Forsetakjör á Íslandi 2024
Forsetakjör á Íslandi 2024 fór fram þann 1. júní 2024. Halla Tómasdóttir sigraði með 34,1% gildra atkvæða. Kjörtímabil hennar sem sjöundi forseti Íslands hófst þann 1. ágúst 2024.
Fráfarandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson, gaf ekki kost á sér til endurkjörs eftir tvö kjörtímabil í embætti og því var ljóst að nýr forseti yrði kjörinn. Tólf frambjóðendur voru í kjöri og hafa aldrei verið fleiri í sögu embættisins. Fylgi Höllu Tómasdóttur var það næstminnsta sem dugað hefur til sigurs í forsetakjöri (á eftir sigri Vigdísar Finnbogadóttur í forsetakjörinu 1980) en hún hafði þó nokkuð forskot á næsta keppinaut sinn, Katrínu Jakobsdóttur. Sex af tólf frambjóðendum fengu færri en 1500 atkvæði í forsetakjörinu en það er lágmarksfjöldi meðmælenda sem skila þarf með framboði. Kjörsókn var 80,8% og hafði ekki verið meiri í forsetakjöri síðan árið 1996.
Framkvæmd
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt stjórnarskrá Íslands er forseti er kjörinn í beinum leynilegum kosningum af þeim sem kosningarrétt hafa í alþingiskosningum. Sá sem fær flest atkvæði í kosningunum telst rétt kjörinn forseti.
Forsetakjör fór nú fram samkvæmt nýjum kosningalögum sem samþykkt voru árið 2021 og giltu um allar kosningar á Íslandi, en áður giltu sérstök lög um framkvæmd forsetakjörs. Helsta nýbreytnin í nýju kosningalögunum var að forsetakjör skyldi framvegis fara fram fyrsta laugardag í júní, en þó ekki ef það er laugardagurinn fyrir hvítasunnudag, þá skuli það fara fram einni viku síðar, en samkvæmt eldri lögum var miðað við seinasta laugardag í júní. Framboðsfrestur var til hádegis 26. apríl og átti kjörskrá einnig liggja fyrir þann sama dag. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hófst svo 3. maí hjá sýslumönnum á Íslandi en sendiráðum og ræðismönnum erlendis.[1]
Til að vera í framboði þarf forsetaefni að skila inn að lágmarki 1500 en að hámarki 3000 meðmælum frá kjósendum sem þurfa að koma úr öllum landsfjórðungum í samræmi við hlutfallslega skiptingu kjósenda á milli þeirra. Í forsetakosningunum 2020 var í fyrsta skipti leyft með sérstakri lagabreytingu að meðmælum væri safnað rafrænt en það var gert sérstaklega með vísan til heimsfaraldurs COVID-19. Með nýju kosningalögunum frá 2021 var þó gert ráð fyrir að rafræn söfnun meðmæla yrði í boði til frambúðar. Opnað var fyrir rafræna söfnun meðmæla á vefnum Island.is þann 1. mars 2024. Þar gátu frambjóðendur stofnað meðmælasöfnun og kjósendur gátu skráð meðmæli með frambjóðendum með rafrænum skilríkjum sínum. Mun fleiri einstaklingar stofnuðu meðmælasöfnun með þessum hætti en þeir sem gáfu út nokkra opinbera tilkynningu um framboð.
Landskjörstjórn tók við framboðum í Hörpu á milli kl. 10 og 12 föstudaginn 26. apríl. Tólf frambjóðendur mættu þar í eigin persónu til að skila inn framboði sínu en Kári Vilmundarson Hansen skilaði sínu framboði með rafrænum hætti.[2] Við yfirferð meðmælalista kom í ljós að frambjóðendurnir Arnar Þór Jónsson, Ástþór Magnússon, Eiríkur Ingi Jóhannsson og Helga Þórisdóttir höfðu ekki nægan fjölda meðmæla og var þeim veittur frestur til kl. 17 á laugardeginum 27. apríl til að bæta úr því. Öll náðu þau að bæta úr því fyrir lok frestsins.[3] Framboð Kára Vilmundarsonar og Viktors Traustasonar voru ekki tekin gild vegna of fárra meðmæla og ágalla á meðmælalistum. Viktor kærði þá niðurstöðu til úrskurðarnefndar kosningamála þar sem henni var hnekkt og Viktori veittur frestur til að lagfæra meðmælalistana.
Fjölmiðlaumfjöllun og auglýsingar
[breyta | breyta frumkóða]Ríkisútvarpið hélt tvennar kappræður með öllum frambjóðendunum þann 3. maí og 31. maí. Stöð 2 hélt einnig tvær kappræður þann 16. maí og 30. maí. Ríkisútvarpið var einnig með þættina Forystusætið á dagskrá um miðjan maí þar sem tekið var viðtal við alla sem að voru í framboði. Auk þess var fjöldi hlaðvarpa og annara spjallþátta með viðtöl við einstaka frambjóðendur og smærri kappræður, meðal annars á Heimildinni og á Vísi.
