Davíð 2. Skotakonungur
Davíð 2. (5. mars 1324 – 22. febrúar 1371) eða David Bruce var konungur Skotlands frá 7. júní 1329 til dauðadags, annar og síðasti konungur af Bruce-ætt.
Barnakonungur
[breyta | breyta frumkóða]Davíð var sonur Róberts 1. Skotakonungs og seinni konu hans, Elísabetar de Burgh, og eina barn þeirra sem upp komst. Hann var aðeins fimm ára þegar hann varð konungur við lát föður síns en hafði þá þegar drottningu sér við hlið því að 17. júlí 1328 var hann gefinn saman við Jóhönnu, dóttur Játvarðs 2. Englandskonungs. Hann var þá fjögurra ára en brúðurin nýorðin sjö ára.
Konungurinn ungi var foreldralaus því móðir hans hafði dáið 1327. Nánasti ættingi hans, Róbert Stewart, sonur eldri hálfsystur hans, var aðeins 13 ára og kom því ekki til greina sem ríkisstjóri.
Fyrsti forráðamaður Davíðs, jarlinn af Moray, dó sumarið 1332 og þá var jarlinn af Mar valinn í staðinn. Hann féll tíu dögum síðar í bardaga við stuðningsmenn Játvarðs Balliol, sem gerði tilkall til krúnunnar. Sir Andrew Murray var valinn í staðinn en tekinn til fanga af Englendingum í apríl 1333. Þá tók Archibald Douglas við en féll í bardaga við Englendinga í bardaganum á Halidon-hæð í júlí um sumarið.
Eftir tap Skota á Halidon-hæð voru konungurinn og drottningin send til Frakklands, þar sem Filippus 6. tók vel á móti þeim. Þar dvöldu þau næstu árin en árið 1341 höfðu stuðningsmenn Davíðs náð undirtökunum og konungur sneri aftur heim 2. júní það vor og tók þá sjálfur við stjórnartaumum, enda orðinn 17 ára.
Ellefu ár í haldi
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1346 gerði Davíð innrás í England að undirlagi Frakka en beið lægri hlut og var tekinn til fanga um haustið og fluttur til London. Hann var fangi í Englandi í ellefu ár en sætti engu harðræði og var í raun í stofufangelsi. Róbert Stewart stýrði Skotlandi á meðan. Eftir langvinnar samningaviðræður var gert samkomulag í Berwick-upon-Tweed 3. október 1357 þar sem skoski aðallinn féllst á að greiða 100.000 mörk í lausnargjald fyrir konunginn. Eftir að skoska þingið hafði samþyktt samninginn 6. nóvember var honum sleppt úr haldi.
Ríkiserfðir
[breyta | breyta frumkóða]Davíð hélt þegar heim en ríkið var svo fátækt að ekki tókst að afla fjár til að greiða lausnargjaldið. Nokkrar afborganir voru þó greiddar en Davíð reyndi að komast undan greiðslum með því að semja við Játvarð 3. um að hann eða einhver sona hans tæki við völdum í Skotlandi eftir sinn dag, en Davíð átti engin börn. Honum var þó vel ljóst að Skotar myndu aldrei fallast á þetta, síst af öllu Róbert Stewart, sem var löglegur erfingi Davíðs. Árið 1364 hafnaði skoska þingið tillögu um að gera einn sona Játvarðs, Lionel, hertoga af Clarence, að ríkisarfa en Davíð hélt áfram að reyna að komast að samkomulagi við Játvarð í laumi.
Jóhanna drottning dó 1362 og í febrúar 1364 giftist Davíð konungur Margréti Drummond, ungri ekkju sem hafði verið hjákona hans, en skildi við hana í mars 1370 á þeirri forsendu að hún væri óbyrja. Margrét sætti sig ekki viðþetta, heldur fór á fund páfa í Avignon og fékk hann til að ógilda skilnaðarleyfið. Davíð hafði hins vegar í huga að giftast hjákonu sinni, Agnesi Dunbar. En áður en af því yrði lést hann skyndilega. Róbert systursonur hans tók þá við ríkjum og varð Róbert 2.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „David II of Scotland“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. september 2010.
Fyrirrennari: Róbert 1. |
|
Eftirmaður: Róbert 2. |