Kristján Þór Júlíusson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kristján Þór Júlíusson (KÞJ)

Fæðingardagur: 15. júlí 1957 (1957-07-15) (66 ára)
Fæðingarstaður: Dalvík
1. þingmaður Norðausturkjördæmis
Flokkur: Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðisflokkurinn
Þingsetutímabil
2007-2009 í Norðaust. fyrir Sjálfstfl.
2009-2013 í Norðaust. fyrir Sjálfstfl.
2013-2021 í Norðaust. fyrir Sjálfstfl.
= stjórnarsinni
Embætti
1998-2007 Bæjarstjóri á Akureyri
2012-2013 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins
2013-2017 Heilbrigðisráðherra
2017 Menntamálaráðherra
2017-2021 Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
Tenglar
Æviágrip á vef Alþingis

Kristján Þór Júlíusson (f. 15. júlí 1957 á Dalvík) er fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri.[1] Kristján Þór sat á Alþingi frá 2007 til 2021 og var 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins frá 2012 til 2013. Kristján Þór var heilbrigðisráðherra á árunum 2013 til 2017, menntamálaráðherra árið 2017 og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá 2017 til 2021. Þann 13. mars 2021 sagði hann í viðtali að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í næsta prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum.

Æviferill[breyta | breyta frumkóða]

Kristján Þór lauk stúdentsprófi við MA 1977 og prófi í bókmenntafræði og íslensku með uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1984 og tók kennsluréttindapróf HÍ 1984. Einnig hefur hann lokið fyrsta og öðru stigi skipstjórnarnáms. Foreldrar Kristjáns Þórs eru Ragnheiður Sigvaldadóttir og Júlíus Kristjánsson. Eiginkona hans er Guðbjörg Ringsted myndlistarmaður og eiga þau saman fjögur börn, Maríu, Júlíus, Gunnar og Þorstein.

Kristján Þór var stýrimaður og skipstjóri á skipum frá Dalvík 1978-1981 og á sumrin 1981-1985, kennari við Stýrimannaskólann á Dalvík 1981-1986 og kennari við Dalvíkurskóla 1984-1986. Það ár var hann ráðinn bæjarstjóri á Dalvík og gegndi því starfi 1986-1994. Hann var bæjarstjóri á Ísafirði 1994-1997 og á Akureyri 1998-2007. Hann sat jafnframt í bæjarstjórn Akureyrar á árunum 1998-2010 fyrir Sjálfstæðisflokkinn og var forseti bæjarstjórnar 2007-2009.

Kristján Þór hefur gegnt fjölmörgum trúnaðarstörfum og átt sæti í stjórn margra fyrirtækja og stofnana. Hann sat í stjórn Útgerðarfélags Dalvíkinga hf. 1987-1990, var formaður stjórnar Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar hf. 1987-1992, sat í stjórn Söltunarfélags Dalvíkur hf. 1987-1993 og stjórn Sæplasts hf. 1988-1994. Hann var í stjórn Togaraútgerðar Ísafjarðar hf. 1996-1997, formaður stjórnar Samherja hf. 1996-1998 og formaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna Akureyrarbæjar 1998-2007. Hann hefur setið í stjórn Eignarhaldsfélagsins Brunabótafélags Íslands síðan 1999 og sat í stjórn Landsvirkjunar 1999-2007, í stjórn Fjárfestingabanka atvinnulífsins 1999-2000 og í Ferðamálaráði Íslands 1999-2003. Hann var formaður stjórnar Lífeyrissjóðs Norðurlands 2000-2007, í stjórn Fasteignamats ríkisins 2000-2007, í stjórn Íslenskra verðbréfa 2002-2009 og í ráðgjafanefnd Tölvuþjónustu sveitarfélaga 1988-1990. Hann sat í stjórn Fjórðungssambands Norðlendinga 1989-1990 og í Héraðsráði Eyjafjarðar 1990-1994, var formaður stjórnar Hafnasambands sveitarfélaga 1994-1997, formaður stjórnar Eyþings 1998-2002 og í stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga 1998-2007.

Kristján sat á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðausturkjördæmi 2007-2021 og leiddi lista flokksins í kjördæminu allan þann tíma.

