Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson (IllG) | |
Illugi Gunnarsson | |
Fæðingardagur: | 26. ágúst 1967 |
---|---|
Flokkur: | Sjálfstæðisflokkurinn |
Þingsetutímabil | |
2007-2009 | í Reykv. s. fyrir Sjálfstfl. ✽ |
2009-2013 | í Reykv. n. fyrir Sjálfstfl. |
2013-2016 | í Reykv. n. fyrir Sjálfstfl. ✽ |
✽ = stjórnarsinni | |
Embætti | |
2009-2010 | þingflokksformaður |
2012-2013 | þingflokksformaður |
2013-2017 | mennta- og menningarmálaráðherra |
Tenglar | |
Æviágrip á vef Alþingis – Vefsíða |
Illugi Gunnarsson (f. 26. ágúst 1967 á Siglufirði) er fyrrum mennta- og menningarmálaráðherra og oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður. Illugi var þingflokksmaður Sjálfstæðisflokksins 2009-2010 og aftur 2012-2013. Illugi var menntamálaráðherra á árunum 2013-2017.
Menntun og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Foreldrar hans fluttust til Hafnarfjarðar þar sem Illugi lauk grunnskólanámi við Víðistaðaskóla. Hann lauk stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík árið 1987, lauk B.Sc.-gráðu í hagfræði við Háskóla Íslands árið 1995 og MBA-námi við London Business School árið 2000. Á meðan námi hans við Háskóla Íslands stóð sat Illugi í stjórn Vöku, félagi lýðræðissinnaðra stúdenta árin 1989-1990. Hann var oddviti Vöku í stúdentaráði 1992-1993 og fulltrúi stúdenta í háskólaráði 1992-1994. Þá var Illugi formaður Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík 1997-1998.
Árið 2000 réði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, Illuga sem aðstoðarmann sinn og fylgdi Illugi Davíð í utanríkisráðuneytið. Sagði hann upp störfum um leið og Davíð hætti haustið 2005.
Ferill á Alþingi
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2007 var Illugi kjörinn á Alþingi. Hann var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins 2009-2010 og aftur 2012-2013.
Illugi var menntamálaráðherra í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins 2013-2017.
Afstaða til Evrópusambandsins
[breyta | breyta frumkóða]Grein Illuga og Bjarna Benediktssonar, sem þá var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í Fréttablaðinu 13. desember 2008 vakti mikla athygli, en í greininni töluðu þeir Bjarni mjög fyrir því farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið. Daginn áður en skrif Illuga og Bjarna birtust hafði sérstök nefnd innan Sjálfstæðisflokksins um Evrópumál tekið til starfa og voru skrifin í Fréttablaðið almennt túlkuð sem fyrirboði um að Sjálfstæðisflokkurinn hygðist taka upp stefnu hlynnta Evrópusambandinu.[1]
Bjarni og Illugi töldu að til lengri tíma myndi krónan reynast Íslendingum fjötur um fót.[2] Ákvörðunin um Evrópusambandsaðild mætti hins vegar ekki eingöngu snúast um gjaldmiðilsmál heldur þyrfti að kanna málið frá öllum hliðum. Þær sérstöku aðstæður sem væru uppi kölluðu þó á að ráðist yrði í aðildarviðræður og í kjölfarið tæki þjóðin öll ákvörðun um málið. Í aðildarviðræðunum bæri að hafa hagsmuni Íslendinga gagnvart ESB í fyrirrúmi með það að leiðarljósi að ná sem víðtækastri sátt um niðurstöðuna.[3]
