúar 2018 braut Davíð Oddsson blað í sögu Morgunblaðsins þegar hann hætti ekki sem ritstjóri á sjötugsafmæli sínu en allir fyrrrennarar Davíðs í stöðunni hafa hætt á sjötugsaldri. Davíð er enn starfandi sem ritstjóri blaðsins.
Áhrif og umsagnir
[breyta | breyta frumkóða]Í skoðanakönnunum, á meðan Davíð Oddsson gegndi forystuhlutverki í stjórnmálum, 1991-2005, var hann oft talinn með vinsælustu stjórnmálamönnunum, en einnig oft með þeim óvinsælustu á sama tíma.[24][25][26] Hann naut óskoraðs trausts flokkssystkina sinna og var á landsfundum jafnan kjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins með nær öllum greiddum atkvæðum. Í stjórnartíð hans gerbreyttist atvinnulífið, varð miklu frjálsara og opnara en áður, þótt auðvitað séu til ýmsar skýringar á því aðrar en frumkvæði Davíðs eins, til dæmis svipuð þróun víða um heim og aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.
Af stuðningsmönnum sínum hefur hann verið hann kallaður hugrakkur, röggsamur og skörulegur, skjótur til ákvarðana og hiklaus að segja álit sitt, hvort sem öðrum líkaði betur eða verr. Gagnrýnendur segja hann hinsvegar vera ráðríkan, reiðigjarnan og langrækinn, og hefði það komið fram í deilum hans við Jón Ólafsson og Baugsfeðga. Hallgrímur Helgason rithöfundur birti 21. janúar 2003 grein um „bláu höndina“ í Morgunblaðinu, þar sem hann lét að því liggja, að Davíð ætti einhvern þátt, hugsanlega óbeinan, í lögreglurannsókn á Baugi, sem hafði hafist nokkrum mánuðum áður. Algeng gagnrýni á hann er að á valdatíma hans hafi tekjuskipting orðið ójafnari, ekki væri skeytt um lítilmagnann og allt mælt á vogarskálum arðsemi.
Í áramótaávarpi 2002 tilkynnti Davíð að ríkisstjórnin hefði hug á að kaupa Gljúfrastein af ekkju Halldórs Laxness og opna þar safn til „að heiðra minningu skáldsins“, eins og það var orðað. Varð svo og ríkissjóður greiddi talsverða fjárhæð fyrir húsið og listaverk, sem þar voru innanstokks. (Látið var liggja að því að ekkja Halldórs „gæfi“ aðra innanstokksmuni og húsgögn til væntanlegs safns.) Sumarið 2003 hófust umfangsmiklar endurbætur og viðgerð á húsinu, sem lauk haustið 2004 og safnið var síðan opnað með pompi og prakt.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar í þingkosningunum 2003, hélt 9. febrúar 2003 ræðu í Borgarnesi, þar sem hún varpaði fram þeirri spurningu, hvort lögreglurannsóknin á Baugi og skattrannsókn á Jóni Ólafssyni tengdist því, sem hún taldi fjandskap Davíðs í garð einstakra athafnamanna. Stuðningsmenn Davíðs, til dæmis Björn Bjarnason dómsmálaráðherra, sem heldur úti vefsíðu um stjórnmál, hafa vísað þessu harðlega á bug og halda fram að áhyggjur Davíðs af atvinnulífinu hafi verið almenns eðlis. Þær hafi verið um það, að tryggja verði frjálsa samkeppni og dreifingu hagvaldsins.
Í kjölfar meðferðar gegn krabbameini á Landspítala 2004 tilkynnti Davíð að hann hefði hug á að nota fé sem fékkst við sölu Símans til að byggja nýtt hátæknisjúkrahús. Varð það fljótlega samþykkt af ríkisstjórninni og eitt af síðustu verkum Davíðs sem forsætisráðherra var að tilkynna byggingu nýja hátæknispítalans. Í framhaldi var rykið dustað af 30 ára gömlum hugmyndum um færslu Hringbrautar til suðurs, sem hófust árið eftir.
