Ian Rankin
Ian Rankin (fæddur 28. apríl, 1960, í Fife, Skotlandi) er einn vinsælasti og virtasti glæpasagnahöfundur heimsins, og helst þekktur fyrir glæpasögur sínar um lögregluforingjann John Rebus. Hann býr í Edinborg ásamt konu sinni og tveimur börnum.
Rithöfundarferill
[breyta | breyta frumkóða]Rankin hóf rithöfundaferil skömmu eftir útskrift úr Edinborgarháskóla. Á árunum 1986 til 1990 sendi hann frá sér fjórar skáldsögur, sem hlutu mismikla athygli. Í þeim var lögð áhersla á spennandi og æsilega atburðarás, frekar en að um hefðbundnar morðgátur eða leynilögreglusögur væri að ræða.
Ein þessara bóka, Knots and Crosses frá 1987, gerðist í Edinborg og fjallaði um lögreglumann að nafni John Rebus, sem starfað hafði í sérsveitum breska hersins á Norður-Írlandi og orðið fyrir sálfræðilegu áfalli þar. Bókin fól í sér margvíslegar vísanir í söguna um doktor Jekyll og herra Hyde eftir Robert Louis Stevenson, einn kunnasta rithöfund Edinborgar.
Rankin varð sjálfur undrandi á gagnrýnendur og lesendur litu á bókina sem glæpasögu, þar sem hann taldi sjálfan sig ekki glæpasagnahöfund né áhugamann um þá tegund bóka.
Árið 1991 sendi Rankin frá sér aðra bók um Rebus, Hide and Seek. Í henni gerði höfundurinn aðra tilraun til að endurskapa söguna um Jekyll og Hyde í Edinborg nútímans. Með þessari sögu komst Rankin að þeirri niðurstöðu að Rebus væri sögupersóna sem vert væri að nýta í fleiri bókum.
Þriðja Rebus-bókin kom út árið 1992 og upp frá því ein eða tvær bækur á ári til 2007, þegar sautjánda og síðasta Rebus-bókin, Exit Music, kom í verslanir. Í henni fer lögregluforinginn Rebus á eftirlaun, enda hafði persónan elst í rauntíma milli bóka. Í síðustu bókunum fór samstarfskona Rebusar, Siobahn Clarke, að fá sífellt stærra hlutverk. Hefur það ýtt undir vangaveltur um hvort Rankin hyggist halda áfram bókaflokknum með hana sem aðalpersónu.
Frá 2008 hefur Ian Rankin sent frá sér nokkrar glæpasögur sem einnig gerast í Edinborg.