Frambjóðendur
[breyta | breyta frumkóða]Guðni Th. Jóhannesson, sitjandi forseti Íslands, tilkynnti í nýársávarpi sínu 1. janúar 2024 að hann yrði ekki í framboði eftir átta ára setu í embættinu.[4] Nokkrir frambjóðendur komu fram fljótlega eftir það en flest framboðin komu þó fram eftir miðjan marsmánuð. Tólf frambjóðendur náðu að safna tilskyldum fjölda undirskrifta og skila gildu framboði. Þeir eru taldir upp í töflu hér fyrir neðan og svo fylgir nánari umfjöllun um hvern og einn. Auk þeirra eru skráðir níu aðrir frambjóðendur sem tilkynntu um framboð og hlutu einhverja fjölmiðlaumfjöllun um framboð sitt en náðu samt ekki tilskildum meðmælum. Þann 26. apríl 2024 voru 82 einstaklingar með virka rafræna meðmælasöfnun á Island.is og enn fleiri höfðu áður verið með slíka söfnun í gangi en lokað henni. Í einhverjum tilfellum stofnuðu einstaklingar slíka meðmælasöfnun fyrir mistök.[5]
Frambjóðandi | Titill | Tilkynnti framboð | Meðmælum náð |
---|---|---|---|
Axel Pétur Axelsson | Hlaðvarpsstjórnandi og samsæriskenningarmaður | 31. desember 2023 | Nei |
Arnar Þór Jónsson | Hæstaréttarlögmaður | 3. janúar 2024 | Já |
Ástþór Magnússon | Viðskiptamaður | 3. janúar 2024 | Já |
Ásdís Rán Gunnarsdóttir | Fyrirsæta | 3. janúar 2024 | Já |
Sigríður Hrund Pétursdóttir | Fjárfestir og fyrrum formaður Félags kvenna í atvinnulífinu | 12. janúar 2024 | Nei |
Agnieszka Sokolowska | Verkefnastjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu | 1. mars 2024 | Nei |
Húni Húnfjörð | Viðskiptafræðingur | 2. mars 2024 | Nei |
Halla Tómasdóttir | Rekstrarhagfræðingur | 17. mars 2024 | Já |
Baldur Þórhallsson | Prófessor í stjórnmálafræði | 20. mars 2024 | Já |
Angela Snæfellsjökuls Rawlings | Listamaður | 21. mars 2024 | Nei |
Guðni Þór Þrándarson | Efnafræðingur | 21. mars 2024 | Nei |
Guðbergur Guðbergsson | Fasteignasali | 22. mars 2024 | Nei |
Kári Vilmundarson Hansen | Plötusnúður | 22. mars 2024 | Nei |
Helga Þórisdóttir | Forstjóri Persónuverndar | 27. mars 2024 | Já |
Viktor Traustason | Hagfræðingur | 30. mars 2024 | Já |
Jón Gnarr | Leikari og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur | 2. apríl 2024 | Já |
Guðmundur Felix Grétarsson | Rafveituvirki | 3. apríl 2024 | Nei |
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir | Leikkona | 4. apríl 2024 | Já |
Katrín Jakobsdóttir | Þáverandi forsætisráðherra Íslands | 5. apríl 2024 | Já |
Eiríkur Ingi Jóhannsson | Sjómaður | 6. apríl 2024 | Já |
Halla Hrund Logadóttir | Orkumálastjóri og aðjúnkt við Harvard-háskóla | 7. apríl 2024 | Já |
Arnar Þór Jónsson
[breyta | breyta frumkóða]Arnar Þór Jónsson tilkynnti um framboð sitt þann 3. janúar.[6] Arnar er hæstaréttarlögmaður og fyrrum héraðsdómari. Hann var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi eftir alþingiskosningarnar 2021 en sagði af sér varaþingmennsku og gekk úr Sjálfstæðisflokknum um leið og hann lýsti yfir framboði sínu í forsetakosningunum. Áherslumál Arnars voru að forsetinn ætti að beita sér til þess að verja sjálfsákvörðunarrétt og fullveldi Íslands og að taka ætti upp beint lýðræði í meira mæli, sérstaklega þegar um er að ræða valdaframsal til erlendra stofnana líkt og Arnar telur að eigi sér stað með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu.[7]
Ásdís Rán Gunnarsdóttir
[breyta | breyta frumkóða]Ásdís Rán Gunnarsdóttir tilkynnti um framboð sitt 3. janúar.[8] Ásdís er fyrirsæta og viðskiptakona sem hafði lengi verið búsett í Búlgaríu fyrir framboðið. Ásdís sagði framboð sitt hafa farið af stað með Facebook-færslu sem sett var fram meira í gríni en alvöru. Hún kvaðst búa að mikilli reynslu úr kynningarstarfi erlendis og að sú reynsla nýttist vel í embætti forseta þar sem það fæli að miklu leyti í sér að koma fram og vera góður gestgjafi.[9]
Ástþór Magnússon