Loftslagsmál
[breyta | breyta frumkóða]Á ferli sínum hefur Davíð ítrekað efast um viðtekin vísindi um loftslagsbreytingar og hnattræna hlýnun og andmælt aðgerðum til þess að sporna við þeim. Í kringum aldamótin stóð stjórn Davíðs fyrir því að Ísland neitaði að gerast aðili að Kýótósáttmálanum um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda nema að samþykktu sérákvæði sem heimilaði Íslendingum að undanskilja losun á tæplega 3,3 milljónum tonna koltvísýringsígilda frá skuldbindingum sínum gagnvart samningnum.[27] Í áramótaávarpi sínu árið 1997 réttlætti Davíð afstöðu sína með því móti að ekki væri rétt að skapa ótta hjá fólki með vísan til „fræða sem byggja á veikum grunni.“[28] Í ræðu á landsþingi Sjálfstæðisflokksins árið 2005 ítrekaði Davíð þá afstöðu sína að Kýótósáttmálinn byggði á „afar ótraustum grunni“ og að umræðan um loftslagsbreytingar væri oft borin uppi af „óræðri tilfinningasemi og í versta falli innantómum áróðri.“[29]
Í sjónvarpskappræðum fyrir forsetakosningarnar 2016 neitaði Davíð því hins vegar að hann efaðist um vísindalegar forsendur loftslagsbreytinga og sagði það ekki ganga upp að „ætla sér að neita reiknireglunum og vísindatækjunum.“ Aftur á móti sagðist hann efast um nytsemi aðgerða gegn loftslagsbreytingum á meðan stór ríki á borð við Bandaríkin, Kína og Indland tækju ekki þátt í þeim.[30]
Á ritstjórnartíð Davíðs hjá Morgunblaðinu hefur blaðið reglulega birt ritstjórnargreinar og skoðanapistla þar sem veruleika loftslagsbreytinga er hafnað eða tilraunir til að sporna við þeim eru gagnrýndar.[31][32]
Davíð Oddsson í fjölmiðlum
[breyta | breyta frumkóða]- Meðan Davíð Oddsson var forsætisráðherra og síðar Seðlabankastjóri var hann oft skopskældur í Spaugstofunni, en sá sem lék hann oftar en aðrir var Örn Árnason. Oft var einnig gert grín að Davíð í Áramótaskaupum Sjónvarpsins, eins og árið 2001, t.d. með laginu „Dabbi kóngur“ (sjá myndband) og árið 2002.
- Á ársfundi Seðlabanka Íslands 2007 lofaði Davíð viðbrögð bankanna við mótbyr á árinu 2006, en sagði að hitt stæði þó auðvitað eftir að mönnum væru nú ljósari en áður þær hættur sem gætu leynst í framtíðinni. „Alþjóðleg skilyrði á markaði geta breyst snögglega. Lánsfjáraðgengi, sem á undanförnum misserum hefur verið með eindæmum hagfellt fyrir íslenska banka sem og aðra, kann að breytast skyndilega við óvæntar aðstæður. Mikilvægt er að vera við því búinn að slíkt geti gerst.“[33]
- Í nóvember 2007 hélt Davíð ræðu á fundi Viðskiptaráðs.[34] Þar varði hann vaxtahækkun Seðlabanka og tilvistarrétt krónunnar, auk þess að gagnrýna þenslu hins opinbera, skattalækkanir, launaskrið og breytingar á húsnæðislánamarkaði. Loks benti Davíð á að þó að margt væri jákvætt við útrás íslenskra fyrirtækja væru tvær hliðar á þeirri sögu:[35] „Hin hliðin á útrásinni er þó sú og framhjá henni verður ekki horft, að Ísland er að verða óþægilega skuldsett erlendis. [...] Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma.“ Gagnrýni á ræðuna kom víða fram og lýsti til dæmis Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, því yfir á fundi í borgarstjórn Reykjavíkur að með ræðunni væri fundinn „byltingarforingi“ í seðlabankastjóra.[36]
