Hermann Jónasson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Hermann Jónasson
Hermann Jonasson.jpg
Forsætisráðherra Íslands
Í embætti
28. júlí 1934 – 16. maí 1942
ÞjóðhöfðingiKristján 10.
ForveriÁsgeir Ásgeirsson
EftirmaðurÓlafur Thors
Í embætti
24. júlí 1956 – 23. desember 1958
ForsetiÁsgeir Ásgeirsson
ForveriÓlafur Thors
EftirmaðurEmil Jónsson
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. desember 1896
Syðri-Brekkum, Skagafirði, Íslandi
Látinn22. janúar 1976 (79 ára) Reykjavík, Íslandi
StjórnmálaflokkurFramsóknarflokkurinn
MakiVigdís Oddný Steingrímsdóttir
BörnHerdís, Steingrímur, Pálína, Lúðvík
ForeldrarJónas Jónsson og Pálína Guðný Björnsdóttir
HáskóliHáskóli Íslands
StarfLögfræðingur, stjórnmálamaður

Hermann Jónasson (fæddur 25. desember 1896, látinn 22. janúar 1976) var leiðtogi Framsóknarflokksins stóran hluta 20. aldar og þar með einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum aldarinnar. Hann sat á Alþingi í yfir þrjátíu ár og gegndi embættum forsætis- dóms- og landbúnaðarráðherra í ýmsum ríkisstjórnum. Hann var þar að auki lögreglustjóri í Reykjavík 1929 - 1934. Auk þess má nefna að Hermann var Glímukóngur Íslands árið 1921.

Fjölskylda[breyta | breyta frumkóða]

Hermann var sonur Jónasar Jónssonar bónda og trésmiðs og Pálínu Björnsdóttur. Hann var kvæntur Vigdísi Oddnýju Steingrímsdóttur (fædd 4. október 1896, dáin 2. nóvember 1976). Þau áttu saman börnin Herdísi (1927), Steingrím (1928) (síðar forsætisráðherra) og Pálínu (1929).

Lúðvík Gizurarson, hæstaréttarlögmaður, hafði lengi haldið því fram að hann væri óskilgetinn sonur Hermanns og höfðaði barnsfaðernismál árið 2004. Niðurstaða DNA-rannsóknar kom árið 2007 um að 99,9% líkur væru á að Lúðvík væri sonur Hermanns.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Hermann fæddist til gamallar bóndafjölskyldu á Syðri-Brekkum í Blönduhlíð á Skagafirði árið 1896. Hann hóf nám í Gagnfræðiskólanum á Akureyri árið 1914, þegar hann var 17 ára, og útskrifaðist þaðan með gagnfræðapróf árið 1917. Á námsárum sínum í gagnfræðaskólanum tók Hermann mikinn þátt í íþróttalífinu og byrjaði að æfa glímu. Hann gekk í Menntaskólann í Reykjavík á árunum 1917 til 1920 og æfði á þeim árum glímu í Glímufélaginu Ármanni.[2]

Árið 1921 felldi Hermann alla keppinauta sína á Íslandsglímumóti og var lýstur glímukóngur. Hermann keppti einnig á glímusýningu á Þingvöllum sem haldin var í tilefni heimsóknar Kristjáns 10. Danakonungs til Íslands sama ár. Í keppninni felldi Hermann alla andstæðinga sína en hlaut þó ekki konungsbikarinn í keppninni þar sem dómnefnd keppninnar taldi Guðmund Kr. Guðmundsson hafa sýnt fegurstu glímuna. Hermann fékk þó síðar silfurbikar frá Íþróttasambandi Íslands sem lýsti hann sigurvegara konungsmótsins.[2]

Hermann hætti þátttöku í kappglímum eftir konungsmótið, að eigin sögn til að geta einbeitt sér að námi og störfum sínum. Hermann tók lögfræðipróf 1924 og varð í kjölfarið fulltrúi við bæjarfógetaembættið í Reykjavík. Þremur árum síðar skipaði Jónas frá Hriflu, þá nýorðinn dómsmálaráðherra, Hermann í embætti lögreglustjóra Reykjavíkur. Þar sem lögreglustjóri átti á þessum tíma einnig að vera héraðsdómari í sakamálum og almennum lögreglumálum fór Hermann til Norðurlanda og Þýskalands árið 1928 til þess að kynna sér lögreglumál áður en hann tók við embættinu þann 1. janúar 1929.[2]

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Hermann var kjörinn í bæjarstjórn Reykjavíkur fyrir Framsóknarflokkinn árið 1930. Stjórnmálaskoðanir hans mótuðust nokkuð á þessum árum af Gúttóslagnum, sem átti sér stað á meðan hann var lögreglustjóri og bæjarfulltrúi í Reykjavík þann 9. nóvember 1932. Varnarsveitir sem bæði kommúnistar og þjóðernissinar stofnuðu í kjölfar götuóeirðanna sannfærðu hann enn frekar um mikilvægi þess að hafa sterkan miðjuflokk í íslenskum stjórnmálum.[2]

Hermann var kosinn alþingismaður 1934 og sat á þingi fyrir Framsóknarflokkinn fram til 1967. Hann var skipaður forsætisráðherra og jafnframt dóms- og kirkjumálaráðherra og landbúnaðarráðherra 28. júlí 1934, einnig atvinnu- og samgöngumálaráðherra frá 20. mars til 2. apríl 1938 og fór með kennslumál og utanríkismál frá 20. mars 1938 til 17. apríl 1939, lausn frá embætti 7. nóvember 1941, en gegndi störfum til 18. nóvember. Skipaður að nýju 18. nóv. 1941 forsætisráðherra og jafnframt dómsmála- og landbúnaðarráðherra, lausn 16. maí 1942. Skipaður 14. mars 1950 landbúnaðarráðherra, lausn 11. sept. 1953. Skipaður 24. júlí 1956 forsætisráðherra og jafnframt landbúnaðar- og dómsmálaráðherra, lausn 4. des. 1958, en gegndi störfum til 23. des. 1958.

Hermann var formaður Framsóknarflokksins 19441962.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Lúðvík: Gleðst yfir að barnsfaðernismálinu fer að ljúka
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 Halldór Kristjánsson (1. janúar 1978). „Hermann Jónasson“. Andvari. Sótt 6. mars 2019.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Ásgeir Ásgeirsson
Forsætisráðherra Íslands
(28. júlí 193416. maí 1942)
Eftirmaður:
Ólafur Thors
Fyrirrennari:
Ólafur Thors
Forsætisráðherra Íslands
(24. júlí 195623. desember 1958)
Eftirmaður:
Emil Jónsson
Fyrirrennari:
Jónas Jónsson frá Hriflu
Formaður Framsóknarflokksins
(19441962)
Eftirmaður:
Eysteinn Jónsson