Geir H. Haarde
Geir H. Haarde | |||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Forsætisráðherra Íslands | |||||||||||||
Í embætti 15. júní 2006 – 1. febrúar 2009 | |||||||||||||
Forseti | Ólafur Ragnar Grímsson | ||||||||||||
Forveri | Halldór Ásgrímsson | ||||||||||||
Eftirmaður | Jóhanna Sigurðardóttir | ||||||||||||
Utanríkisráðherra Íslands | |||||||||||||
Í embætti 27. september 2005 – 15. júní 2006 | |||||||||||||
Forsætisráðherra | Halldór Ásgrímsson | ||||||||||||
Forveri | Davíð Oddsson | ||||||||||||
Eftirmaður | Valgerður Sverrisdóttir | ||||||||||||
Fjármálaráðherra Íslands | |||||||||||||
Í embætti 16. apríl 1998 – 27. september 2005 | |||||||||||||
Forsætisráðherra | Davíð Oddsson Halldór Ásgrímsson | ||||||||||||
Forveri | Friðrik Sophusson | ||||||||||||
Eftirmaður | Árni M. Mathiesen | ||||||||||||
Formaður Sjálfstæðisflokksins | |||||||||||||
Í embætti 16. október 2005 – 29. mars 2009 | |||||||||||||
Forveri | Davíð Oddsson | ||||||||||||
Eftirmaður | Bjarni Benediktsson | ||||||||||||
Alþingismaður | |||||||||||||
| |||||||||||||
Persónulegar upplýsingar | |||||||||||||
Fæddur | 8. apríl 1951 Reykjavík, Ísland | ||||||||||||
Stjórnmálaflokkur | Sjálfstæðisflokkurinn | ||||||||||||
Maki | Patricia Angelina (skilin); Inga Jóna Þórðardóttir | ||||||||||||
Háskóli | Brandeis-háskóli Johns Hopkins-háskóli Minnesota-háskóli, Twin Cities | ||||||||||||
Æviágrip á vef Alþingis |
Geir Hilmar Haarde (fæddur 8. apríl 1951) er Íslenskur hagfræðingur, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands frá 2006 til 2009 og formaður Sjálfstæðisflokksins frá 2005 til 2009. Hann var forsætisráðherra Íslands á meðan á bankahruninu stóð haustið 2008. Hann var ákærður til Landsdóms fyrstur íslenskra ráðherra. Geir var í ágúst 2014 skipaður sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum í Mið- og Suður-Ameríku frá og með 1. janúar 2015. Hann lét af störfum 1. júlí 2019 og tók sér sæti í stjórn Alþjóðbankans.
Ævi
[breyta | breyta frumkóða]Geir lauk stúdentsprófi frá MR 1971. Hann starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu á sumrin 1972-1977. Hann lauk BA-prófi í hagfræði frá Brandeis-háskóla, Bandaríkjunum, 1973. MA-próf í alþjóðastjórnmálum frá Johns Hopkins-háskóla, Bandaríkjunum, 1975. MA-próf í hagfræði frá Minnesota-háskóla, Bandaríkjunum, 1977. Árið 2007 veitti Minnesota-háskóli honum heiðursdoktorsnafnbót. Geir vann sem hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands 1977-1983. Hann starfaði sem aðstoðarmaður Alberts Guðmundssonar, fjármálaráðherra 1983-85 og Þorsteins Pálssonar 1985-87.
Geir sat á Alþingi fyrir Reykjavík á árunum 1987-2009 og var formaður þingflokks sjálfstæðismanna frá 1991-1998. Hann var forseti Norðurlandaráðs 1995. Geir var skipaður fjármálaráðherra árið 1998. Hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og tók við embætti utanríkisráðherra og formennsku í Sjálfstæðisflokknum af Davíð Oddssyni er hann hvarf af vettvangi stjórnmála á árinu 2005.