[breyta | breyta frumkóða]Ástþór Magnússon Wium tilkynnti um framboð sitt 3. janúar.[10] Ástþór er athafnamaður sem hefur komið að margskonar fyrirtækjarekstri en er þekktastur fyrir endurtekin framboð sín til embættis forseta Íslands. Þetta var í fjórða skiptið sem Ástþór var á kjörseðli í forsetakjöri en tvisvar að auki var framboð hans ógilt. Líkt og áður lagði Ástþór mesta áherslu á að sem forseti Íslands myndi hann beita sér fyrir heimsfriði og sagði hann sitt fyrsta verkefni, næði hann kjöri, verða það að fara til Moskvu og ná friðarsamningi við Vladímír Pútin og stöðva þannig stríðið í Úkraínu. Í viðtölum kvaðst Ástþór hafa fengið vitranir þrjátíu árum áður sem hafi orðið til þess að hann fór fyrst í framboð og að ein af þessum vitrunum hafi gengið út á það að árið 2025 muni verða ráðist á Ísland með kjarnorkuvopnum ef ekki næst friður við Rússland.[11]
Baldur Þórhallsson
[breyta | breyta frumkóða]Baldur Þórhallsson tilkynnti um framboð sitt þann 20. mars.[12] Aðdragandi framboðsins var sá að Gunnar Helgason stofnaði Facebook hóp þann 4. mars þar sem að hann skoraði á Baldur að bjóða sig fram til forseta en þegar að Baldur tilkynnti um framboð voru um 18 þúsund meðlimir í hópnum. Baldur er prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í rannsóknum á smáríkjum í Evrópu. Hann hefur einnig fjallað nokkuð um öryggis- og varnarmál. Eiginmaður Baldurs er Felix Bergsson, leikari og fjölmiðlamaður, en hann lék stórt hlutverk í kosningabaráttu Baldurs. Baldur lagði sérstaka áherslu á mannréttindamál í kosningabaráttu sinni og kvaðst myndu nýta embætti forseta Íslands til að tala fyrir mannréttindum, t.d. í heimsóknum til landa þar sem samkynhneigð er bönnuð.[13]
Eiríkur Ingi Jóhannsson
[breyta | breyta frumkóða]Eiríkur Ingi Jóhannsson tilkynnti um framboð 6. apríl.[14] Eiríkur er sjómaður sem varð þjóðþekktur árið 2012 eftir að hann lifði af sjóslys undan ströndum Noregs. Áherslumál Eiríks í framboðinu voru virkara forsetaembætti þannig að forseti velji ráðherra í ríkisstjórn og að þeir sitji ekki á þingi.[15]
Halla Hrund Logadóttir
[breyta | breyta frumkóða]Halla Hrund Logadóttir tilkynnti um framboð 7. apríl á fundi sem hún boðaði í gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs.[16] Sú ákvörðun kom í kjölfar þess að nokkur hundruð manns gengu í Facebook-hóp til stuðnings framboði hennar.[17] Halla var orkumálastjóri og aðjúnkt við Harvard-háskóla. Þegar hún tilkynnti um framboð sitt tók hún sér jafnramt leyfi frá starfi orkumálastjóra til 2. júní. Í aðdraganda kosninga var fjallað um viljayfirlýsingu sem Halla skrifaði undir með loftslagsráðherra Argentínu í heimsókn sinni þangað sem orkumálastjóri. Utanríkisráðuneytið gerði athugasemd við að hafa ekki verið upplýst um heimsóknina og undirritun viljayfirlýsingar en Halla sagði viljayfirlýsinguna án nokkurra skuldbindinga fyrir íslensk stjórnvöld og að ekki væri óvenjulegt að slíkar viljayfirlýsingar væru gerðar. Halla sagðist mynda nota málskotsrétt forseta í stórum málum sem varða fullveldi þjóðarinnar og auðlindamál.[18]
Halla Tómasdóttir
[breyta | breyta frumkóða]Halla Tómasdóttir lýsti yfir framboði sínu 17. mars en þetta var í annað skiptið sem hún er í framboði í forsetakjöri. Fyrra skiptið var í forsetakjöri 2016 þar sem Halla lenti í öðru sæti á eftir Guðna Th. Jóhannessyni með 27,9% atkvæða. Halla er rekstrarhagfræðingur, kennari og fyrirlesari með reynslu úr atvinnulífinu. Halla lagði áherslu á að forsetinn ætti að fara fyrir grunngildum þjóðarinnar eins og þau voru ákveðin á þjóðfundinum 2009 sem að hún kom að framkvæmd og lagði mikla áherslu á í kosningabaráttunni.[19] Halla vann verulega á í kosningabaráttunni ef miðað er við skoðanakannanir þar sem hún mældist yfirleitt með lægra en 5% fylgi í byrjun maí en var komin í fremstu röð í vikunni fyrir kjördag. Halla bar svo sigur úr býtum í forsetakjörinu með nokkru meira fylgi en síðustu skoðanakannanir höfðu gefið til kynna. Hún varð því önnur konan til að vera kjörin forseti Íslands og fyrst frambjóðenda til að ná kjöri í annarri tilraun sinni.
Helga Þórisdóttir
[breyta | breyta frumkóða]Helga Þórisdóttir lýsti yfir framboði sínu á blaðamannafundi á heimili sínu 27. mars.[20] Helga er forstjóri Persónuverndar en tók sér leyfi frá því starfi á meðan kosningabaráttu stóð. Í kosningabaráttunni tók hún fram að í störfum hennar sem forstjóri Persónuverndar hafi gjarnan reynt á að taka erfiðar ákvarðanir gegn sterkum hagsmunum og að sú reynsla nýttist vel í embætti forseta. Helga gagnrýndi einnig að Katrín Jakobsdóttir sem forsætisráðherra hafi ákveðið að standa frekar með einkafyrirtækinu Íslenskri erfðagreiningu fremur en Persónuvernd þegar fyrirtækið hótaði málshöfðun vegna ákvörðunar Persónuverndar.[21]
