Þríríkjastríðin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Karl 1. frá þremur sjónarhornum eftir Antoon van Dyck.

Þríríkjastríðin eða bresku borgarastríðin er heiti á mörgum tengdum átökum sem áttu sér stað í Englandi, Skotlandi og Írlandi frá 1639 til 1651. Fyrst þessara átaka voru Biskupastríðin 1639 og 1640. Í kjölfarið á þeim hófst Enska borgarastyrjöldin (1642-1651), Skoska borgarastyrjöldin (1644-1645) og Írsku bandalagsstríðin (1641-1653). Átökin stóðu í raun allt til endurreisnar konungdæmis í Englandi árið 1660.

Orsök þessara styrjalda var flókið samspil trúarlegra og stjórnarfarslegra átakaþátta. Meðal þess sem deilt var um var hvort konungur ætti að ráða því hvernig trúarlífi væri háttað í ríkinu eða hvort hver einstaklingur ætti það við samvisku sína, og að hvaða marki þingið takmarkaði völd konungs, sérstaklega heimildir hans til skattheimtu og stríðsreksturs. Að auki snerust stríðin um það að hvaða marki Írland og Skotland gætu staðið sjálfstæð gagnvart miðstöð valdsins í London. Sigur enska þingsins varð til þess að þingbundin konungsstjórn var ríkjandi og miðstöð valdsins í London óskoruð.

Hliðstæð átök áttu sér stað víða í Evrópu á sama tíma, eins og Fronde í Frakklandi (1648-1653), Uppreisn Hollands (1568-1648) og Uppreisn Portúgals (1640-1668) gegn yfirráðum Spánar.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.