Bankahrunið
[breyta | breyta frumkóða]Í sjónvarpsávarpi til þjóðarinnar 6. október 2008, skömmu eftir bankahrunið á Íslandi, lauk Geir orðum sínum á hinni fleygu setningu Guð blessi Ísland. Þegar svokölluð Búsáhaldabylting stóð sem hæst í janúar 2009 tilkynnti hann í beinni útsendingu frá Valhöll, höfuðstöðvum Sjálfstæðisflokksins, 23. janúar 2009 að hann hefði nýlega greinst með krabbamein í vélinda og þyrfti að fara utan til meðferðar. Hann tilkynnti jafnframt að hann myndi láta af formennsku í Sjálfstæðisflokknum eftir næsta landsfund og segja skilið við stjórnmálin. Hann sagðist vilja efna til kosninga 9. maí 2009.[1] Geir baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt 26. janúar 2009. Þegar styrkjamálið kom upp í apríl 2009 tók Geir á sig sökina. [2] Hann gaf frá sér þannig tilkynningu: „Ég ber því sem formaður flokksins á þeim tíma einn alla ábyrgð á þessu máli. Sama er að segja um hátt framlag frá Landsbanka Íslands frá sama tíma. Framkvæmdastjórar flokksins, núverandi og fyrrverandi, bera hér enga ábyrgð.“ [3]
Landsdómsmálið
[breyta | breyta frumkóða]Í september 2010 ákvað Alþingi að vísa meintum afglöpum Geirs í starfi forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins 2008 fyrir Landsdóm sem sakamáli. Geir kallaði væntanleg réttarhöld pólitísk réttarhöld og 2011 var hleypt af stokkunum söfnun til stuðnings Geir vegna þeirra.
Réttarhöld í máli Geirs hófust í Reykjavík þann 5. mars árið 2012. Geir var sakfelldur fyrir eitt ákæruatriði af fjórum þann 23. apríl sama ár, fyrir að hafa ekki brugðist rétt við vandamálum íslensku bankanna. Úrskurðað var að Geir hefði ekki sinnt skyldu sinni samkvæmt 17. grein stjórnarskrár Íslands með því halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni.[4] Þrátt fyrir dóminn var Geir ekki gert að sæta refsingu og íslenska ríkinu var gert að greiða málsvarnarkostnað hans.[5] Geir áfrýjaði dómnum til Mannréttindadómstóls Evrópu og hélt því fram að málssóknin gegn honum hefði verið pólitísks eðlis. Mannréttindadómstóllinn dæmdi gegn Geir árið 2017 og úrskurðaði að íslenska ríkið hefði ekki gerst brotlegt gegn honum með ákæru sinni.[6]
Sendiherra í Bandaríkjunum
[breyta | breyta frumkóða]Geir var í ágúst 2014 skipaður sendiherra Íslands í Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum í Mið- og Suður-Ameríku af Gunnari Braga Sveinssyni, þáverandi utanríkisráðherra. Geir tók við embættinu þann 1. janúar 2015. Gunnar Bragi viðurkenndi í einkasamtali sem náðist á upptöku árið 2018 að hafa tekið ákvörðunina um útnefningu Geirs til þess að „eiga inni greiða“ hjá Sjálfstæðisflokknum og vera mögulega sjálfur einhvern tímann útnefndur í sendiherraembætti.[7] Á upptökunni heyrist Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem var forsætisráðherra þegar Geir var útnefndur, einnig staðfesta frásögn Gunnars Braga.[7] Gunnar Bragi dró síðar þessi ummæli sín til baka í fjölmiðlum og bar fyrir sig að hafa verið ölvaður. Hann hafnaði jafnframt því að hann ætti inni greiða hjá Sjálfstæðisflokknum.[8]
Geir lét af sendiherraembættinu þann 1. júlí 2019 og tók sæti í stjórn Alþjóðabankans.[9][10]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Geir er ættaður frá Noregi í föðurætt. Eiginkona hans er Inga Jóna Þórðardóttir en fyrri kona hans var Patricia Angelina, f. Mistretta frá Frakklandi.
