Iðnbyltingin
Iðnbyltingin var tímabil mikillar iðnvæðingar, sem hófst síðla á 18. öld í Bretlandi, og hafði í för með sér gríðarlega fólksfjölgun og nýjungar í landbúnaði, sem lögðu grunninn að aukinni framleiðni, bæði með auknu vinnuafli og stærri markaði fyrir afurðirnar. Þessu fylgdi einnig lækkandi vöruverð. Bylting varð í framleiðsluháttum í vefnaðariðnaði, einkum með tilkomu gufuvélarinnar og þéttbýlisþróunin, straumur fólks úr sveitum til borganna, þýddi að það myndaðist gnægð vinnuafls, sem lagði grunninn að iðnborgum nítjándu aldar. Ný millistétt myndaðist, hún átti nýju iðnaðargreinar í atvinnulífinu , eins og verksmiðjur, kolanámur og járnbrautir.[1]
Með stækkandi mörkuðum, bæði vegna fólksfjölgunar heimafyrir og stækkandi markaðssvæða í Afríku og Ameríku, var til staðar næg eftirspurn fyrir vefnaðinn. Gufuvélin var einnig nýtt í nýrri kynslóð samgangna, í eimreiðum og gufuskipum. Með tilkomu stáls sem byggingarefnis ásamt röð nýrra uppgötvana í samskiptatækni á seinni hluta 19. aldar var tónninn settur fyrir áframhaldandi tækniþróun 20. aldar.
Orsakir
[breyta | breyta frumkóða]Iðnbyltingin hefur verið skilgreind sem hraðskreiður kafli fólksfjölgunar og framfara í landbúnaði og tækniþróun umhverfis aldamótin 1800 í Bretlandi, síðar á meginlandi Evrópu.[2] Hún fól í sér endurbætur í landbúnaði,[3] svo sem afgirðingu almenninga og sameiningu sundurleitra landskika, sem jók bæði ræktarland og tækifæri landeigenda til umbóta þess.[4] Við þessa skiptingu fjölgaði stórlandeigendum,[5] og voru innleiddar nýjar korntegundir, kynbætur húsdýra og aðrar betrumbætur.[6]
Jafnvel áður en þessar umbætur hófust hafði fólksfjölgunar orðið vart víða í Evrópu, en það var í Bretlandi sem fyrst eftir hana kom til umbóta. Þær bárust svo til Belgíu, Frakklands og loks Þýskalands.[7] Afgirðingu lands í Bretlandi var flýtt með dýrlegu byltingunni 1688, þegar þingið fékk aukin völd, en landeigendur, sem sáu sinn hag vænstan í afgirðingu, réðu þar ríkjum.[8][9] Á undangengnum öldum höfðu einnig átt sér stað framfarir í vísindum, þótt slíkt dugi skammt sem skýring fyrir iðnbyltingu eitt og sér, enda voru Bretar á þessum tíma aftar á merinni en Frakkar hvað vísindarannsóknir varðaði.[10]
Bretar voru þó með tryggar auðlindir fyrir vefnaðariðnað sinn, þann iðnað sem helst óx í upphafi iðnbyltingar. Höfðu þeir langa hefð sauðfjárræktar og ullarframleiðslu, en einnig aðgang að indverskri baðmull, sem og baðmull frá nýlendunum vestanhafs.[11] Einnig var mikil gnægð kola í Bretlandi og framboð á þeim orkugjafa gaf möguleika á framleiðslu. Var þetta helsta ástæðan fyrir því að byltingin var að mestu bundin við Bretland til að byrja með.[12]
Landbúnaður og vefnaður voru helsta framfærsla fólks fyrir iðnbyltinguna. Í kjölfar byltingarinnar færðist bómullarframleiðslan úr því að vera smábýlisiðnaður, þar sem fjölskyldur í dreifbýli unnu á heimilum sínum, yfir í stóra vélræna iðnaðarverksmiðju. Iðnaðurinn varð fljótt ríkjandi iðnaðargreinin í Bretlandi með mikilli verðmætasköpun. Vefnaðarvara Breta var flutt út í stórum stíl og seld um allan heim á þessum tíma. Mikil eftirspurn eftir vörunum og frjáls verslun var hagstæð Bretum. [12]
Meðal mikilvægustu tækninýjunga iðnbyltingarinnar voru gufuvélarnar, en þær voru upphaflega smíðaðar til að dæla vatni úr námum. Er þeirra frægust gufuvél James Watt, en hún var endurbót á vél Thomas Newcomen. Fólst endurbótin í að láta kælingu gufunnar, sem olli þeim undirþrýstingi sem knúði vélina, eiga sér stað í sér hólfi, sem ekki þyrfti að hita aftur áður en það var aftur fyllt gufu. Voru þessar vélar iðulega settar í mynni kolanáma, og gengu þær þar fyrir afgangskolum. Að auki smíðaði Watt tveggja strokka gufuvél, sem gat valdið snúningshreyfingu. Greiddi það leið nýtingar hennar á fleiri sviðum, til dæmis í verksmiðjum. Þó svo að gufuvélin hafi verið mikilvæg í iðnbyltingunni þá var hún ekki megindrifkraftur iðnbyltingarinnar framan af. Vatnsorkan var ríkjandi langt fram eftir og það er ekki fyrr en um 1850 sem gufuvélin tekur fram úr vatnsaflinu sem megin orkugjafinn.[13]
