Styrkjamálið
Styrkjamálið var hneykslismál, að sumra áliti, sem kom upp skömmu fyrir páska 2009, þegar í ljós kom að stjórnmálaflokkar höfðu þegið óvenju háa styrki skömmu áður en lögum um fjárstuðning við stjórnmálaflokka var breytt á þann veg að sett var hámarksupphæð, 300 þúsund krónur sem stjórnmálaflokkar máttu taka við á ári frá lögaðilum.[1]
Samfylkingin
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2006 þáði Samfylkingin óvenjuháa styrki, alls 73 milljónir, frá lögaðilum tengdum fjórum eignafjölskyldum. Styrkirnir skiptist niður í eftirfarandi þætti:
- 25 milljónir frá félögum tengdum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni
- 16 milljónir tengdar Björgólfsfeðgum
- 14 milljónir frá félögum tengdum Ólafi Ólafssyni
- og 14 milljónir frá félögum tengdum Ágústi og Lýði Guðmundssonum
Kaupþing, stærsti styrkveitandinn, tengist bæði Ólafi og bræðrunum Ágústi og Lýði.[2]
Málið vakti athygli fjölmiðla þó minna en styrkir Sjálfstæðisflokksins. Samfylkingin gaf strax út hverjir það voru sem gáfu fé til flokksins þótt greinamunur væri gerður á aðalfélagi og aðildarfélögum. Styrkir til aðildarfélaga voru þó gefnir upp síðar.[3][2]
Var styrkjamálið óheppilegt fyrir Samfylkinguna í ljósi þess að samkvæmt opinberum ársreikningum Samfylkingarinnar fyrir þetta ár var heildarupphæð allra styrkja frá einstaklingum og fyrirtækjum 10 milljónum króna lægri. [4]
Samfylkingin fór aðra leið en Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálfstæðisflokkurinn sagðist ælta að skila styrkjunum og setti málið í hendur umbótanefndar sem skilaði skýrslu sinni í byrjun árs 2010.[5]
Sjálfstæðisflokkurinn
[breyta | breyta frumkóða]Sjálfstæðisflokkurinn hafði þegið óvenjulega háa fjárstyrki, m.a. frá Landsbankanum og FL Group í október 2006.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði nýlega haldið landsfund í skugga bankahrunsins og Búsáhaldabyltingarinnar þar sem Bjarni Benediktsson var kosinn nýr formaður en Geir Haarde bauð sig ekki fram til endurkjörs. Málið vakti mikla athygli fjölmiðla og virtist tímasetningin sérlega óheppileg þar sem alþingiskosningar voru haldnar í lok apríl. Formleg afstaða Sjálfstæðisflokksins varðandi málið er að það hafi verið mistök þáverandi forustumanna innan flokksins að taka við styrkjunum.[6] Ákveðið var að endurgreiða styrkina á löngum tíma, án vaxta og verðbóta, en á því sjö ára tímabili sem endurgreiðslan á að taka, frá því styrkirnir voru veittir, er ljóst að verðgildi endurgreiðslunnar verður miklu minna en upphaflegu styrkirnir.[7] Andri Óttarsson sagði af sér sem framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins. Í september 2014 neitaði Sjálfstæðisflokkurinn að svara Fréttablaðinum um framgang endurgreiðslunnar.
Atburðarás
[breyta | breyta frumkóða]Í lok mars 2009 birti Ríkisendurskoðun lögum samkvæmt útdrátt úr ársreikningi íslenskra stjórnmálaflokka. Í tilviki Sjálfstæðisflokksins kom fram að Neyðarlínan hafði styrkt flokkinn um 300.000 krónur.[8] Þetta þótti fréttnæmt vegna þess að 6. gr. laga um fjármál stjórnmálaflokka segir að stjórnmálaflokkum sé óheimilt að taka við styrkjum frá fyrirtækjum í að meiri hluta í eigu, eða undir stjórn, ríkis eða sveitarfélaga. Styrknum frá Neyðarlínunni til viðbótar tók Sjálfstæðisflokkurinn við 40 þúsund króna styrk frá Orkubúi Vestfjarða.[9] Í fréttatilkynningu frá Andra Óttarssyni, þáverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, sagðist hann harma þau mistök sem urðu við móttöku styrkjanna, þau yrðu endurgreidd.[10]
Þann 7. apríl 2009 kom í ljós að FL Group, áður leiðandi fjárfestingafyrirtæki á Íslandi, hafði að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins styrkt hann 25 milljónir þann 29. desember 2006. Þann 1. janúar 2007 tóku gildi lög um að stjórnmálaflokkum væri óheimilt að taka við hærri fjárstyrkjum en sem næmu 300 þúsund krónum frá einstökum lögaðila.
