Gelar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gelískur hákross í Monasterboice á Írlandi.

Gelar (írska: Na Gaeil, skosk gelíska: Na Gàidheil, manska: Ny Gaeil) eru þjóð frá Norðvestur-Evrópu. Þeir eru kenndir við gelísk mál, þ.e. keltnesku málin írsku, mönsku og skoska gelísku.

Gelísk menning á uppruna sinn á Írlandi og náði til svæðisins Dál Riata í Vestur-Skotlandi. Að fornu áttu Gelar samskipti við Rómverja og fóru um með ránum á Bretlandi. Á miðöldum breiddist gelísk menning út til annarra hluta Skotlands og Manar. Gelar settust jafnframt að í Wales og Cornwall. Á víkingaöld fóru Víkingar um Írland með ránum í minni mæli og nokkrir þeirra settust þar að. Á 9. öld sameinuðust skoskir Gelar í Dál Raita Piktum í konungsríkinu Ölbu. Á þeim tíma voru nokkur konungdæmi á Írlandi og yfir hverju þeirra ríkti hákonungur.

Á 12. öld lögðu Normannar hluta Írlands undir sig, sem var byrjun á aldalöngum átökum. Hlutar Skotlands urðu einnig fyrir áhrifum Normanna. Gelísk menning hélt þó sterkri stöðu sinni á Írlandi, í skosku hálöndunum og í Galloway. Snemma á 17. öld lentu seinustu gelísku konungdæmin á Írlandi undir stjórn Englendinga. Jakob 1. lagði sig fram um að undiroka Gela og útrýma menningu þeirra. Hann sendi enskumælandi Breta til Írlands þar sem þeir settust að. Á öldunum þar á eftir urðu ensk áhrif smám saman meira áberandi og enska varð móðurmál flestra. Gelíska er þó enn aðaltungumál á svokölluðum gaeltachtaí (írskumælandi svæðum) á Írlandi og í Ytri-Suðureyjum.

Kjarni gelíska samfélagsins var ættflokkurinn (e. clan). Hver ættflokkur réð yfir tilteknu svæði og átti sinn eigin höfðingja. Gelar voru í upphafi heiðnir og tilbáðu guðina Tuatha Dé Danann. Gelar héldu fjórar árlegar hátíðir: Samhain, Imbolc, Beltane og Lughnasa, og gera það enn þann dag í dag. Gelar hafa ríka munnmælahefð. Elstu áletranir á gelísku með gelísku letri eru frá 1. öld. Við kristnitöku tóku þeir upp latneska stafrófið. Gelískar bókmenntir eru þær elstu í Vestur-Evrópu. Gelar áttu sér eigin þjóðbúninga sem urðu að skotapilsinu í Skotlandi. Einnig hafa þeir sérstaka tónlistar-, dans- og íþróttahefð.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.