Iðnaður
[breyta | breyta frumkóða]Fyrir verksmiðjuvæðingu vefnaðariðnaðarins var kostnaðarmannakerfið ríkjandi. Sá þar kostnaðarmaðurinn um kaup hráefnis, til dæmis ullar, og stundum aðbúnaðar. Flutti hann það milli vinnufólks í sveitabæjum eða verkstæðum, þar sem hver sá um ákveðinn hluta framleiðsluferlisins. Kostnaðarmaðurinn greiddi svo laun vikulega þegar hann sótti afraksturinn. Með vaxandi eftirspurn, meðal annars vegna stækkandi markaða í Ameríku og Afríku, reyndu kostnaðarmenn að finna fleiri verkamenn til framleiðslu, en það dugði ekki til lengdar án framfara í tækjabúnaði.[13][14]
Fyrsta í röð nýjunga í vefnaðariðnaði var fljúgandi skytta John Kay, sem ruddi sér til rúms eftir miðja átjándu öld, en hún tvöfaldaði framleiðni vefstólanna. Var þá helsti flöskuhálsinn spunavélarnar, en við því var séð skömmu eftir 1760, með tilkomu spuna-jenný, sem spann tífalt hraðar en rokkur.[15] Richard Arkwright fékk svo einkaleyfi á vatnsrammanum 1769, spunavél sem gekk fyrir vatnsafli, og risu nú verksmiðjur og verkamannabústaðir við ár og fossa.[16]
Það sama ár kom James Watt fram með endurbætur á gufuvélinni,[17] og ekki leið á löngu fyrr en Samuel Crompton tengdi tveggja strokka gufuvél Watt við spunavél í „múldýrinu“, en með því fluttist vefnaðariðnaðurinn aftur í þéttbýli.[18][19]
Fólksflutningar
[breyta | breyta frumkóða]Stöðugir fólksflutningar til þéttbýla höfðu löngum átt sér stað fyrir iðnbyltinguna, en þar voru fæðingartíðnir og lífslíkur svo lágar að utan innflytjenda var þar fólksfækkun. Orsakaðist það meðal annars af tíðum faröldrum smitsjúkdóma.[20] Síðla á 17. öld hafði þessum faröldrum fækkað, og hefur það líklega verið upphaf fólksfjölgunarinnar sem einkenndi iðnbyltinguna.[21] Þessa fækkun sjúkdóma má þó ekki rekja til aukins hreinlætis eða læknisfræðilegrar þekkingar, sem kom til síðar.[22] Samvirk afleiðing þessa þátta og aukins iðnaðar í þéttbýli var tilurð og stækkun iðnborga.[23]
Verkamenn þessara iðnborga bjuggu við fátæklegar aðstæður og lélegt starfsumhverfi.[24] Engu að síður var samfélag Bretlands frjálslegra en annarra landa, og leyfði meiri félagslegan hreyfanleika.[25] Áður fyrr hafði fólk, bæði í Bretlandi og annars staðar, unnið við nauðþurftabúskap, og eins og gengur og gerist við slíkar aðstæður var lífsviðurværi þeirra upp á veðurfarið komið.[26] Þegar í iðnborgir án félagsþjónustu var komið voru verkamenn háðari hagssveiflum en veðri.[27] Þó skar á milli að í iðnborgum var ekki sú félagslega samhjálp sem heimaiðjan bauð upp á.[28]
Félagslegar afleiðingar
[breyta | breyta frumkóða]Með iðnvæðingunni fylgdu miklar samfélagslegar breytingar í öllum löndum. Með tilkomu nýju verksmiðjanna varð til ný stétt verkamanna og aðskilnaður vinnu og heimilis varð skýr. Fólk stundaði ekki lengur vinnu sína inn á heimilum sínum heldur mætti það til vinnu í verksmiðjunum og fékk greitt fyrir. Aðbúnaður þessara verkamanna var framan af slæmur. Laun voru lág og vinnuaðstaðan og loftgæðin léleg. Krafa verksmiðjueigenda um hámarksafköst urðu til þess að kröfur um viðveru fólks jukust og vinnudagar lengdust. Vinnudagurinn var allt að 16 klukkustunda langur og almennir frídagar voru ekki virtir. Frítími verkafólks var lítill sem enginn og eymd fólks fór vaxandi.
