Fara í innihald

Dundee United

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dundee United Football Club
Fullt nafn Dundee United Football Club
Gælunafn/nöfn The Terrors (Hyllingurinn)
Stofnað 1909
Leikvöllur Tannadice Park
Dundee
Stærð 14.233
Stjórnarformaður Fáni Skotlands Mark Ogren
Knattspyrnustjóri Fáni Skotlands Micky Mellon
Deild Skoska úrvalsdeildin
2023/24 1. sæti (Championship)
Heimabúningur
Útibúningur

Dundee United Football Club er skoskt knattspyrnufélag með aðsetur í Dundee.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Dundee United var stofnað sem Dundee Hibernian árið 1909. Stofnendur komu flestir úr írska samfélaginu í borginni og var nafnið dregið af Hibernian F.C. í Edinborg sem einnig átti írskar rætur. Áður höfðu Írar í Dundee fylgt að máli Dundee Harp sem lagt hafði upp laupana. Ári síðar hóf félagið að taka þátt í skosku deildarkeppninni og tók upp núverandi nafn sitt á árinu 1923. Tilgangurinn með nafnbreytingunni var að breikka skírskotun félagsins til annarra en fólks af írskum uppruna.

Fyrstu hálfa öldina var Dundee United aðeins í fjögur ár í efstu deild, en endaði oftast nær um miðja næstefstu deild. Það breyttist undir stjórn Jerry Kerr sem stýrði félaginu frá 1959 til 1971 og markaði það upphafið á gullaldarskeiði þess. Strax á fyrsta ári kom hann liðinu upp um deild þar sem það átti eftir að vera sleitulítið næstu 35 árin. Á þessum árum var fátítt að leikmenn utan Bretlandseyja væru á mála hjá skoskum liðum en Kerr kom sér upp tengslum á Norðurlöndum og fékk þaðan marga góða leikmenn, sem sköpuðu Dundee United sérstöðu.

Árið 1966 vann Dundee United það fáheyrða afrek að slá Barcelona úr leik í Borgakeppni Evrópu eftir 1:2 sigur á útivelli. Var það fyrsti sigur skosks félagsliðs á Spáni.

Jim McLean tók við af Kerr árið 1971 og stýrði liðinu allt til ársins 1993, en áður hafði hann þjálfað erkifjendurnar í Dundee F.C. sem hafði fram að því verið talið stærra félag. McLean kom Dundee United í sinn fyrsta bikarúrslitaleik árið 1974 og í þriðja sæti deildarinnar árin 1978 og 1979, sem þá var metaárangur.

Leiktíðina 1982-83 vann Dundee United sinn fyrsta Skotlandsmeistaratitil. Deildin var með ellra jafnasta móti, þar sem Dundee United lauk keppni með metfjölda stiga, 56 talsins, einu meira en bæði Celtic og Aberdeen. Ekki dró úr sigurgleðinni að titillinn vannst með sigri á Dundee F.C. í lokaumferðinni.

Þátttaka Dundee United í Evrópukeppni meistaraliða árið eftir varð söguleg. Liðið fór alla leið í undanúrslitin og mætti þar A.S. Roma. Fyrri leiknum lauk með 2:0 sigri Skotanna en Ítalir unnu seinni leikinn 3:0. Síðar var Rómarliðið raunar sektað af knattspyrnuyfirvöldum fyrir að bjóða dómara leiksins mútur.

Mesta afrekið í Evrópusögu Dundee United var þó leiktíðina 1986-87 þegar félagið varð það fyrsta frá Skotlandi til að komast í úrslit Evrópukeppni félagsliða, eftir að hafa m.a. slegið Barcelona úr keppni, með sigri í báðum leikjum. Að lokum mátti liðið þó lúta í gras fyrir sænska liðinu IFK Göteborg.

Um miðjan níunda áratuginn virtust Dundee United og Aberdeen ætla að hnekkja einokunarstöðu Celtic og Rangers í skoska boltanum. Síðarnefndu liðin gengu undir nafninu Old Firm og tóku gárungar því að tala um New Firm þeim til aðgreiningar. Með tímanum reyndist aðstöðumunurinn þó slíkur að stórliðin frá Glasgow endurheimtu fyrri stöðu í krafti fjárhagslegra yfirburða.

Síðustu árin gegndi Jim McLean starfi stjórnarformanns samhliða stjórastarfinu. Árið 1993 steig hann til hliðar sem knattspyrnustjóri eftir meira en tvo áratugi í brúnni. Við tók Júgóslavinn Ivan Golac, sem síðar átti eftir að taka við liði Skagamanna. Golac byrjaði með látum og vann Dundee United sinn fyrsta bikarmeistaratitil undir hans stjórn. Sá sigur var þó ekki undanfari frekari afreka.

Dundee United féll úr efstu deild árið 1995 og þótt liðið kæmist skjótt aftur upp hefur það aldrei aftur komist nærri því að ógna toppliðunum. Annar bikarmeistaratitill vannst þó árið 2010 eftir 3:0 sigur á Ross County.

Viðureignir við íslensk lið[breyta | breyta frumkóða]

Dundee United hefur einu sinni komið í keppnisferð til Íslands og tvívegis mætt íslenskum félagsliðum í Evrópukeppni.

Árið 1966 kom Dundee United til landsins í boði Fram sem þá var í 2. deild. Liðið keppti þrívegis á Laugardalsvelli og vann stórsigra í öllum leikjum sínum, fyrst 7:2 gegn Frömurum, þá 4:0 gegn KR og loks 6:0 gegn íslensku úrvalsliði. Ferðin var öðrum þræði hugsuð sem undirbúningur fyrir þátttöku Dundee United í Borgakeppni Evrópu þar sem liðið vann frægan sigur á Barcelona.

Keflvíkingar voru mótherjar Dundee United í Evrópukeppni félagsliða veturinn 1975-76. Suðurnesjamenn reyndust Skotunum lítil fyrirstaða sem unnu 4:0 og 2:0.

FH lék sína fyrstu Evrópuleiki á móti Dundee United haustið 1990. Jafntefli varð á Kaplakrika, 2:2, í miklum rokleik en skoska liðið varð hlutskarpara ytra, 3:1.

Titlar[breyta | breyta frumkóða]

  • Skoska úrvalsdeildin (1): 1982–83
  • Skoski bikarinn (2): 1993-94, 2009–10
  • Skoski deildarbikarinn (2): 1979–80, 1980–81

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]