Fara í innihald

Magnús Jónsson (f. 1887)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Magnús Jónsson (26. nóvember 1887 - 1958) var guðfræðiprófessor, þingmaður og ráðherra um skeið. Hann fæddist í  Hvammi í Norðurárdal sonur Jóns Ólafs prests þar Magnússonar og konu hans, Steinunnar Guðrúnar Þorsteinsdóttur sem ættuð var frá  Úthlíð í Biskupstungum. Magnús Jónsson fór ungur með foreldrum sínum til Skagafjarðar og ólst upp á prestsetrunum  Mælifelli og síðar á Ríp. Hann lauk guðfræðiprófi við Prestaskólann árið 1911 og var prestur Tjaldbúðasafnaðar í Winnipeg um skeið og svo prestur Garða- og Þingvallasafnaða í Norður Dakóta í Bandaríkjunum 1912-1915 og var prestur á Ísafirði 1915-1917 og frá 1917 var hann skipaður dósent við Guðfræðideild Háskóla Íslands og prófessor við sömu deild árið 1928. Hann var þingmaður Reykvíkinga 1921—1946 og var atvinnumálaráðherra í 8 mánuði árið 1942. Hann var skipaður formaður fjárhagsráðs árið 1947 og var það til 1953 er fjárhagsráð var lagt niður. Bróðir Magnúsar var Þorsteinn Jónsson (Þórir Bergsson).

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]