En sé horft til lengri tíma er hætt við að krónan verði okkur fjötur um fót. Sá sveigjanleiki sem krónan veitir okkur til að kljást við afleiðingar mistaka í hagstjórn eða til að bregðast við ytri áföllum á sér því miður þá skuggahlið að vera sveifluvaldandi og geta ýtt undir óstöðugleika í hagkerfinu. Óstöðugur gjaldmiðill dregur úr trausti á hagkerfinu og þar með möguleikum okkar á að nýta til fulls þau tækifæri sem felast í innri markaði Evrópu, laða til okkar fjárfestingar og hámarka samkeppnishæfni atvinnulífsins. Vöxtur nýrra atvinnugreina og fyrirtækja sem starfa að stórum hluta erlendis en eiga höfuðstöðvar hér á landi takmarkast mjög af stærð myntarinnar og því óöryggi sem af henni hlýst.[4] |
Hér ber einnig að líta til þess að samningur við ESB er hinn endanlegi úrskurður um þær reglur og undanþágur sem gilda eiga við inngöngu Íslands í ESB. Þó að meginlínurnar um þessi efni séu skýrar er viðvarandi ágreiningur um ýmsa mikilvæga þætti, svo sem mögulega stjórn Íslendinga á sérstökum fiskveiðisvæðum, yfirráð veiðiheimilda úr staðbundnum stofnum, heimildir til takmarkana á fjárfestingu og fjölmörg fleiri atriði.[5] |
Þær sérstöku aðstæður sem nú eru uppi kalla á að þjóðin öll taki í kjölfar aðildarviðræðna ákvörðun um þetta mikilvæga mál. | ||
— Úr grein Illuga Gunnarssonar og Bjarna Benediktssonar, Fréttablaðinu 13. desember 2008, bls. 32.[6]
|
Illugi Gunnarsson og Bjarni Benediktsson greiddu sex mánuðum síðar atkvæði gegn þingsályktunartillögu þess efnis, að farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið.[7]
Styrkveitingar fyrir Alþingiskosningar
[breyta | breyta frumkóða]Í aðdraganda þingkosninganna árið 2009 var upplýst að Illugi hafði þegið næst mest í styrki frá einstaklingum eða fyrirtækjum, eða 14,5 milljónir. Guðlaugur Þór Þórðarson þáði meiri styrki.[8] Mest styrkti Exista Illuga, eða um 3 milljónir. Þá styrktu FL-Group, Samson og Atorka Illuga um eina milljón króna hvert fyrirtæki.[9]
Rannsókn tengd „Sjóði 9“ og leyfi frá þingstörfum
[breyta | breyta frumkóða]Sjóður 9 var fjárfestingarsjóður starfræktur af Glitni. Sjóðurinn var ein fimm sjóðsdeilda Fjárfestingarsjóðs Glitnis sem stofnaður var í desember 2003 undir heitinu Fjárfestingarsjóður Íslandsbanka. 20. febrúar 2007 var Illugi skipaður í stjórn Glitnis sjóða og var stjórnarmaður í Sjóði 9 hjá Glitni.
Eftir bankahrunið varð nokkur styr um Sjóð 9 af tvennum ástæðum.
Í fyrsta lagi var gagnrýnt að raunverulegar fjárfestingar sjóðsins hefðu ekki verið í samræmi við auglýsta fjárfestingarstefnu. Þrátt fyrir að sjóðurinn ætti samkvæmt auglýstri fjárfestingarstefnu aðallega að kaupa ríkisskuldabréf eða bréf með ríkisábyrgð reyndist stærstur hluti fjárfestinga sjóðsins vera í skuldabréfum eignarhaldsfélaga, sem féllu í verði við fjármálahrunið. Töldu sumir að með þessu hefði almenningur verið blekktur, þar sem sjóðurinn var auglýstur sem öruggur fjárfestingarkostur. Athygli vakti að stærstu fjárfestingar sjóðsins voru í fyrirtækjum tengdum Baugi, en Baugur átti stóran hluta í Glitni. Um helmingur eigna sjóðsins reyndist vera bundinn í skuldabréfum Baugs eða FL Group, en í síðarnefnda félaginu átti Baugur stóran hluta.[10]
Í raun má því segja að frá og með árinu 2006 hafi raunverulegt eignasafn sjóðsins aldrei endurspeglað svokallaða „fjárfestingarstefnu“ | ||
— Úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, DV, 14. janúar 2000.[11]
|
Í öðru lagi var gagnrýnt að Illugi hefði beitt sér fyrir því að Glitnir keypti verðlaus skuldabréf út úr sjóðnum daginn eftir að Glitnir var þjóðnýttur.[12] Ekkert fé rann úr ríkissjóði við þann gjörning eins og fram kom í svari fjármálaráðherra á alþingi sumarið 2010.[13]