- Í apríl 2008 flutti Davíð ræðu á ársfundi Seðlabankans. Á fundinum varði hann hátt vaxtastig bankans, gagnrýndi að há ríkisútgjöld sem ýttu undir þenslu, skuldasöfnun þjóðarbúsins og þá þá ríkjandi skoðun að einungis tímabundið vantraust ríkti á markaði og „ódýra fjármagnið hlyti því að leysast úr læðingi á ný og himnaríkis Paradísarsæla umlykja markaðinn“. Sagði Davíð að þótt „dæmi sögunnar sanni að markaðurinn sé ólíkindatól, er hætt við að vinningshlutfallið í biðinni og voninni sé lakara en í Lottóinu. Því er rétt að ganga út frá því sem vísu, að ástandið muni lítið lagast í bráð og þótt það kunni að lagast fari því fjarri að allt verði eins og áður. Hafi menn ekki þegar tekið sér tak er ekki lengur neins að bíða. Leita þarf allra leiða til að styrkja lausafjárstöðu fyrirtækjanna, ekki síst fjármálafyrirtækjanna og samhliða þarf að skoða markaðsmódelin rækilega upp á nýtt. Það má segja að á knattspyrnumáli myndi þetta þýða, að nú sé rétt að pakka í vörn og láta sér nægja marksvon með hraðaupphlaupi ef tækifæri bjóðast þrátt fyrir allt. Þótt ýkt bölsýni sé auðvitað til óþurftar er jafn vont eða verra að gylla stöðuna fyrir sjálfum sér og almenningi og gefa til kynna að einhvers konar töfraleið sé til út úr þessum vanda. “Að ljúga að öðrum er ljótur vani, að ljúga að sjálfum sér hvers manns bani”, sagði þar.“ Sagði Davíð hitt vera annað mál að borið hefði á vafasamri hegðun á alþjóðlegum mörkuðum og nefndi meðal annars dæmi um „rógsherferð“ gegn breska HBOS bankanum. Sagði hann að „sú atlaga sem þessa dagana er gerð að íslenskum bönkum og íslenska ríkinu, en tryggingarálög á það hækkuðu í dag í yfir 400 punkta sem er fráleitt, lykta[ði] óþægilega af því að óprúttnir miðlarar hafi ákveðið að gera úrslitatilraun til að brjóta niður íslenska fjármálakerfið. Þeim mun ekki takast það. En til álita hlýtur að koma að gera alþjóðlega opinbera rannsókn á slíku tilræði við heilbrigð fjármálakerfi.“ Í niðurlagi ræðunnar sagði Davíð: „Gjaldeyrisforði bankans hefur aldrei verið stærri en nú og eigið fé Seðlabankans aldrei hærra. Á móti er bent á að bankarnir hafi stækkað mikið og því sé forðinn hlutfallslega minni en áður, eins og það er orðað. Rétt er að athuga að bankar hér sem annars staðar reka starfsemi sína á eigin ábyrgð og þurfa að sýna fyrirhyggju og trausta áhættustýringu. Samkvæmt yfirlýsingu þeirra sjálfra sem Fjármálaeftirlitið hefur ekki gert athugasemdir við, er fjármögnunarstaða þeirra síst lakari en sambærilegra erlendra banka. Þeir þurfa því ekki að leita á óhagstæða lánamarkaði á undan öðrum. Hinu er ekki að neita að heildarskuldir þjóðarbúsins eru of háar og má rekja þær til ákvarðana fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja á markaði.“[37]
- Davíð kom í viðtal í Kastljósi RÚV 25. febrúar 2009 og ræddi m.a. aðkomu sína og Seðlabankans að bankahruninu.