Jón Gnarr
[breyta | breyta frumkóða]Jón Gnarr tilkynnti um framboð sitt þann 2. apríl með ávarpi sem tekið var upp í Jónshúsi í Kaupmannahöfn.[22] Jón er leikari, grínisti og fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur. Í kosningabaráttunni lagði Jón mesta áherslu á að beita embættinu í þágu menningar og lista og auka gleðina á Bessastöðum. Um málskotasréttinn sagði Jón að hann myndi beita honum ef fjöldi áskoranna bærist um það frá almenningi eða ef Alþingi ætlaði að setja lög sem gengju gegn hans siðferðiskennd.[23]
Katrín Jakobsdóttir
[breyta | breyta frumkóða]Katrín Jakobsdóttir lýsti yfir framboði sínu þann 5. apríl í ávarpi á samfélagsmiðlum.[24] Katrín hafði þá setið í embætti forsætisráðherra frá nóvember 2017 og verið þingmaður Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá 2007. Með framboði sínu varð Katrín fyrsti ráðherrann í lýðveldissögunni til þess að fara beint í forsetaframboð. Í kjölfar framboðsyfirlýsingar sinnar baðst Katrín lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt auk þess sem hún sagði af sér þingmennsku og formennsku í VG.[25]
Í skoðanakönnunum í aðdraganda kosninga mældist Katrín iðulega efst eða næstefst með 20 til 30% fylgi. Katrín var þó jafnframt oft nefnd umdeildust þeirra frambjóðenda sem mældust efstir í könnunum og nokkur umræða var um það hvort að kjósendur myndu kjósa „taktískt“, þ.e. að kjósa einhvern annann en þeim hugnaðist mest til þess að koma í veg fyrir að Katrín næði kjöri.[26] Sú umræða hélt áfram að forsetakjörinu loknu þar sem ósigur Katrínar var stundum skýrður með því að kjósendur hafi kosið taktískt og fylgi annarra frambjóðenda, þá sérstaklega Höllu Hrundar og Baldurs, hafi þannig færst á Höllu Tómasdóttur.[27]
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir
[breyta | breyta frumkóða]Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir tilkynnti um framboð sitt 4. apríl.[28] Hún hafði þá áður lýst því yfir að ef Katrín Jakobsdóttir færi í framboð þá myndi hún gera það einnig þar sem hún treysti ekki Katrínu til að verja íslenska náttúru og auðlindir.[29] Í kosningabaráttu sinni lagði Steinunn mikla áherslu á orku- og auðlindamál og sagði erindi sitt í embætti forseta Íslands vera að verja hagsmuni þjóðarinnar gagnvart athöfnum þings og ríkisstjórnar.[30]
Viktor Traustason
[breyta | breyta frumkóða]Viktor Traustason tilkynnti um framboð sitt 30. mars á persónulegri Facebook-síðu sinni.[31] Um framboðið var þó ekki fjallað í fjölmiðlum fyrr en Viktor skilaði inn framboði sínu til Landskjörstjórnar. Framboðinu var í fyrstu hafnað á þeim grundvelli að upplýsingar um lögheimili vantaði á handskrifaða meðmælalista en úrskurðarnefnd kosningamála felldi þá ákvörðun úr gildi og veitti Viktori frest til að bæta úr ágöllum á meðmælalistum. Það dugði til, þannig að 2. maí samþykkti Landskjörstjórn framboðið.[32] Helstu málefnin sem Viktor lagði áherslu á voru að ráðherrar ættu ekki að vera þingmenn og að mótmæli 10% kjósenda gegn lagafrumvarpi ættu að duga til að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Á hinn bóginn sagðist Viktor ekki hafa áhuga á að sækja fín kokteilboð og veislur í útlöndum.[33]
Aflýst framboð
[breyta | breyta frumkóða]Eftirtaldir aðilar lýstu yfir framboði til forseta í fjölmiðlum en drógu siðan framboð sín til baka áður en framboðsfrestur rann út. Ellefu aðrir skráðu sig óvart í framboð til forseta á Island.is þegar þeir ættluðu að mæla með öðrum frambjóðenda en drógu síðan framboðin til baka þegar upp komst um mistökin.[34]
Frambjóðandi | Titill | Lýsti yfir framboði | Hætti við framboð | Upplýsingar | Heimildir |
---|---|---|---|---|---|
Halldór Laxness Halldórsson | Skemmtikraftur | 1. janúar 2024 | 6. janúar 2024 | Þann 2. janúar ákvað Halldór að skilyrða framboðið sitt við eldgos á Reykjanesi þann 6. janúar 2024, það er að segja að ef að gjósa myndi þann dag, myndi hann fara í framboð, sem gerðist ekki. | [35][36] |
