Septimius Severus

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Septimius Severus
Rómverskur keisari
Valdatími 193 – 211
með Caracalla (198 – 211),
með Geta (209 – 211)

Fæddur:

11. apríl 145
Fæðingarstaður Leptis Magna

Dáinn:

4. febrúar 211
Dánarstaður Eboracum
Forveri Didius Julianus
Eftirmaður Caracalla og Geta
Maki/makar Pacca Marciana,
Julia Domna
Börn Caracalla,
Geta
Faðir Publius Septimius Geta
Móðir Fulvia Pia
Fæðingarnafn Lucius Septimius Severus
Keisaranafn Caesar Lucius Septimius Severus Pertinax Augustus
Ætt Severíska ættin

Lucius Septimius Severus (11. apríl 1464. febrúar 211) var rómverskur herforingi og keisari frá 9. apríl 193 til 211. Hann var fæddur í Leptis Magna (á norðurströnd Líbíu) og var fyrsti keisarinn frá Norður-Afríku og fyrsti keisarinn af severísku ættinni.

Leiðin til valda[breyta | breyta frumkóða]

Septimius Severus var fæddur í Leptis Magna á norðurströnd Afríku. Móðir hans var af ítölskum uppruna en faðir hans, Publius Septimius Geta, var af púnverskum uppruna og tilheyrði valdaætt af svæðinu. Fyrsta kona Severusar var einnig frá Leptis Magna og hét Pacca Marciana, þau giftust í kringum 175 en hún lést skömmu síðar. Annaðhvort árið 186 eða 187 giftist hann svo Juliu Domnu, sem var af valdaætt frá borginni Emesa í Syriu (Sýrlandi). Þau áttu saman tvo syni, Caracalla og Geta. Severus varð öldungaráðsmaður þegar Markús Árelíus var keisari og varð ræðismaður í valdatíð Commodusar. Árið 191 varð hann landstjóri í skattlandinu Pannoniu.

Ár keisaranna fimm[breyta | breyta frumkóða]

Í mars 193 var Pertinax keisari drepinn af lífvarðasveitum sínum, eftir að hafa verið við völd í aðeins nokkra mánuði. Severus var þá fljótlega hylltur sem keisari af herdeildunum í Pannoniu, eða þann 9. apríl 193. Þrír aðrir menn voru þó einnig lýstir keisarar, á svipuðum tíma, víðs vegar í Rómaveldi; Didius Julianus í Róm, Percennius Niger í Syriu og Clodius Albinus í Brittanniu (Bretlandi). Árið 193 hefur af þessum sökum verið kallað ár keisaranna fimm. Severus byrjaði á því að bjóða Clodiusi Albinusi að ættleiða hann og gefa honum titilinn caesar (undirkeisari), sem Albinus samþykkti. Eftir það hélt hann til Rómar með herdeildir sínar. Didius Julianus hafði verið lýstur keisari af öldungaráðinu og lífvarðasveit keisarans í Róm og bjóst til að verja borgina gegn Severusi. Stuðningur við Julianus í borginni minnkaði þó jafnt og þétt og áður en langt um leið samþykkti öldungaráðið að lýsa Severus keisara og að dæma Julianus til dauða. Hermaður var sendur til keisarahallarinnar, þar sem hann fann Didius Julianus, yfirgefinn af stuðningsmönnum sínum, og drap hann. Þegar Severus kom til borgarinnar tók hann völdin því átakalaust.

Valdatími[breyta | breyta frumkóða]

Átök við Percennius Niger[breyta | breyta frumkóða]

Severus bætti nafninu Pertinax við opinbert keisaranfn sitt og hét þá fullu nafni Caesar Lucius Septimius Severus Pertinax Augustus. Einnig hefndi hann fyrir dauða Pertinax með því að láta drepa þá menn úr lífvarðasveit keisarans sem höfðu átt þátt í morðinu á honum. Eftir þetta hélt hann austur á bóginn til þess að mæta Percennius Niger. Hluti af herafla Severusar hóf árið 193 langt og blóðugt umsátur um borgina Býsantíum (núverandi Istanbul), sem var hliðholl Niger, og entist umsátrið í þrjú ár. Í mars árið 194 mættust Severus og Niger í bardaga við Issus í Anatólíu, þar sem Severus hafði um tvöfalt stærri her og bar sigurorð. Niger flúði bardagann en náðist nokkrum dögum síðar og var drepinn.

