Fara í innihald

Verðbréf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Verðbréf er útgefið skjal sem er ávísun á verðmæti og hefur peningagildi miðað við t.d. gengi hlutabréfa fyrirtækis. Nákvæm og fræðileg skýring á verðbréfum er að til verðbréfa teljast öll framseljanleg kröfuréttindi til peningagreiðslu eða ígildis hennar, svo og framseljanleg skilríki fyrir eignaréttindum að öðru en fasteignum eða einstökum lausafjármunum. Þegar rætt er um verðbréf í daglegu tali er oftast átt við hlutabréf eða skuldabréf.

Verðbréfum má skipta í fjóra flokka.[1]

  • Innlend hlutabréf
  • Innlend skuldabréf
  • Erlend hlutabréf
  • Erlend skuldabréf

Tegundir bréfa[breyta | breyta frumkóða]

Hlutabréf[breyta | breyta frumkóða]

Hlutabréf eru sönnunargögn sem gefin eru út til hluthafa fyrir þeim hlut sem hann á í hlutafélagi. Þau geta verið gefin út með rafrænum hætti í verðbréfamiðstöð eða sem skriflegt skjal.[1] Hlutabréf virka þannig að ef fyrirtækinu sem hluthafi á bréf í gengur vel, hagnast hann en ef því gengur illa minnkar verðmæti hlutabréfsins og hann tapar. Hlutabréf er því í eðli sínu áhættusöm fjárfesting. Arður er greiddur út til hluthafa, en það er gróði fyrirtækisins, sem skiptist jafnt á milli hluthafa. Tvenns konar hlutabréf eru til. Opin hlutabréf getur hver sem er keypt og og eru slík fyrirtæki kennd við hlutafélag (hf). Lokuð bréf eru ekki á almennum markaði og eru kennd við einkahlutafélög (ehf). Hlutabréf er hægt að kaupa og selja í gegnum kauphallir, verðbréfamiðlara, banka og sparisjóði.[2]

Jöfnunarhlutabréf[breyta | breyta frumkóða]

Jöfnunarbréf eru gefin út þegar markaðsverð hvers hlutar einstaka hluthafa er orðin að óþægilega hárri upphæð. Þá er brugðist við með því að búta hvern eignarhlut niður í smærri einingar, þó án þessa að hver eignarhlutur hvers hluthafa breytist.  Tilgangurinn  með útgáfu jöfnunarhlutabréfa er að er í flestum tilfellum sá að lækka verð á hvern hlut til þess að minni fjárfestar og aðrir geti keypt litlar upphæðir. Ekki eru allir á eitt sátti hvort þetta fyrirkomulag sé gott og best sé að lítið sé skipt með bréfin þar sem slíkt leiði til færri og betri hluthafa.  Þegar jöfnunarhlutabréf eru gefin út þá lækkar verð bréfanna en að sama skapi fjölgar hlutum. Hluthafi tapar því ekki fé séu jöfnunarhlutabréf gefin út.

Dæmi. Hluthafi á 100 hluti á genginu 10 krónur á hlut. Ef félagið gefur út jöfnunarbréf á hluthafinn 200 hluti á genginu 5 krónur á hvern hlut. Ef svo vel vill að félagið greiðir arð mun hann einnig breytast með sama hætti, verður helmingi minni á hvern hlut svo arðurinn verður sá sami fyrir hluthafa. Þegar gengisþróun félaga er skoðuð yfir langan tíma verður að hafa í huga hvort félagið hafi gefið úr jöfnunarbréf í fortíð. Útgáfa slíka bréfa er venjulega merkt inn og hægt að sjá með því að skoða sögulega þróun á gengi. Enska heitið yfir jöfnunarhlutabréf er stock split.[3]

Skuldabréf[breyta | breyta frumkóða]

Skuldabréf felur í sér skriflega yfirlýsingu þar sem útgefandinn einhliða og skilyrðislaust viðurkennir skyldu sína til að greiða ákveðna peningagreiðslu. Þeir sem gefa út skuldabréf eru yfirleitt fyrirtæki og opinberir aðilar og eru skilmálar skuldabréfa ætíð ákveðnir fyrirfram með tilliti til endurgreiðslu og vaxta, sem annaðhvort eru fastir eða breytilegir. Ýmsar leiðir eru farnar til að tryggja að skuldari gangi ekki á bak orða sinna og ýmist eru fasteignir lagðar að veði eða ábyrgðarmenn tilgreindir.