Tómas Logi Hallgrímsson | Björgunarsveitarmaður | 5. janúar 2024 | 20. mars 2024 | 20. mars tók Tómas Logi framboð sitt til baka vegna fárra undirskrifta og lýsti í kjölfarið yfir stuðningi við framboð Baldurs Þórhallssonar. | [37][38] |
Búi Baldvinsson | Kvikmyndagerðarmaður | 2. mars 2024 | 8. mars 2024 | Búi tilkynnti framboð sitt á Facebook síðu sinni 2. mars en tók færsluna út og fjarlægði meðmælasöfnun sína 8. mars. | [39][40] |
Snorri Óttarsson | Húsasmiður | 4. mars 2024 | 3. apríl 2024 | Snorri stofnaði til meðmælasöfnunar 4. mars en fjarlægði hana 3. apríl. | [40][41] |
Margrét Friðriksdóttir | Fjölmiðlakona | 22. mars 2024 | 28. mars 2024 | Margrét stofnaði meðmælalista 22. mars en 28. mars tók hún meðmælalistann til baka vegna fjölda frambjóðanda og vegna þess að það var aldrei nein alvara með framboði hennar. | [40][42][43] |
Mögulegir frambjóðendur sem buðu ekki fram
[breyta | breyta frumkóða]- 1. janúar tilkynnti Björgvin Páll Gústavsson að hann væri í framboðspælingum.[44] 2. febrúar tilkynnti hann að hann myndi ekki gefa kost á sér.[45]
- 4. janúar tilkynnti Björn Zoëga, þáverandi forstjóri Karolinska-sjúkrahússins í Svíþjóð að hann væri að íhuga framboð.[46] 22. mars tilkynnti hann að hann ætlaði ekki í framboð.[47]
- 6. janúar tilkynnti fasteignamiðlarinn Hlynur Jónsson að hann væri að leggjast undir feld fyrir mögulegt famboð.[48] 15. apríl tilkynnti hann að hann myndi ekki bjóða sig fram.[49]
- 5. febrúar tilkynnti Eyjólfur Guðmundsson, þáverandi rektor við Háskólann á Akureyri að hann væri að íhuga framboð.[50] 22. mars tilkynnti hann að hann myndi ekki bjóða sig fram að þessu sinni.[51]
- 27. febrúar tilkynnti Alma Möller, landlæknir að hún væri að íhuga framboð.[52] 8. apríl tilkynnti hún að hún myndi ekki fara í framboð.[53]
- 1. mars tilkynnti Ólafur Jóhann Ólafsson, rithöfundur að hann væri að íhuga forsetaframboð.[54] 14. mars tilkynnti hann að hann færi ekki í framboð.[55]
- 6. mars tilkynnti Salvör Nordal, umboðsmaður barna að hún væri að íhuga forsetaframboð sem að sagðist ætla að gefa út tilkynningu fyrir páska.[56] 23. mars tilkynnti Salvör að hún myndi ekki fara í framboð, þrátt fyrir gott gengi í könnunum.[57]
- 29. mars tilkynnti Jakob Frímann Magnússon, þingmaður að hann væri að leggjast undir feld fyrir mögulegt forsetaframboð.[58] 6. apríl tilkynnti hann að hann myndi ekki gefa kost á sér og lýsti jafnframt stuðningi við framboð Katrínar Jakobsdóttur.[59]
Ýmis önnur nöfn voru nefnd í þjóðarumræðunni um mögulega frambjóðendur, þar á meðal voru Dagur B. Eggertsson, Davíð Oddsson, Bjarni Benediktsson, Eva María Jónsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Magnús Geir Þórðarson, Róbert Spanó, Svafa Grönfeldt, Víðir Reynisson, Þórólfur Guðnason, Fannar Jónasson, Óttarr Proppé, Gerður Kristný Guðjónsdóttir, Stefán Eiríksson, Haraldur Þorleifsson, Lilja Alfreðsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Andri Snær Magnason, Pawel Bartoszek, Þóra Arnórsdóttir, Þorgrímur Þráinsson og Alfreð Gíslason öll í umræðunni.
Skoðanakannanir
[breyta | breyta frumkóða]Samkvæmt könnun Prósents í janúar 2024 sögðust 77% þjóðarinnar vilja fá engann frambjóðanda sem þá var búinn að tilkynna framboð. Í lok mars þegar að fleiri frambjóðendur voru búnir að tilkynna framboð tók Baldur Þórhallsson forystuna og var með afgerandi meirihluta, þangað til um miðjan apríl þegar að Katrín Jakobsdóttir tók forystuna. Í lok apríl tók Halla Hrund forustuna, en Katrín og Baldur voru ekki langt á undan. Katrín tók svo aftur forystuna um miðjan maí. Halla Tómasdóttir mældist með lítið fylgi framan af en fylgi hennar jókst jafnt og þétt allan maímánuð þannig að í síðustu viku fyrir kosningar var hún komin í fremstu röð. Í könnun Maskínu sem gerð var 31. maí en ekki birt fyrr en að kosningum loknum var fylgi Höllu komið yfir 30%.
Fyrirtæki | Dags. | Arnar Þór | Ásdís Rán | Ástþór | Baldur | Eiríkur Ingi | Halla Hrund | Halla T. | Helga | Jón Gnarr | Katrín | Steinunn Ólína | Viktor | Aðrir/óviss |
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Kosninganiðurstöður | 1.6 | 5,1 | 0,2 | 0,2 | 8,4 | 0,0 | 15,7 | 34,1 | 0,1 | 10,1 | 25,2 | 0,6 | 0,2 | – |