- Í mars 2009 var Davíð Oddsson valinn versti Seðlabankastjóri í Evrópu af Dagens Nyheter í Svíþjóð, og sagt að hann kenndi öllum um það sem illa fór nema sjálfum sér.[38]
- Í ágúst 2009 sagði Anne Sibert, hagfræðiprófessor við Birkbeck College í London, sem situr í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, að Davíð Oddsson hefði ekki búið yfir nægilegri þekkingu í hlutverki sínu sem Seðlabankastjóri til að koma í veg fyrir bankahrunið.[39]
- Í byrjun desember 2009 skrifaði Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, grein í Pressuna og vændi Davíð sem seðlabankastjóra um að hafa gerst sekur um umboðssvik með því að veita stórfelld lán til gjaldþrota bankakerfis. Sigurður taldi fróðlegt að fá upplýst hversu háar fjárhæðir Seðlabankinn hafi lánað bönkunum á árinu 2008 þegar þeir voru að hruni komnir líkt og Davíð átti að hafa sagt við Geir H. Haarde allt fram að þjóðnýtingu Glitnis. Sigurður tók fram að endurfjármögnun ríkissjóðs á Seðlabanka Íslands hafði verið 581 milljarðar króna, en af þeirri fjárhæð mætti rekja um 270 milljarða króna til tapaðra veðlána bankans til hérlendra fjármálafyrirtækja í bankastjóratíð Davíðs Oddssonar.[40][41]
- Þremur dögum áður en skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis kom út, komu fréttir um það á Vísi.is að Davíð Oddsson væri farinn úr landi og segir þar: Í ljósi þess að Davíð var seðlabankastjóri þegar bankahrunið varð og nokkra mánuði eftir hrunið þá má gera ráð fyrir því að drjúgur hluti skýrslunnar muni fjalla um hans embættisverk.[42] Sama dag benti vefritið Eyjan á að útgefendur Morgunblaðsins hefðu lýst því yfir við ráðningu Davíðs á ritstjórastól að hann mundi ekki koma að umfjöllun blaðsins um skýrslu rannsóknarnefndarinnar.[43]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Nýir ritstjórar til starfa“. 25. október 2009.
- ↑ „Davíð vinsælastur“ á Mbl.is 20. júlí 1998 (Skoðað 25. júlí 2010).
- ↑ „Davíð og Ingibjörg Sólrún vinsælust“ á Mbl.is 7. janúar 2003 (Skoðað 25. júlí 2010).
- ↑ „Andlát: Ingibjörg Kristín Lúðvíksdóttir“. www.mbl.is. Sótt 4. ágúst 2019.
- ↑ 5,0 5,1 „Við straumhvörf“. Morgunblaðið. 13. október 2005.
- ↑ „Við straumhvörf“. Morgunblaðið. 13. október 2005.
- ↑ „„Þú ert sjálfur guðjón bak við tjöldin"“. Morgunblaðið. 26. janúar 1969.
- ↑ „„Uppákoma" við Glæsibæ“. 11. maí 1974.
- ↑ „Það getur oltið á þér - heimsókn til Davíðs Oddssonar og fjölskyldu“. Morgunblaðið. 20. maí 1982.
- ↑ „„Byrjum á að gera úttekt í fjármálunum"“. Dagblaðið Vísir. 24. maí 1982.
- ↑ „Fækkun borgarfulltrúa skal keyrð í gegn“. Þjóðviljinn. 24. maí 1982.
- ↑ „Eimreiðarhópurinn stefndi aldrei að valdatöku í Sjálfstæðisflokknum“. Þjóðviljinn. 17. desember 1983.
- ↑ „Viðgerðir í Viðey“. Alþýðublaðið. 19. ágúst 1986.
- ↑ „Víðtæk samstaða í flestum hinna tuttugu málefnanefnda“. Morgunblaðið. 10. október 1989.
- ↑ „Kapphlaupið í himnastiganum“. Morgunblaðið. 3. mars 1991.
- ↑ „Meirihlutinn með Alþýðuflokknum væri of knappur“. Dagblaðið Vísir. 19. apríl 1995.
- ↑ „Ríkisstjórnarskipti tveimur vikum eftir kosningar“. Morgunblaðið. 25. apríl 1995.
- ↑ „Taka undir Azoreyjayfirlýsingu“. Morgunblaðið. 18. mars 2003. bls. 1.