Ríkisskuldabréf[breyta | breyta frumkóða]

Ríkisskuldabréf gefur ríkið út til að fjármagnar rekstur sinn að hluta, sem er einn af þeim tekjustofnum sem hægt er að grípa til, auk skattstofna og annara tekjuliða. Þessi verðbréf eru í dag kölluð ríkisbréf, sem ætluð eru til langs tíma og ríkisvíxlar, sem ætlaðir eru til skemmri tíma en eins árs. Þessi bréf eru óverðtryggð og bera ýmist fasta vexti á fyrirfram gefnu tímabili eða breytilega vexti, sem geta breyst á tímabilinu. Fyrirkomulag þessarar útgáfu hefur verið talinn góður kostur fyrir almenning sem sparnaðarleið, enda höfuðstóllinn ríkistryggður, en einnig hafa ríkisskuldabréf verið vænlegur kostur fyrir fjárfesta sem vilja „geyma“ fé sitt þar sem áhætta telst minni en á almennum hlutabréfamarkaði, á bankabók o.s.frv.[4]

Ríkisbréf geta einnig gengið kaupum og sölum eftir að þau hafa verið keypt í fyrsta sinn. Þannig geta ný bréf á frummarkaði farið á eftirmarkað og miðast verðgildi þeirra þá við þróun- verðbólgu og vaxta hverju sinni. Almennt eru slík bréf eftirsótt á eftirmarkaði á óvissutímum, þegar ekki er um nýja útgáfu ríkisskuldabréfa að ræða og jafnvel þótt ríkið hafi ákveðið að lækka vexti af þessum bréfum, eða þegar ríkið ákveður að gefa út ný bréf á hagstæðum vöxtum miðað við almenna markaðinn. Skatttekjur ríkisins, almennt, standa straum af afborgun þessara bréfa á gjalddaga.

En vandi getur fylgt fjáröflun af þessu tagi. Í fjármálasögunni eru til fjölmörg dæmi þess að ríki hafi fjármagnað sig með útgáfu skuldabréfa, sem illmögulegt var að greiða til baka nema með róttækum aðhaldsaðgerðum í rekstri ríkisins, eða jafnvel alls ekki. Slíkt getur valdið miklu róti á fjármálamarkaði og jafnvel uppreisn þegnanna og að lokum falli ríkisins.

Sjóðir[breyta | breyta frumkóða]

Verðbréfasjóðir er safn verðbréfa. Tilgangur þeirra er að dreifa áhættu og draga úr sveiflum á ávöxtun með því að fjárfesta á fleiri en einum stað. Verðbréfasjóðir gera það að verkum að fjárfesting er síður háð verðbreytingum á ákveðnum flokki verðbréfa eða einstaka fyrirtækjum. Erlend hlutabréf geta hækkað á sama tíma og innlend hlutabréf hækka, eða öfugt. Áhættan er því breytileg eftir samsetningu eigna og með því að fjárfesta í ólíkum sjóðum er áhættunni dreift.[5]

Hlutabréfasjóður eða fjárfestingasjóður er sjóður sem tekur við fé eða fjármagni til sameiginlegrar fjárfestingar í hlutabréfum einstaka fyrirtækja eða öðrum hlutabréfasjóðum. Tilgangur og megin markmið þessara sjóða er að ávaxta fé sjóðsfélaga og dreifa áhættu með kaupum á fjármálagjörningum útgefnumaf mörgum aðilum. Fjárfestar geta keypt hlutdeildarskírteini sem staðfestingu á eignarhlut sínum í sjóðnum og átt þannig hlutfallslega kröfu á þau hlutabréf og aðrar eignir sem sjóðurinn á. Það má því segja að með kaupum í hlutabréfasjóði séu fjárfestar að kaupa hlut í mörgum félögum í gegnum sjóðinn. Sveiflur á gengi hlutabréfasjóða geta því verið töluverðar vegna verðbreytinga á þeim hlutabréfum sem sjóðurinn fjárfestir í og vegna sveiflna á gengi gjaldmiðla.[6]