Maskína | 31.5 | 4,4 | 0,5 | 0,2 | 12,0 | 0,2 | 18,0 | 30,2 | 0,2 | 9,5 | 23,0 | 1,0 | 0,6 | – |
Gallup | 24.5–31.5 | 6,2 | 0,2 | 0,4 | 14,6 | 0,1 | 19,0 | 23,9 | 0,1 | 8,4 | 25,6 | 0,9 | 0,5 | – |
Prósent | 27.5–30.5 | 6,1 | 0,5 | 0,1 | 14,6 | – | 22,0 | 23,5 | 0,4 | 9,0 | 22,2 | 1,1 | 0,5 | – |
Maskína | 27.5–30.5 | 5,0 | 0,4 | 0,4 | 15,4 | 0,1 | 18,4 | 24,1 | 0,3 | 9,9 | 24,1 | 1,5 | 0,6 | – |
Háskóli Íslands | 22.5–30.5 | 7,1 | 0,8 | 0,4 | 16,1 | 0,2 | 18,4 | 18,5 | 0,2 | 9,9 | 26,3 | 1,5 | 0,6 | – |
Prósent | 21.5–26.5 | 6,4 | 0,6 | 0,3 | 16,9 | 0,1 | 21,0 | 20,2 | 0,7 | 11,4 | 20,1 | 1,5 | 0,8 | – |
Gallup | 17.5–23.5 | 7 | – | – | 18 | – | 19 | 17 | – | 9 | 27 | 1 | – | 2 |
Maskína | 22.5–23.5 | 5,4 | 0,3 | 0,6 | 18,2 | 0,1 | 16,6 | 18,6 | 0,5 | 12,4 | 25,7 | 0,9 | 0,7 | – |
Prósent | 14.5–19.5 | 6,0 | 0,9 | 1,0 | 18,2 | 0,1 | 19,7 | 16,2 | 0,2 | 13,4 | 22,1 | 1,3 | 1,0 | – |
Gallup | 10.5–16.5 | 6 | – | – | 19 | – | 21 | 15 | – | 11 | 23 | 1 | – | 4 |
Maskína | 13.5–16.5 | 5,2 | 0,4 | 0,7 | 16,2 | 0,1 | 21,8 | 14,9 | 0,2 | 12,6 | 26,1 | 1,1 | 0,7 | – |
Prósent | 7.5–12.5 | 5,7 | 0,4 | 0,7 | 17,9 | 0,1 | 26,0 | 12,5 | 0,5 | 13,8 | 19,2 | 1,8 | 1,5 | – |
Gallup | 3.5–9.5 | 6 | – | – | 18 | – | 25 | 11 | – | 10 | 25 | 1 | 2 | 1 |
EMC | 2.5–8.5 | 4,5 | 0,6 | 0,3 | 21,8 | 0,3 | 29,1 | 4,1 | 0,3 | 13,0 | 22,9 | 1,1 | 2,0 | – |
Maskína | 30.4–8.5 | 4,2 | 1,2 | 0,4 | 18,9 | 0,1 | 29,7 | 5,4 | 0,8 | 11,2 | 26,7 | 1,2 | 0,6 | – |
Prósent | 30.4–5.5 | 4,3 | 1,0 | 1,1 | 20,4 | 0,2 | 29,7 | 5,1 | 0,3 | 14,7 | 21,3 | 1,9 | – | – |
Maskína | 22.4–3.5 | 4,2 | 1,5 | 0,3 | 19,9 | 0,1 | 29,4 | 3,7 | 0,4 | 12,9 | 26,8 | 0,9 | – | – |
Gallup | 26.4–2.5 | 3 | – | – | 19 | – | 36 | 4 | – | 10 | 23 | 2 | – | 2 |
Háskóli Íslands | 22.4–30.4 | 4,1 | 0,5 | 0,9 | 23,6 | 0,1 | 27,6 | 4,5 | 0,2 | 7,4 | 29,9 | 1,3 | – | – |
Prósent | 23.4–28.4 | 2,7 | 1,9 | 0,5 | 25,0 | – | 28,5 | 3,9 | 0,2 | 16,0 | 18,0 | 2,3 | – | – |
Maskína | 22.4-26.4 | 3,3 | 1,5 | 0,5 | 21,2 | – | 26,2 | 4,1 | 0,2 | 15,2 | 25,4 | 1,2 | – | 0,6 |
Gallup | 17.4–22.4 | 3 | – | – | 28 | – | 16 | 4 | – | 15 | 31 | 1 | – | 1 |
Prósent | 16.4–21.4 | 2,8 | 1,1 | 1,1 | 27,2 | – | 18,0 | 5,8 | 0,1 | 17,2 | 23,8 | 2,1 | – | 0,9 |
Maskína | 12.4–16.4 | 3,8 | 1,3 | 0,9 | 24,0 | – | 10,5 | 6,7 | – | 18,9 | 31,4 | 1,8 | – | 0,6 |
Prósent | 9.4–14.4 | 2,9 | 0,8 | 0,4 | 25,8 | – | 10,6 | 4,3 | 0,4 | 16,8 | 22,1 | 2,9 | – | 10,5 |
Gallup | 5.4–11.4 | 4 | 2 | 1 | 26 | – | 4 | 7 | – | 18 | 30 | 2 | – | 6 |
Maskína | 5.4–8.4 | 3,2 | – | 0,6 | 26,7 | – | 5,7 | 7,3 | 0,4 | 19,6 | 32,9 | 1,9 | – | 1,7 |
Prósent | 20.3–27.3 | 5 | 4 | 2 | 37 | – | – | 15 | – | – | – | – | – | 38 |
Úrslit
[breyta | breyta frumkóða]Frambjóðandi | Atkvæði | % |
---|---|---|
Halla Tómasdóttir | 73.184 | 34,15 |
Katrín Jakobsdóttir | 53.980 | 25,19 |
Halla Hrund Logadóttir | 33.601 | 15,68 |
Jón Gnarr | 21.634 | 10,09 |
Baldur Þórhallsson | 18.030 | 8,41 |
Arnar Þór Jónsson | 10.881 | 5,08 |
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir | 1.383 | 0,65 |
Ástþór Magnússon | 465 | 0,22 |
Ásdís Rán Gunnarsdóttir | 394 | 0,18 |
Viktor Traustason | 392 | 0,18 |
Helga Þórisdóttir | 275 | 0,13 |
Eiríkur Ingi Jóhannsson | 101 | 0,05 |
Samtals | 214.320 | 100,00 |
Gild atkvæði | 214.320 | 99,39 |
Ógild atkvæði | 512 | 0,24 |
Auð atkvæði | 803 | 0,37 |
Heildarfjöldi atkvæða | 215.635 | 100,00 |
Kjósendur á kjörskrá | 266.741 | 80,84 |
Heimild: Landskjörstjórn |
Kjörsókn var 80,8% og hafði ekki verið meiri í forsetakjöri síðan 1996. Kjörsókn var hærri á meðal kvenna (83,3%) en karla (78,3%) og kvára (67,1%).[60]
Kostnaður við framboð
[breyta | breyta frumkóða]Frambjóðendur komu sjálfum sér einnig á framfæri með auglýsingum, kosningaskrifstofum o.s.frv. Samkvæmt uppgjöri frambjóðendanna sem skilað var til Ríkisendurskoðunar var framboð Katrínar Jakobsdóttur langdýrast og kostaði rúmar 57 milljónir króna. Framboð Höllu Tómasdóttur sem sigraði í kosningunum kostaði 26 milljónir.[61] Yfirlit um kostnað við framboð hvers og eins frambjóðanda og eigið framlag má sjá í töflu hér að neðan.
