Uppreist æru

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Uppreist æru er hugtak úr íslensku lagamáli. Í stuttu máli felst uppreist æru í því að fólk endurheimtir réttindi sem það glatar við að fá fangelsisdóm. Sem dæmi um réttindi sem glatast við fangelsisdóm er kjörgengi til Alþingis auk þess sem reglur um ýmis lögvarin starfsheiti, s,s. lögmannsréttindi og réttindi til löggildingar sem endurskoðandi gera kröfur um óflekkað mannorð.[1]

Almenn hegningarlög[breyta | breyta frumkóða]

Fram til ársins 2017 var ákvæði í almennum hegningarlögum um að forseti Íslands gæti veitt þeim uppreist æru sem ekki hafa óflekkað mannorð og njóti sá einstaklingur þá sömu réttinda og þau sem hafa óflekkað mannorð. Þau sem hlotið höfðu refsidóm í fyrsta sinn og refsingin fór ekki fram úr 1 árs fangelsi, hlutu fimm árum eftir að refsingin var að fullu úttekin sjálfkrafa réttindi á við þau sem hafa óflekkað mannorð að því gefnu að þau hafi á þeim tíma ekki verið ákærð fyrir brot sem þyngri refsing en sektir liggur við.

Um uppreist æru var fjallað í 84. og 85. greinum almennra hegningarlaga:

Nú hefur maður hlotið í fyrsta sinn refsidóm fyrir brot, sem hefur skerðing borgararéttinda í för með sér, og refsing fer ekki fram úr 1 árs fangelsi, þá nýtur hann að liðnum 5 árum frá því að refsing er að fullu úttekin, fyrnd eða uppgefin, allra réttinda, sem fást með uppreist á æru, enda hafi hann ekki sætt ákæru á þeim tíma fyrir brot, sem þyngri hegning liggur við en sektir.“
Þegar liðin eru 2 ár af fresti þeim, sem í síðari málsgrein 84. gr. getur, og að fullnægðum öðrum skilyrðum, sem þar eru sett, getur forseti, ef dómfelldi hefur hegðað sér vel á þessu tímabili, veitt honum uppreist æru.
Forseti getur og veitt manni uppreist æru, þegar að minnsta kosti 5 ár eru liðin frá því að refsing hans er að fullu úttekin, fyrnd eða gefin upp, enda færi umsækjandi sönnur, sem gildar séu metnar, á það, að hegðun hans hafi verið góð umræddan tíma.
Þegar sérstaklega stendur á, má veita uppreist æru, þó að refsitími sé svo langur sem í 2. mgr. segir, enda þótt ekki sé liðinn lengri tími en til er skilinn í 1. mgr.“

Í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu árið 2006 kom fram að á árabilinu 1996-2006 hefði dæmdu fólki níu sinnum verið veitt uppreist æru. Í tilkynningunni kom einnig fram að um langt árabil hafi undanrekningarlaust verið gert tillaga til forseta Íslands um uppreist æru ef umrækjandi fullnægir lögformlegum skilyrðum um að hún sé veitt og skipti eðli brota þá ekki máli.[2]

Talsvert var fjallað um hugtakið uppreist æru árið 2006 þegar í ljós kom að Árni Johnsen fyrrverandi alþingismaður, sem árið 2003 var dæmdur fyrir brot í opinberu starfi hafði fengið uppreist æru.[3]

