Hreysiköttur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hreysiköttur

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Rándýr (Carnivora)
Ætt: Marðarætt (Mustelidae)
Undirætt: Mustelinae
Ættkvísl: Mustela
Tegund:
M. erminea

Tvínefni
Mustela erminea
Linnaeus, 1758
Útbreiðsla hreysikatta (grænt—söguleg heimkynni, rautt—nýlega influtt)
Útbreiðsla hreysikatta
(grænt—söguleg heimkynni, rautt—nýlega influtt)

Hreysiköttur (einnig stundum nefndur stóra vesla) (fræðiheiti Mustela erminea) er lítið rándýr af marðarætt. Hann lifir á norðlægum slóðum á barrskóga- og túndrusvæðum. Hann er víðast hvar á norðlægum slóðum í tempraða beltinu til heimskautasvæða í Evrópu, Asíu, Kanada og BNA. Hann var fluttur til Nýja-Sjálands til að minnka fjölda kanína en er talið meindýr þar vegna þess að hann étur egg og unga innfæddra fugla og er hreysiköttur talinn meginástæða fyrir hnignun og útrýmingu margra fuglategunda þar. Hreysiköttur er næturdýr en er stundum á ferli á daginn.

Hreysikettir er 17-33 sm á lengd. Karldýr eru oftast um helmingi lengri en kvendýr. Þeir eru langir og grannvaxnir með stutta fótleggi, stutt og kringlótt eyru, stór svört augu og löng veiðihár. Á veturna er feldur þeirra hvítur, á sumrin er feldur þeirra ljósbrúnn. Hreysikattaskinn var var eftirsótt verslunarvara og táknmynd konunga. Vetrarfeldur hreysikatta var talinn merki um hreinleika eða meydóm og var mjög eftirsóttur meðal annars í skikkjur og bryddingar. Feldirnir voru saumaðir saman til að fá mynstur af svörtum deplum.

Hreysikettir éta skordýr, kanínur, nagdýr eins og mýs og rottur og önnur lítil spendýr, fugla og unga og stundum fiska og slöngur. Þeir geta drepið bráð sem er stærri en þeir sjálfir. Refir og úlfar veiða hreysiketti.

Hreysiköttur markar sér svæði og ver það fyrir öðrum dýrum, sérstaklega öðrum karldýrum. Á svæðinu eru oftast nokkur greni. Hann er oftast einn á ferð nema við mökun og þegar móðir er með stálpaða unga.

Myndir[breyta | breyta frumkóða]