Frambjóðandi | Heildarkostnaður (kr.) | Eigið framlag frambjóðanda (kr.) |
---|---|---|
Katrín Jakobsdóttir | 57.348.689 | 3.000.000 |
Halla Hrund Logadóttir | 27.516.877 | 1.909.573 |
Halla Tómasdóttir | 26.002.032 | 3.537.202 |
Arnar Þór Jónsson | 25.608.327 | 10.294.250 |
Baldur Þórhallsson | 20.402.285 | 4.932.882 |
Helga Þórisdóttir | 17.736.928 | 16.956.928 |
Jón Gnarr | 10.664.091 | 0 |
Ástþór Magnússon Wium | 8.909.046 | 7.773.860 |
Ásdís Rán Gunnarsdóttir | 773.585 | 0 |
Eiríkur Ingi Jóhannsson | undir 550.000^a | |
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir | undir 550.000^b | |
Viktor Traustason | undir 550.000^a | |
[a] Eiríkur og Viktor skiluðu ekki uppgjöri til Ríkisendurskoðunar en slíkt var ekki skylt ef tekjur eða gjöld framboðsins voru undir kr. 550.000. Þeir skiluðu þess í stað inn yfirlýsingu um að kostnaður við framboðið hefði ekki náð þeim mörkum. [b] Frá framboði Steinunnar hefur hvorki borist uppgjör né yfirlýsing um að kostnaður hafi verið innan við kr. 550.000. Ekki er skylt að skila slíkri yfirlýsingu þegar kostnaður er undir þeim mörkum. |
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Hólmfríður Dagný Brynjólfsdóttir. „Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst á morgun“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ Árni Sæberg. „Þrettánda nafnið bætist við“. Vísir.is. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ „Landskjörsstjórn tilkynnir á morgun hvaða listar eru gildir“. Vísir.is. Sótt 28. apríl 2024.
- ↑ Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir (1. janúar 2024). „Guðni býður sig ekki fram á ný“. RÚV. Sótt 1. janúar 2024.
- ↑ Á annan tug óvart í forsetaframboð Rúv, sótt 21 mars 2024
- ↑ „Arnar Þór býður sig fram til forseta“. www.mbl.is. Sótt 3. janúar 2024.
- ↑ Róbert Jóhannsson (16. maí 2024). „Arnar Þór í Forystusætinu: Yrði í eftirlits- og aðhaldshlutverki gagnvart þinginu og framkvæmdavaldinu“. RÚV. Sótt 31. maí 2024.
- ↑ Svava Marín Óskarsdóttir (1. apríl 2024). „Glamúr, glæsikerra og einkaþota á Bessastaði - Vísir“. visir.is. Sótt 18. mars 2024.
- ↑ Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (15. maí 2024). „Ásdís Rán í Forystusætinu: Fyrirsætustarfið nýtist vel í embætti forseta“. RÚV. Sótt 30. maí 2024.
- ↑ Róbert Jóhannsson (3. janúar 2024). „Ástþór Magnússon býður sig fram til forseta“. RÚV. Sótt 3. janúar 2024.
- ↑ Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (13. maí 2024). „Ástþór í Forystusætinu: Forseti Íslands getur talað um fyrir Pútín“. RÚV. Sótt 30. maí 2024.
- ↑ Alexander Kristjánsson (20. mars 2024). „Baldur Þórhallsson býður sig fram til forseta - RÚV.is“. RÚV. Sótt 20. mars 2024.
- ↑ Róbert Jóhannsson (24. maí 2024). „Baldur í Forystusætinu: Mikilvægt að mál fái ekki sjálfsafgreiðslu á Bessastöðum“. RÚV. Sótt 31. maí 2024.
- ↑ Jósefsdóttir, Sólrún Dögg (4. júní 2024). „Lifði af sjóslys og tekur nú forsetaslaginn - Vísir“. visir.is. Sótt 7. apríl 2024.
- ↑ Róbert Jóhannsson (22. maí 2024). „Eiríkur Ingi í Forystusætinu: Fólk hefur mest áhrif á framkvæmdavaldið í gegnum forsetann“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ „Halla Hrund Logadóttir býður sig fram til forseta“. RÚV. 7. apríl 2024. Sótt 7. apríl 2024.
- ↑ Róbert Jóhannsson (24. maí 2024). „Baldur í Forystusætinu: Mikilvægt að mál fái ekki sjálfsafgreiðslu á Bessastöðum“. RÚV. Sótt 31. maí 2024.
- ↑ Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir (14. maí 2024). „Halla Hrund í Forystusætinu: Forsetinn á að hjálpa tækifærum Íslands að vaxa“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ Halla Tómasdóttir í Forystusætinu: Vill kalla þjóðina saman til að uppfæra grunngildin (23. maí 2024). „Erfitt að kjósa taktískt gegn Katrínu“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ „Helga Þórisdóttir býður sig fram til forseta - RÚV.is“. RÚV. 27. mars 2024.
- ↑ Róbert Jóhannsson (17. maí 2024). „Helga í Forystusætinu: Forsetinn eigi að vera óháður pólitík og hagsmunaöflum“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ „Jón Gnarr tilkynnir forsetaframboð - RÚV.is“. RÚV. 2. apríl 2024.