Hinn 16. apríl 2010 ákvað Illugi að taka sér leyfi frá þingstörfum á meðan á rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum sjóða Glitnis stæði yfir, en rannsóknin beindist fyrst og fremst að því að kanna hvort það að sveigja svo gróflega frá fjárfestingarstefnunni sé refsivert.[14] Illugi sneri aftur á þing haustið 2011 eftir að ljóst var að sérstakur saksóknari myndi ekki aðhafast frekar vegna starfa Illuga fyrir Glitni og lögmannsstofan LEX hafði unnið minnisblað fyrir Íslandssjóði dótturfélag Íslandsbanka um fjárfestingarstefnu Glitnissjóða.[15]
Ummæli
[breyta | breyta frumkóða]Davíð Oddsson þarf ekki að óttast dóm sögunnar. Hann tók við ríkisstjórnartaumunum þegar íslenska hagkerfið var að ganga í gegnum eina dypstu lægð sögunnar. Það tókst að yfirvinna þá erfiðleika og á sama tíma leggja grunn að einni mestu framfarasókn þjóðarinnar. Þetta er mikið pólitískt afrek - íslenskt þjóðfélag hefur tekið stakkaskiptum á þessum áratug. Einnig held ég að sagan muni geyma sérstæðan persónuleika og stíl Davíðs Oddssonar. Fáum mönnum hefur forysta verið jafn eiginleg og honum. Auðvitað er Davíð umdeildur, hann á að vera það og besti vitnisburður um hæfni Davíðs er óþol margra vinstrimanna gegn honum. | ||
— Úr viðtali við Illuga Gunnarsson, DV, 14. janúar 2000.[16]
|
Stuttu síðar réð Davíð Illuga sem aðstoðarmann sinn.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Bjarni Ben og Illugi vilja viðræður um aðild að Evrópusambandinu - Niðurstaðan verði borin undir kjósendur“. Eyjan. 13. desember 2008.
- ↑ „Bjarni Ben og Illugi vilja viðræður um aðild að Evrópusambandinu - Niðurstaðan verði borin undir kjósendur“. Eyjan. 13. desember 2008.
- ↑ „Bjarni Ben og Illugi vilja viðræður um aðild að Evrópusambandinu - Niðurstaðan verði borin undir kjósendur“. Eyjan. 13. desember 2008.
- ↑ „Endurreisn á nýjum grunni“ (PDF). Fréttablaðið. 13. desember 2008.
- ↑ „Endurreisn á nýjum grunni“ (PDF). Fréttablaðið. 13. desember 2008.
- ↑ „Endurreisn á nýjum grunni“ (PDF). Fréttablaðið. 13. desember 2008.
- ↑ „Alþingi 137. löggjafarþing. 45. fundur. Atkvæðagreiðsla 41080 38. mál. aðildarumsókn að Evrópusambandinu“. Alþingi.is. 16. júlí 2009.
- ↑ „Yfirlit Ríkisendurskoðunar um framlög til frambjóðenda“ (PDF). Ríkisendurskoðun. 2009.
- ↑ „Yfirlit Ríkisendurskoðunar um framlög til frambjóðenda“ (PDF). Ríkisendurskoðun. 2009.
- ↑ „Illugi lagði áherslu á kaup bréfa Stoða/FL Group úr Sjóði 9“. Viðskiptablaðið. 14. apríl 2010.
- ↑ „14. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis“ (PDF). Rannsóknarnefnd Alþingis. 2010.
- ↑ „Illugi lagði áherslu á kaup bréfa Stoða/FL Group úr Sjóði 9“. Viðskiptablaðið. 14. apríl 2010.
- ↑ „Svar Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra við fyrirspurn Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur um kostnað vegna bankahrunsins fyrir ríkissjóð“.
- ↑ „Illugi Gunnarsson tekur sér leyfi frá þingstörfum meðan rannsókn stendur yfir“. Eyjan.is. 16. apríl 2010.
- ↑ „Ekkert athugavert við fjárfestingarstefnu Sjóðs 9“. mbl.is. 12. september 2011.
- ↑ „Fimm spurningar um framtíðina“. DV. 14. janúar 2000.
Tengill
[breyta | breyta frumkóða]- Illugi Gunnarsson: Ímyndarmál Geymt 12 september 2012 í Wayback Machine, aðsend grein í DV 10. september 2012
- Um Illuga Gunnarsson á vef Alþingis.
- illugi.is Geymt 1 ágúst 2015 í Wayback Machine vefur Illuga Gunnarssonar.
Fyrirrennari: Katrín Jakobsdóttir |
|
Eftirmaður: Kristján Þór Júlíusson |