Andri Óttarsson var framkvæmdastjóri þegar þetta var en sagði að flokkurinn hafi ekki frekar en aðrir flokkar verið með opið bókhald fyrir þann tíma og að flokkurinn hyggðist að svo stöddu ekki tjá sig um einstök fjárframlög til flokksins sem áttu sér stað fyrir setningu laganna.[11]
Degi seinna, 8. apríl, kom í ljós að Landsbankinn hafði styrkt Sjálfstæðisflokkinn um 30 milljónir. Í fréttatilkynningu frá Geir H. Haarde, fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, sama dag sagðist hann bera fulla ábyrgð á viðtöku styrkjanna. Þar kom ennfremur fram að í tilviki styrksins frá FL Group um væri að ræða heildarsummu styrkja frá nokkrum fyrirtækjum sem FL Group sæi um að koma til skila.[12][13] Bjarni Benediktsson, þá nýkosinn formaður flokksins, sagði viðtöku styrkjanna „stangast gróflega á við þau gildi sem ég vil að Sjálfstæðisflokkurinn starfi eftir.“[14]
Kjartan Gunnarsson, sem verið hafði framkvæmdastjóri í 26 ár, frá árinu 1980, sagðist ekkert vita um umrædda styrki. Þá var greint frá því í sömu frétt að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði ekki fyrirspurnum „um meint frumkvæði hans að styrkjunum tveimur.“[15] Þar var verið að vísa til fréttar Morgunblaðsins, þar sem vitnað var til heimildarmanna um að Guðlaugur hefði haft milligöngu um að nokkur fyrirtæki, um tíu talsins, leggðu flokknum til styrk. Hvert þeirra myndi leggja til um þrjár milljónir króna þannig að undir forystu FL-Group fengjust um 25 milljónir króna í flokkssjóðinn.[16] Þar með var ýjað að því að styrkurinn frá FL Group væri í raun réttri frá fleiri fyrirtækjum.
Andri Óttarsson hafði verið framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins frá haustinu 2006 þegar hann tók við af Kjartani Gunnarssyni. Tveimur dögum seinna, föstudaginn 10. apríl, sagði Andri af sér. Í opinberri yfirlýsingu sagðist hann hvorki hafa átt frumkvæði að því að hafa samband við FL Group eða Landsbankann um styrkveitingu né tekið ákvörðun um að þiggja styrkina. Einnig kom fram að hann hefði starfað samhliða Kjartani sem framkvæmdastjóri til áramóta 2006/2007.[17] Á þeim tíma sem gengið var frá því að Sjálfstæðisflokkurinn tæki við styrkjunum. Samkvæmt frétt Vísis.is vissi Kjartan af styrkjunum. Hann vildi þó ekki viðurkenna það þegar hann var spurður beint að því.[18][19] Bjarni Benediktsson hélt því fram að bæði Kjartan Gunnarsson og Andri Óttarsson hefðu vitað af risastyrkjunum tveimur.[20]
Þann 11. apríl kom í ljós að Þorsteinn M. Jónsson, stjórnarformaður Vífilfells hf. sem framleiðir Coke á Íslandi og Steinþór Gunnarsson, fyrrverandi yfirmaður verðbréfadeildar Landsbankans, höfðu milligöngu um að útvega Sjálfstæðisflokknum styrki annars vegar frá FL Group og hins vegar Landsbankanum í lok árs 2006. Á þeim tíma sat Þorsteinn í stjórn FL Group. Þeir sögðu í yfirlýsingu að Guðlaugur Þór Þórðarson hefði haft samband við þá og greint frá bágborinni fjárhagslegri stöðu Sjálfstæðisflokksins. Í framhaldi hafi hann ekki haft frekari afskipti, upphæð styrkjanna hefði verið ákveðinn af fyrirtækjunum og stjórn flokksins ákveðið að veita þeim viðtöku.[21]
Grunsemdir um tengsl við REI-málið
[breyta | breyta frumkóða]Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, benti á að styrkirnir hefðu borist flokknum „nokkrum mánuðum áður en að fulltrúar flokksins komu að fyrirtækinu REI sem hafi væntanlega verið ábatasamt fyrir þá aðila sem voru að gefa flokknum þessa fjármuni“ Ekki hefur verið sýnt fram á að þessi tilgáta prófessorsins hafi við rök að styðjast. [22] en Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, sagðist telja að engin tengsl væru milli styrkjamálsins og REI-málsins.[23][24]
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, hefur sagt um vangaveltur Gunnars Helga varðandi tengsl styrkjanna við REI-málið: „Mig undrar, að Gunnar Helgi skuli ekki í þessum orðum sínum sýna meiri nákvæmni en að líta á Sjálfstæðisflokkinn sem geranda í REI-málinu. Þar eins og varðandi ofurstrykina voru einstaklingar innan flokksins, sem fóru offari. Borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna klofnaði vegna REI-málsins. Meirihlutinn lagðist gegn framgangi þess. Þingflokkur sjálfstæðismanna og miðstjórn Sjálfstæðiflokksins leggst gegn ofurstyrkjunum og ákveðið hefur verið að endurgreiða þá. ...