- ↑ Róbert Jóhannsson (20. maí 2024). „Jón Gnarr í Forystusætinu: Forsetinn á að vera stemningsmaður“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ Árni Sæberg (5. apríl 2024). „Katrín gefur kost á sér“. Visir.is. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ Ragnhildur Helgadóttir; Þórður Snær Júlíusson (5. apríl 2024). „Katrín segist ekki ómissandi og sér brotthvarf sitt sem tækifæri fyrir Vinstri græn“. Heimildin. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ Ásta Hlín Magnúsdóttir (24. maí 2024). „Erfitt að kjósa taktískt gegn Katrínu“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ Oddur Ævar Gunnarsson (2. júní 2024). „Fólk hafi kosið taktískt gegn Katrínu“. Visir.is. Sótt 6. júlí 2024.
- ↑ Bjarnar, Jakob (4. mars 2024). „Steinunn Ólína komin á lista yfir forsetaefni - Vísir“. visir.is. Sótt 3. apríl 2024.
- ↑ Matthías Jochum Pálsson (31. mars 2024). „„Geri hún það, þá býð ég mig fram"“. visir.is. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ Ingunn Lára Kristjánsdóttir (27. mars 2024). „Steinunn Ólína í Forystusætinu: Vill verja þjóðina fyrir þeim sem eiga og ráða“. RÚV. Sótt 1. júní 2024.
- ↑ „Skráðu þig inn eða stofnaðu aðgang til að skoða“. www.facebook.com. Sótt 29. apríl 2024.
- ↑ „Landskjörstjórn metur framboð Viktors gilt“. www.ruv.is. Sótt 2. maí 2024.
- ↑ Þorgils Jónsson (28. maí 2024). „Viktor Traustason í Forystusætinu: Ekki spenntur fyrir kokteilboðum og partíum í útlöndum“. RÚV. Sótt 31. maí 2024.
- ↑ Agust, Rafn (22. mars 2024). „Ellefu manns óvart í framboði - Vísir“. visir.is. Sótt 29. apríl 2024.
- ↑ Bjarnar, Jakob (2. janúar 2024). „Axel Pétur og Dóri DNA mættir til leiks sem forsetaframbjóðendur - Vísir“. visir.is. Sótt 2. janúar 2024.
- ↑ „X færsla @doridna“. 2. janúar 2024.
- ↑ Magnús Jochum Pálsson (3. janúar 2024). „Tómas Logi býður sig fram til forseta“. Vísir. Sótt 5. janúar 2024.
- ↑ Sæberg, Árni (20. mars 2024). „Dregur framboðið til baka vegna fárra undirskrifta - Vísir“. visir.is. Sótt 20. mars 2024.
- ↑ Pálsson, Magnús Jochum (3. mars 2024). „Forsetaframbjóðendur skjóta upp kollinum eins og gorkúlur á haug - Vísir“. visir.is. Sótt 3. mars 2024.
- ↑ 40,0 40,1 40,2 „Meðmælasöfnun fyrir forsetaframboð 2024 | Ísland.is“. island.is. Sótt 3. mars 2024.[óvirkur tengill]
- ↑ „Snorri vill sjá skemmtigarð eins og Lególand opna á Íslandi - Alveg til í að fjármagna það með afgangi af launum sínum sem forseti“. DV. 22. mars 2024. Sótt 22. mars 2024.
- ↑ Sverrisson, Ólafur Björn (23. mars 2024). „Margrét Friðriks safnar undirskriftum til að kanna áhugann - Vísir“. visir.is. Sótt 23. mars 2024.
- ↑ Pétursson, Vésteinn Örn (28. mars 2024). „Hætt við framboð og vonast eftir þjóðhollum og guðræknum forseta - Vísir“. visir.is. Sótt 30. mars 2024.
- ↑ „Björgvin Páll útilokar ekki forsetaframboð“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Sæberg, Árni (2. febrúar 2024). „Björgvin Páll eyðir óvissunni - Vísir“. visir.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „Björn Zoëga íhugar forsetaframboð“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „Björn hvorki á leið heim né á Bessastaði“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Pálsson, Magnús Jochum (1. júní 2024). „Hlynur Jónsson leggst undir forsetafeld - Vísir“. visir.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „X-færsla Hlyns Jónssonar“.
- ↑ „Eyjólfur íhugar forsetaframboð“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „Eyjólfur ætlar ekki að bjóða sig fram“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Ragnarsson, Rafn Ágúst (27. febrúar 2024). „Alma Möller leiðir hugann að forsetaframboði - Vísir“. visir.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Ísleifsson, Atli (4. ágúst 2024). „Alma fer ekki fram - Vísir“. visir.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „Ólafur Jóhann: „Ég legg við hlustir"“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Sigþórsson, Atli (14. mars 2024). „Ólafur Jóhann fer ekki í forseta-framboð - RÚV.is“. RÚV. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Jósefsdóttir, Sólrún Dögg (3. júní 2024). „Salvör Nordal íhugar forsetaframboð - Vísir“. visir.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „Salvör fer ekki í framboð“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ Pálsson, Magnús Jochum (29. mars 2024). „Stuðmaður leggst undir feldinn - Vísir“. visir.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „Mun ekki gefa kost á sér“. www.mbl.is. Sótt 18. apríl 2024.
- ↑ „Kosningaþátttaka ekki meiri síðan 1996“. Ríkisútvarpið. 3. október 2024.
- ↑ Erla María Markúsdóttir (29. maí 2024). „Framboð Katrínar tvöfalt dýrara en næst dýrasta framboðið“. Heimildin. Sótt 4. júní 2024.
- ↑ „Skilalisti“. rikisendurskodun.is. Sótt 26. september 2024.