- ↑ Róbert Jóhannsson (20. mars 2023). „Frelsun Íraks á fölskum forsendum“. RÚV. Sótt 20. mars 2023.
- ↑ Svanur Kristjánsson (7. mars 2020). „Davíð Oddsson: Bjargvættur eða skaðvaldur?“. Kjarninn. Sótt 20. mars 2023.
- ↑ 21,0 21,1 „Davíðs saga Oddssonar: Einkavæðingin, Íraksstríðið, Big Mac og Bermúdaskál“. Vísir. 11. maí 2016. Sótt 20. mars 2023.
- ↑ „Gallup stendur við könnunina“. Vísir. 10. janúar 2005. Sótt 29. apríl 2024.
- ↑ „25 People to Blame for the Financial Crisis - Davíð Oddsson“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. október 2011. Sótt 30. september 2011.
- ↑ „Davíð vinsælasti og óvinsælasti stjórnmálamaðurinn samkvæmt skoðanakönnun“. Sótt 3. apríl 2014.
- ↑ „Steingrímur er aftur á toppi vinsælarlistans - en Davíð er áfram óvinsælasti stjórnmálamaðurinn“. Sótt 3. apríl 2014.
- ↑ „Enginn skákar Davíð“. Sótt 3. apríl 2014.
- ↑ „„Íslenska ákvæðið" fríaði Ísland ábyrgð á tæplega árslosun“. Vísir. 28. ágúst 2021. Sótt 12. nóvember 2021.
- ↑ Davíð Oddsson. „Laun hækka – skattar lækka“. Morgunblaðið. bls. 34-35.
- ↑ Guðmundur Hörður Guðmundsson (9. nóvember 2005). „Efasemdamaðurinn Davíð“. Vísir. Sótt 12. nóvember 2021.
- ↑ Baráttan um Bessastaði, sjónvarpskappræður á RÚV, 3. júlí 2016.
- ↑ Trausti Hafsteinsson (3. nóvember 2021). „Davíð og Greta: „Þrjátíu þúsund ráðstefnuljón höfð að fíflum"“. Miðjan. Sótt 19. júlí 2022.
- ↑ Hjálmar Friðriksson (19. júlí 2022). „Einar veðurfræðingur hjólar í Moggann – Illugi segir Davíð hata starfsmenn sína“. Mannlíf. Sótt 19. júlí 2022.
- ↑ Þjóðarbúið senn á sléttari sjó; af mbl.is 31. mars 2007
- ↑ Ræða Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á morgunfundi Viðskiptaráðs Íslands 6. nóvember 2007
- ↑ „Ræða Davíðs Oddssonar - Fréttir - Viðskiptaráð Íslands“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. ágúst 2014. Sótt 24. apríl 2010.
- ↑ Björn Ingi: Kannski er byltingarforinginn fundinn mbl.is 6. nóvember 2007
- ↑ Ræða Davíðs Oddssonar, formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands, á ársfundi bankans Geymt 27 nóvember 2010 í Wayback Machine 28. mars 2008
- ↑ Europas sämsta centralbankschef Geymt 23 mars 2009 í Wayback Machine af DN.is
- ↑ Segir Davíð ekki hafa búið yfir nægri reynslu og þekkingu Geymt 12 ágúst 2009 í Wayback Machine visir.is 9. ágúst 2008
- ↑ Lögmaður spyr hvort Davíð hafi brotið lög visir.is 08. des. 2009
- ↑ Skuldin er arfleifð Sjálfstæðisflokksins Geymt 12 desember 2009 í Wayback Machine pressan.is 8. des 2009
- ↑ Davíð Oddsson farinn úr landi visir.is 9. apr. 2010
- ↑ Davíð Oddsson kominn í frí Geymt 15 apríl 2010 í Wayback Machine eyjan.is 9. apr. 2010
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Davíð Oddsson - Ævi og störf sérblað með Morgunblaðinu í október 2005.