Kristján Þór var heilbrigðisráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2013-2017, menntamálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar 2017 og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, VG og Framsóknarflokks 2017-2021. Kristján var 2. varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2012-2013.

Kristján hefur setið í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins síðan 2002 og var formaður sveitarstjórnarráðs Sjálfstæðisflokksins 2002-2009.

Í skoðanakönnun sem Maskína gaf út þann 5. mars 2021 mældist Kristján óvinsælasti ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, en þar sögðust 64 prósent viðmælenda óánægð með störf hans og aðeins níu prósent ánægð.[2] Kristján tilkynnti þann 13. mars að hann hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs í Alþingiskosningunum 2021.[3]

Guggumálið[breyta | breyta frumkóða]

Frystitogarinn Guðbjörg („nýja Guggan“) kom ný til Ísafjarðar í október 1994 og var þá stærsta og glæsilegasta fiskiskip sem hafði verið smíðað fyrir Íslendinga. Útvegsfyrirtækið Samherji og Hrönn unnu mikið saman á þessum árum og útvegaði Samherji mikið af rækjukvóta á Guðbjörgina. Guðbjörgin var frystitogari og kom afli hennar því lítið til vinnslu á Ísafirði, en hún landaði þar af og til engu að síður. Þessir erfiðleikar leiddu svo til þess að sameining Samherja og Hrannar var ákveðin tveimur árum eftir að skipið kom nýtt til landsins.

Þegar sameiningin var rædd sagði Kristján Þór, þáverandi bæjarstjóri Ísafjarðar, meðal annars í Morgunblaðinu: „Mér finnst eðlilegt að forsvarsmenn þessara fyrirtækja geri þær ráðstafanir, sem þeim þykir eðlilegt sjálfum. Þeir eiga þessi fyrirtæki og hafa full umráð yfir þeim. Skoðanir sveitarstjórnarmanna á þessum málum geta verið æði misjafnar, en áhrif bæjarfélaga, þegar þau eiga ekki hlut í viðkomandi fyrirtækjum, eru engin.“

Hann sagði að það lægi í augum uppi að sameining af þessu tagi gæti komið sveitarfélaginu bæði vel og illa, það ylti allt á því hvernig forsvarsmenn þessara fyrirtækja spiluðu úr sínum málum. „Ég er viss um það að eigendur Samherja sem og eigendur Hrannar muni eftir sem áður gera það besta úr kvótanum sem hægt er,“ sagði Kristján Þór. [4]

Ísfirðingar voru þó ekki í rónni. Þorsteinn Már Baldvinsson reyndi að sannfæra Ísfirðinga og sagði við sameininguna „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði.“ Þessi orð urðu fleyg. Hann sló einnig á óánægju Ísfirðinga með því að gera Kristján að stjórnarformanni Samherja. Í þetta lásu Ísfirðingar heiðursmannasamkomulag um að þeir gengju fyrir störfum um borð. Það þótti þó bregðast þegar Akureyringur var ráðinn í hið veigamikla starf yfirvélstjóra um borð. Guðbjörgin kom auk þess ekki til Ísafjarðar eftir sameininguna. Hún var eftir þetta við veiðar á Flæmska hattinum, meðal annars á pólskum veiðiheimildum, þar til hún var leigð til þýskrar útgerðar um haustið og loks seld til þýska útgerðafélagsins DFFU, sem er reyndar í eigu Samherja, árið 1999.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Greinar eftir Kristján

Í fjölmiðlum

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sex karlar og fimm konur“, RÚV, 30. nóvember 2017.
  2. Sunna Sæmundsdóttir (5. mars 2021). „Kristján Þór lang óvinsælasti ráðherrann“. Vísir. Sótt 13. mars 2021.
  3. Kjartan Kjartansson (13. mars 2021). „Kristján Þór ekki í framboð aftur“. Vísir. Sótt 13. mars 2021.
  4. Guðbjörg IS 46 verður áfram gerð út frá Ísafirði


Fyrirrennari:
Guðbjartur Hannesson
Heilbrigðisráðherra
(23. maí 201311. janúar 2017)
Eftirmaður:
Óttarr Proppé