Ákvæði um uppreist æru fellt úr hegningarlögum[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2017 var talsvert fjallað opinberlega um mál Roberts Downey lögmanns og Hjalta Sigurjóns Haukssonar, sem báðir höfðu hlutið dóm fyrir kynferðisbrot gegn börnum en forseti Íslands síðar veitt þeim uppreist æru að tillögu dómsmálaráðherra. Málið vakti hörð viðbrögð í samfélaginu, stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd og fjallað um málið á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #höfum hátt. Ungu konurnar sem voru brotaþolar mannanna fylgdu málinu fast eftir og börðust fyrir að fá afhent gögn frá dómsmálaráðuneytinu og að ákvæði um uppreist æru yrði fellt úr almennum hegningarlögum.[4] Sigríður Andersen dómsmálaráðherra tilkynnti í ágúst 2017 að hún myndi leggja til við Alþingi að ákvæðið um uppreist æru yrði fellt brott úr hegningarlögum.[5] Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var einnig harðlega gagnrýndur fyrir aðkomu sína að málinu. Í ávarpi við þingsetningu þann 12. september 2017 sagðist Guðni fagna því að stjórnvöld hyggðust endurskoða lög um uppreist æru og sagði jafnframt að „stjórnarskrárbundið ábyrgðarleysi forseta sem felur samt í sér ábyrgð á ákvörðunum annarra á ekki heima í stjórnsýslu samtímans.“[6] Guðni fundaði síðar með stúlkunum sem voru þolendur Róberts og Hjalta Sigurjóns og bað þær afsökunar á aðkomu sinni að því að veita mönnunum uppreist æru.[7][8]

Málið tók nýja stefnu er í ljós kom að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra, hafði skrifað upp á meðmælendabréf með ósk um að Hjalti Sigurjón hlyti uppreisn æru. Í kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 14. september 2017 sagði Sigríður Andersen dómsmálaráðherra að embættismenn ráðuneytisins hafi upplýst hana um það í júlí að faðir forsætisráðherra væri á meðal umsagnaraðila Hjalta Sigurjóns og í framhaldinu hafi hún talið rétt að upplýsa forsætisráðherra um það. Í kjölfarið ákvað Björt Framtíð að slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Sjálfstæðiflokk og Viðreisn vegna trúnaðarbrests en forsætisráðherra upplýsti samstarfsfólk sitt í ríkisstjórn ekki um þátt föður síns í málinu.[9] Í framhaldinu var þing rofið og boðað til alþingiskosninga í lok október 2017.[10]

Þann 27. september árið 2017 samþykkti Alþingi að ákvæðin um uppreist æru yrðu felld brott úr almennum hegningarlögum.[11]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • „Almenn hegningarlög“. Sótt 14. nóvember 2006.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Árni Helgason, „Hvað er að hljóta uppreist æru í lagalegum skilningi?“, Vísindavefurinn, 8. nóvember 2005 (skoðað 4. febrúar 2021)
 2. „Níu manns veitt uppreist æru síðan 1996“, Morgunblaðið, 31. ágúst 2006 (skoðað 4. febrúar 2021)
 3. „Árni Johnsen hefur fengið uppreist æru“, Morgunblaðið, 31. ágúst 2006 (skoðað 4. febrúar 2021)
 4. Stundin.is, „Nína Rún: Við munum halda áfram að hafa hátt“.“ (skoðað 4. febrúar 2021)
 5. Visir.is, „Dómsmálaráðherra leggur til að ákvæði um uppreist æru verði fellt úr lögum“ (skoðað 4. febrúr 2021)
 6. Visir.is, „Forsetinn ómyrkur í máli um uppreist æru: „Við óbreytt ástand verður ekki unað“.“ (skoðað 4. febrúar 2021)
 7. Ruv.is, „Baðst afsökunar á sínum þætti við uppreist æru“ (skoðað 4. febrúar 2021)
 8. Visir.is, „Forsetinn bað þolendur Roberts Downey afsökunar“ (skoðað 4. febrúar 2021)
 9. Kjarninn.is, „Björt Framtíð slítur sig frá ríkisstjórnarsamstarfinu vegna trúnaðarbrests.“ (skoðað 4. febrúar 2021)
 10. Visir.is, „Þing rofið 28. október og gengið til kosninga“ (skoðað 4. febrúar 2021)
 11. Visir.is, „Ákvæði um uppreist æru fellt úr lögum“ (skoðað 4. febrúar 2021)