Hlutabréfasjóður fjárfestir fyrst og fremst í hlutabréfum á markaði samkvæmt fyrirfram kunngerðri fjárfestingarstefnu og fær arð greiddan af þeim eftir atvikum. Stefnur sjóða geta verið mismunandi, fjárfestingar á innlendum hlutbréfum, fjárfestingar í erlendum hlutabréfum eða blanda af innlendum og erlendum fjárfestingum. Ávöxtun sjóðsins á hverjum tíma ræðst af arðgreiðslum og af verðbreytingum á eignum sjóðsins. Styrkur hvers sjóðs ræðst af undirliggjandi eignum hans, fjárhagslegum styrk útgefenda þeirra verðbréfa, sem sjóðurinn hefur fjárfest í og fjölmörgum öðrum þáttum, sem geta haft áhrif á verð þeirra.[6]

Sala og viðskipti verðbréfa[breyta | breyta frumkóða]

Sjá einnig grein: Kauphöll Íslands

Í kauphöllum fara viðskipti fram með hlutabréf og verðbréf. Bréfin eru nú orðið í formi tölvugagna en þau ganga engu að síður kaupum og sölum innan kauphallar. Tilboð eru gerð í bréfin í kauphöllum og sérstakir verðbréfamiðlarar hafa alla milligöngu um þessi viðskipti. Raunar eru kauphallir sem byggingar óþarfar í dag þar sem eigendur gefa skipanir um kaup og sölu í gegnum síma eða tölvupóst til verðbréfamiðlara, sem senda tilkynningu um viðskiptin til kauphallar, hvort sem bréf eru til sölu eða óskist keypt. Þá taka aðrir miðlarar við sér og bjóða bréf til sölu eða óska eftir kaupum. Öll þessi viðskipti fara í gegnum tölvukerfi kauphallar og eru þau skráð inn í sérstaka verðbréfavísitölu sem ákvarðar svo skráð viðmiðunargengi verðbréfa.

Árið 1985 var Kauphöll Íslands stofnuð af Seðlabanka Íslands og íslenskum bönkum. Árið 1986 var farið að versla með ríkisskuldabréf en viðskipti með hlutabréf hófust fjórum árum síðar, eða árið 1990. Árið 2000 varð norræn skráning kauphallanna samræmd þegar SAXESS kerfið var tekið í notkun. Um tíma sá Kauphöll Íslands um tæknilega stjórnun færeysku kauphallarinnar og við það skráðust færeysk fyrirtæki á kauphallarmarkað í íslensku kauphöllinni. Árið 2006 rann kauphöllin inn í OMX Nordic Exchange sem síðar varð hluti af NASDAQ.

Stærri fyrirtæki hafa aðgang að sölu hlutabréfa í Kauphöll Íslands og hafa mörg þeirra komið og farið. Nafntoguð fyrirtæki hafa verið a listum kauphallarinnar og hafa til dæmis Össur og Marel verið þar áberandi. Einnig hafa móðurfélög verslunnarkeðja og ýmis fasteignafélög verið skráð í íslensku kauphöllina, ásamt fjölmörgum öðrum fyrirtækjum.

Stærsta kauphöll heims er staðsett á Wall Street í New York og nefnist New York Stock Exhange eða NYSE.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Áhætta fjármálagerninga. (e.d.). Sótt 8. maí 2015 af http://www.straumur.com/um-straum/ahaetta-fjarmalagerninga/[óvirkur tengill] 
  2. Hvað eru hlutabréf? (2008). Sótt 8. maí 2015 af http://attavitinn.is/peningar/ordabokin/hlutabref
  3. Friðbjörn Orri Ketilsson. (ritstjóri). (2006). Fjármálaskilgreiningar. Reykjavík: Vefmiðlun
  4. Landsbanki Íslands Um ríkisskuldabréf - http://bankinn.landsbankinn.is/fjarhagur/2011/08/18/Um-Rikisskuldabref/[óvirkur tengill]
  5. Íslenskir fjárfestar hf - Hvernig starfar verðbréfasjóðir - http://www.fjarfestar.is/verdbrefasjodir Geymt 14 febrúar 2016 í Wayback Machine
  6. 6,0 6,1 Landsbréf hlutabréfasjóðir -http://www.landsbref.is/hlutabrefasjodir/ahaettuthaettir/

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]