- Æviágrip Davíðs Oddssonar á stjórnarráðsvefnum
- Yfirlit um einkavæðingu í stjórnartíð Davíðs Oddssonar
- Hólaræða Davíðs Oddssonar 15. ágúst 1999
- Pistill Björns Bjarnasonar á tíu ára stjórnarafmæli Davíðs Oddssonar
- Grein Hallgríms Helgasonar, „Baugur og bláa höndin“
- Borgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur
- Svar Björns Bjarnasonar við Borgarnesræðunni
- Dómur í máli Jóns Ólafssonar gegn Davíð Oddssyni
- Framsöguræða Davíðs Oddssonar með fjölmiðlafrumvarpinu 3. maí 2004
- Grein eftir Hannes H. Gissurarson við brottför Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum Geymt 28 september 2007 í Wayback Machine
- Grein eftir Þorvald Gylfason við brottför Davíðs Oddssonar úr stjórnmálum
- Stjörnu-Eiríkur skrifar bók um Davíð Oddsson; grein í Pressunni 1989
- Davíð Oddsson; grein í Morgunblaðinu 13. okt. 2005
- Samstarfserfiðleikar höfðu áhrif; af Rúv.is 12. apríl 2010
- Nærvera Davíðs hafði vond áhrif; grein úr DV 2010[óvirkur tengill]
- Eitt ár eftir með Davíð Fréttablaðið 13. september 2003
- Bankahrunið 2008: Útdráttur úr skýrslu, eftir Hannes H. Gissurarson
Verk og greinar eftir Davíð Oddsson
Viðtöl við Davíð Oddsson
- Þá býr maður sér til dálitla nýja veröld; grein í Morgunblaðinu 1981
- Þær skipulagshugmyndir sem nú á að keyra í gegn eru gjörsamlega óraunhæfar og óframbærilegar; viðtal í Morgunblaðinu 1981
- Það getur oltið á þér; grein í Morgunblaðinu 1982
- Á meðan ég ræð verður Sjálfstæðisflokkurinn breiður fjöldaflokkur; viðtal í Morgunblaðinu 1991
- Skellurinn má ekki koma hart niður á launafólki; viðtal í Morgunblaðinu 1991
- Grundvöllur flokksins er sterkur; viðtal í Morgunblaðinu 1993
- Sterkur fundur fyrir bandalagið; viðtal í Morgunblaðinu 1994
- Forsetaembættið er í eðli sínu pólitískt; viðtal í Morgunblaðinu 1996
- Vaxtaverkir á frjálsum markaði betri en lokað kerfi; viðtal í DV 2002
- Stórir draumar lítillar þjóðar; viðtal í Vísbendingu 2003
Fyrirrennari: Egill Skúli Ingibergsson |
|
Eftirmaður: Markús Örn Antonsson | |||
Fyrirrennari: Steingrímur Hermannsson |
|
Eftirmaður: Halldór Ásgrímsson | |||
Fyrirrennari: Halldór Ásgrímsson |
|
Eftirmaður: Geir H. Haarde | |||
Fyrirrennari: Þorsteinn Pálsson |
|
Eftirmaður: Geir H. Haarde | |||
Fyrirrennari: Friðrik Sophusson |
|
Eftirmaður: Friðrik Sophusson |
- Kjörnir Alþingismenn 1991-2000
- Kjörnir Alþingismenn 2001-2010
- Fólk fætt árið 1948
- Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins
- Borgarstjórar Reykjavíkur
- Íslenskir lögfræðingar
- Íslenskir rithöfundar
- Íslenskir seðlabankastjórar
- Formenn Sjálfstæðisflokksins
- Forsætisráðherrar Íslands
- Frambjóðendur til embættis forseta Íslands 2016
- Handhafar riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu
- Handhafar stórkross Hinnar íslensku fálkaorðu
- Ritstjórar Morgunblaðsins
- Stúdentar úr Menntaskólanum í Reykjavík
- Utanríkisráðherrar Íslands
- Varaformenn Sjálfstæðisflokksins
- Þingmenn Sjálfstæðisflokksins
- Manneskja ársins á Rás 2