Fara í innihald

Ossían

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Málverkið Svanasöngur sem sýnir Ossían leika á hörpu og flytja söguljóð

Ossían er sögumaður og að sögn höfundur söguljóða sem gefin voru út af skoska skáldinu James Macpherson frá árinu 1760. James Macpherson hafði safnað efni á galísku sem varðveist hafði í munnlegri geymd, efni sem sagt var vera fornt og var útgáfan þýðing hans á því. Ossíankviða var mjög vinsæl þegar hún kom út. Kvæðin voru þýdd á mörg tungumál og í Bretlandi urðu miklar deilur og Macpherson var talinn loddari. Það hefur komið fram að hann safnaði raunverulega galískum kvæðum en hann er talinn hafa farið frjálslega með heimildir og oft eru kvæðin sögð óekta og falsanir. Það er gjarna litið svo á að Macpherson sé sjálfur höfundur Ossíankviðu fremur en kvæðin séu byggð á þýðingum.

Aðalhetja sögunnur er Fingal eða Finn Cumalsson. Sonur Finns er Ossían og það er hann sem er sögumaður. Sonur Ossíans heitir Oskar. Í skáldritum Íra frá 15. öd er Finn látinn vera æðsti herforingi yfir herliði sem sér um landvarnir gegn árásum útlendinga á 2. öld. Herliðið er kallað fiann og þaðan er komið nafnið Feníar sem Írar nota. Þegar Finn og Fenýar hans voru ekki í ófriði voru þeir á dýraveiðum eða lentu í ástarævintýrum. Þessi írsku skáldrit frá 15. öld eru frábrugðin frásögninni í kvæðunum sem Macpherson gaf út. Orðið fianna (eintala fiann) þýðir í írsku uppruna víkingar og táknar norræna víkinga. Í elstu frásögnunum er Finn Cumalsson látinn vera fylkiskonungur frá Leinster og hefur sú saga tekið breytingum og orðið fyrir norrænum árhrifum, sérstaklega á 11. öld. Þannig er Finn sagður vera Caittlil finn eða Ketill hvíti sem féll árið 857 fyrir Ólafi herkonungi í Dýflinni. Féll allt lið Ketils með honum og var helftin Írar en hitt frá Norðurlöndum. [1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ritsjá nokkurra útlendra bóka er snerta Ísland og íslenzkar bókmenntir (1891). – Tímarit Hins íslenzka bókmentafélags, (01.01.1893) p. 205-273