Geir er fyrsti ráðherrann í íslenskri stjórnmálasögu sem hefur gegnt öllum þremur helstu ráðherraembættum; forsætisráðherra, fjármálaráðherra og utanríkisráðherra.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Geir með illkynja æxli í vélinda - kosið í maí; af mbl.is
- ↑ Þáði styrki þrátt fyrir tortyggni; af Rúv.is
- ↑ Ábyrgð Geirs stórjókst á sjö mínútum; af Vísi.is 08.04.2009
- ↑ „Geir sekur af einum ákærulið“. RÚV. 23. apríl 2012. Sótt 28. nóvember 2018.
- ↑ „Geir sýknaður af þremur liðum en sakfelldur í einum“. Viðskiptablaðið. 23. apríl 2012. Sótt 28. nóvember 2018.
- ↑ „Geir tapar málinu fyrir Mannréttindadómstólnum“. RÚV. 23. nóvember 2017. Sótt 28. nóvember 2018.
- ↑ 7,0 7,1 Kristinn H. Guðnason og Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson (28. nóvember 2018). „Gunnar Bragi skipaði Árna Þór sendiherra til að draga athygli frá Geir Haarde – „Ég var brjálaður við þig Gunni"“. DV. Sótt 28. nóvember 2018.
- ↑ „„Langur listi af fólki sem ég þarf að biðja afsökunar"“. Fréttablaðið. 29. nóvember 2018. Sótt 21. desember 2018.
- ↑ „Geir H. Haarde í stjórn Alþjóðabankans“. mbl.is. 5. október 2018. Sótt 7. október 2018.
- ↑ „Ísland tekur í dag sæti í stjórn Alþjóðabankans“. Vísir. 1. júlí 2018. Sótt 6. júlí 2019.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Greinar eftir Geir H. Haarde
- Sjálfstæðisstefnan áfram leiðandi afl; áramótaávarp í Fréttablaðinu 2007
- Ráðherraskipti ekki útilokuð, viðtal við Geir í Fréttablaðinu 14. desember 2008
- Taldi sig enga heimild hafa til að grípa inn í starfsemi bankanna, frétt á Vísi.is 26. janúar 2012
- „„Ég er á móti því, að negrum sé veittur íslenzkur ríkisborgararéttur eða þeim almennt hleypt inn í landið"“. 21. janúar 2014. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. janúar 2014.
Fyrirrennari: Halldór Ásgrímsson |
|
Eftirmaður: Jóhanna Sigurðardóttir | |||
Fyrirrennari: Davíð Oddsson |
|
Eftirmaður: Valgerður Sverrisdóttir | |||
Fyrirrennari: Friðrik Sophusson |
|
Eftirmaður: Árni M. Mathiesen | |||
Fyrirrennari: Davíð Oddsson |
|
Eftirmaður: Bjarni Benediktsson | |||
Fyrirrennari: Friðrik Sophusson |
|
Eftirmaður: Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir | |||
Fyrirrennari: Jón Magnússon |
|
Eftirmaður: Vilhjálmur Egilsson |
- Kjörnir Alþingismenn 1981-1990
- Kjörnir Alþingismenn 2001-2010
- Fólk fætt árið 1951
- Formenn Sjálfstæðisflokksins
- Forsætisráðherrar Íslands
- Utanríkisráðherrar Íslands
- Fjármálaráðherrar Íslands
- Þingmenn Sjálfstæðisflokksins
- Handhafar stórriddarakross með stjörnu Hinnar íslensku fálkaorðu
- Handhafar stórkross Hinnar íslensku fálkaorðu
- Stúdentar úr Menntaskólanum í Reykjavík
- Íslenskir hagfræðingar
- Sendiherrar Íslands í Bandaríkjunum
- Varaformenn Sjálfstæðisflokksins