Skyndiályktanir fræðilegra álitsgjafa má afsaka í hita leiksins en illa ígrundaðar yfirlýsingar um mál, eins og REI-málið, sem gerðist fyrir fáeinum misserum, er ekki unnt að setja í sömu skúffu. Gunnar Helgi fellur einfaldlega í sömu gryfju og andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, sem kjósa hvorki að segja alla sögu REI-málsins, þegar þeir ræða þessa ofurstyrki, né segja frá fordæmingu miðstjórnar, þingflokks og formanns Sjálfstæðisflokksins á ofurstyrkjunum.Heiður Sjálfstæðisflokksins verður ekki metinn til fjár. Hann er því meira virði en 55 milljónirnar, sem verða endurgreiddar. Hann er einnig meira virði en greiðasemi við þá, sem telja sér sæma að misnota nafn og virðingu flokksins til ósæmilegrar fjáröflunar eða í öðrum tilgang”.[25]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Styrkjamál Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn“ Geymt 24 september 2011 í Wayback Machine á Vísi.is 16. apríl 2009 (Skoðað 16. apríl 2009).
Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra - 2006 nr. 162 21. desember - ↑ Stökkva upp til: 2,0 2,1 73 milljónir frá stórfyrirtækjum, Önundur Páll Ragnarsson, Morgunblaðið, 30. maí 2009
- ↑ Samfylkingin birtir yfirlit styrkja árið 2006, 10. apríl 2009
- ↑ Jóhanna Sigurðardóttir vill birta alla styrki til Samfylkingarinnar, 9. apríl 2009
- ↑ Styrkjamál flokksins og einstakra flokksmanna, 4. desember 2010
- ↑ „Sjálfstæðisflokkurinn - Spurt og svarað“.
- ↑ Sjálfstæðisflokkurinn endurgreiðir stóru styrkina frá FL-Group og Landsbankanum á 7 árum Geymt 25 júní 2016 í Wayback Machine, 2. júní 2009
- ↑ Útdrættir úr reikningum stjórnmálaflokkanna 2007 Geymt 27 maí 2009 í Wayback Machine Ríkisendurskoðun.
- ↑ Sjálfstæðisflokkurinn - Útdráttur úr samstæðureikningi 2007
- ↑ „Harmar að Sjálfstæðisflokkurinn hafi tekið við framlögum frá Neyðarlínunni“ af Vísi.is 2009 (Skoðað 15. apríl 2009).
- ↑ „Sjálfstæðisflokkur fékk 25 milljónir frá FL Group 2006, 3 dögum áður en styrkjahámark tók gildi“ Geymt 11 apríl 2009 í Wayback Machine af Eyjunni 2009 (Skoðað 15. apríl 2009).
- ↑ „Geir segist bera ábyrgðina“. 8. apríl 2009. Sótt 15. júlí 2009.
- ↑ „Ábyrgð Geirs stórjókst á sjö mínútum“ af Vísi.is 08.04.2009 (Skoðað 15. apríl 2009).
- ↑ Landsbankinn styrkti Sjálfstæðismenn um 25 milljónir[óvirkur tengill] af Mbl.is 2009 (Skoðað 15. júlí 2009).
- ↑ „Hafði ekki milligöngu um styrkinn“. 9. apríl 2009. Sótt 15. júlí 2009.
- ↑ „Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina“ af Mbl.is 2009 (Skoðað 15. apríl 2009).
- ↑ „Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hættir“ af Mbl.is 10.04.2009 (Skoðað 15. apríl 2009).
- ↑ Kjartan Gunnarsson fer undan í flæmingi af Vísi.is 9.04.2009 (Skoðað 12. júlí 2009).
- ↑ Kjartan vissi um styrkina af Vísi.is 11.04.2009 (Skoðað 12. júlí 2009).
- ↑ „Telur að Kjartan hafi vitað af risastyrkjum“[óvirkur tengill] af Vísi.is 11.04.2009 (Skoðað 15. apríl 2009).
- ↑ „Þorsteinn í Kók hafði milligöngu um styrk frá FL Group og Steinþór Gunnarsson frá Landsbankanum“. 11. apríl 2009. Sótt 5. september 2009.
- ↑ „Hætta á einangrun Sjálfstæðisflokks“ af Mbl.is (Skoðað 11. apríl 2009).
- ↑ „Bjarni Benediktsson: Risastyrkur ekki tengdur REI“ af Vísi.is (Skoðað 11. apríl 2009).
- ↑ „Upplýst verði um tengsl fjárstyrkjanna og REI“ af Vísi.is (Skoðað 12. apríl 2009).
- ↑ Heiður Sjálfstæðisflokksins og ofurstyrkir. af Bjorn.is (Skoðað 5. september 2009).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra - 2006 nr. 162 21. desember
- Sjálfstæðisflokkurinn - Spurt og svarað um styrki
- Enn óvíst hvort Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert grein fyrir öllum styrkjum; grein af Ejunni.is 27. mars 2010 Geymt 30 mars 2010 í Wayback Machine
- Styrkjamál Sjálfstæðisflokksins í hnotskurn; grein af Vísi.is[óvirkur tengill]
- Reiðubúnir að banna framlög frá fyrirtækjum; grein af Mbl.is 29. mars, 2003