Eftir að hafa sigrað Niger hélt Severus austur til Efrat fljóts og réðst inn í lítið konungsríki sem hét Osrohene. Ástæðan var sú að ráðist hafði verið á borgina Nisibis við Efrat, sem Rómverjar réðu yfir. Severus innlimaði konungsríkið og gerði að skattlandinu Osrohena. Severus sneri aftur til Rómar árið 196 eftir að her hans hafði loks náð völdum í Býsantíum.

Átök við Clodius Albinus[breyta | breyta frumkóða]

Skattlönd Rómaveldis árið 210

Severus hafði gert friðarsamning við Clodius Albinus, árið 193, á þeim forsendum að hann vantaði erfingja því synir hans væru of ungir. Árið 196 gerði Severus hins vegar elsta son sinn, Caracalla, að undirkeisara, og hafði þar með gert bandalagið við Albinus óþarft. Árið 197 hélt Severus með her gegn Albinusi og þeir mættust í bardaga við Lugdunum (núverandi Lyon). Bardaginn var harður og tvísýnn en á endanum sigraði Severus og tryggði sér þar með endanlega keisaratignina. Í kjölfarið sá Severus til þess að stuðningsmenn Nigers og Albinusar fengju að kenna á því og lét meðal annars taka 29 öldungaráðsmenn af lífi.

Stríð gegn Pörþum[breyta | breyta frumkóða]

Sama ár hélt Severus í herferð gegn Pörþum þar sem þeir höfðu nú ráðist á borgina Nisibis. Severus náði borginni aftur á sitt vald og hélt þá inn í Parþíu og hertók höfuðborgina Ctesiphon í stuttan tíma. Borgin var rænd og talið er að um 100.000 íbúar hennar hafi verið hnepptir í þrældóm af rómverska hernum. Því næst hóf hann umsátur um borgina Hatra en hún stóðst umsátrið og Severus sneri því til baka inn á rómverskt landssvæði. Eftir þessa herferð var búið til nýtt skattland, sem fékk nafnið Mesopotamia og náði yfir lítið svæði austan Efrat fljótsins. Severus fór nú fyrst til Antiokkíu og ferðaðist svo um Palestínu og Egyptaland. Hann fór svo aftur til Rómar árið 202

Síðustu árin[breyta | breyta frumkóða]

Árið 198 hafði Caracalla, sonur Severusar, verið gerður að með-keisara (augustus) og Severus hafði einnig fengið hann til þess að giftast dóttur lífvarðaforinga síns og helsta aðstoðarmanns, Publiu Fulviu Plautillu, dóttir, Gaiusar Fulviusar Plautianusar. Plautianus var mun valdameiri en aðstoðarmenn rómarkeisara voru almennt. Hann virðist t.d. hafa stjórnað að mestu hverjir fengu að hafa samskipti við keisarann. Einnig hafði hann orðið sér úti um mikil auðæfi, en hann var almennt ekki vel liðinn. Caracalla var aldrei ánægður með hjónabandið né tengdaföðurinn. Árið 205 ásakaði Caracalla Plautianus um að hafa verið að skipuleggja samsæri gegn Severusi. Hvort sem ásakanirnar voru sannar eða ekki trúði Severus þeim og Plautianus var tekinn af lífi.

Árið 208 var Severus orðinn rúmlega sextugur og veikburða af langvinnum veikindum. Engu að síður hélt hann í herferð til Caledoniu (Skotlands) með það að markmiði að leggja svæðið undir sitt vald. Báðir synir hans fylgdu honum í herferðinni. Árið 209 gerði Severus yngri son sinn, Geta, að með-keisara (augustus). Caracalla og Geta kom alls ekki saman en samt sem áður hafði Severus nú gert þá báða að erfingjum keisaratitilsins. Herferðin stóð yfir öll árin 209 og 210 en skilaði ekki tilsettum árangri. Septimius Severus lést svo í Eboracum (núverandi York) árið 211. Synir hans, Caracalla og Geta, tóku þá sameiginlega við stjórn ríkisins. Þeir blésu herferðina fljótlega af og héldu til Rómar.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Scarre, Chris, Chronicle of the Roman Emperors, the Reign–by–Reign Record of the Rulers of Imperial Rome (London: Thames & Hudson, 1995).



Fyrirrennari:
Didius Julianus
Rómarkeisari
(193 – 211)
Eftirmaður:
Caracalla og Geta