Hin nýja stétt verkafólks, verksmiðju starfsfólk, er grundvallaratriði í iðnbyltingunni. Stéttin myndaðist bersýnilega ekki vegna þess að fólk heillaðist af störfum innan verksmiðjanna og aðbúnaðinum sem þar var. Stéttin myndaðist fyrst og fremst vegna þess að fólk neyddist til þess að sækja sér vinnu í verksmiðjurnar því margir höfðu misst lífsviðurværi með iðnvæðingunni og þurftu að leita á önnur mið til þess að eiga í sig og á. [29]
Menningarleg áhrif iðnbyltingarinnar voru mikil og margþætt, breytt lífsskilyrði höfðu margvísleg áhrif á menningarlega þætti og má þar sérstaklega nefna þéttbýlisvæðinguna og áhrif verkaðslýðshreyfingarinnar. Að vinna í hinum nýju iðnaðarborgum hafði djúpstæð og varanleg áhrif á líf fjölda fólks sem fluttust úr sveitum og þorpum í borgirnar. Líffskilyrði margra vinnumanna sem voru reyndir eða vanir fóru versnandi fyrstu 60 árin af iðnbyltingunni. Á fyrstu 60 árum iðnbyltingarinnar fékk verkafólk lítið sem ekkert frí og hafði lítinn til tíma til að stunda afþreyingu eða áhugamál. Segja má að í nýju verkamannahverfunum hafi ríkt frábrugðin stemming frá sveitaþorpunum þar sem sveitasamfélögin einkenndust af meiri samfélagskennd en hin nýju verkamannahverfi. Einnig reyndu stjórnvöld að koma í veg fyrir að verkafólkið héldi hátíðir í hverfunum eins og hafði tíðkast í sveitaþorpunum. Eftir árið 1850 fór almenn afþreying og frítími að færast í aukana með vexti milli stéttarinnar. Má þar nefna að mikill vöxtur var í fótbolta, krikket og tónlist svo dæmi séu tekin. Með tímanum og sérstaklega undir 19. öldinni varð til hin nýja millistétt í iðnarborgunum. Áður fyrr var í raun og veru bara hægt að tala um tvær stéttir. Annars vegar aðalsmenn sem höfðu fæðst inn í auðæfi og nutu mikilla forréttinda í samfélaginu og svo hins vegar verkalýðurinn sem lifði af við bág kjör og lág laun. Með hinum nýju iðnaðarborgum jukust hin svokölluðu “skrifstöfustörf” eins og bankastarfsmenn, lögfræðingar og kennarar. Þessi nýja vaxandi millistétt var stolt af því að taka ábyrgð á sjálfum sér og fjölskyldum sínum, þeir töldu að starfsárangur sinn væri einkum árangur erfiðis vinnu og þrautseigju.
Iðnbyltingin breytti samfélögum úr landbúnaðarhagkerfi yfir í framleiðsluhagkerfi, þar sem vörur voru framleiddar með vélum en ekki í höndunum.
Þetta leiddi til aukinnar framleiðslu og hagkvæmni, lægra verðs, fleiri vörur, betri laun og fólksflutninga úr dreifbýli til þéttbýlis. Fólk fór í fyrsta sinn að vinna fyrir fyrirtæki í þéttbýlum sem borguðu betri laun heldur en búskapur. [30]
Samgöngur
[breyta | breyta frumkóða]Á 19. öld varð bylting í samgöngum með tilkomu járnbrauta.[31] Frá 1760-1830 hafði orðið geysileg fjölgun í vatnaleiðum í Bretlandi, sem spöruðu mikinn flutningskostnað,[32] en beint eftir þeim tók við járnbrautaæði. Fyrsta járnbrautin sem eimreið gekk eftir var verk George Stephenson, en hún lá milli Stockton og Darlington. Frægð Stephenson var hins vegar innsigluð við opnun leiðar hans milli Manchester og Liverpool 1830,[33] en á henni gekk eimreiðin hans Eldingin (e. The Rocket), sú hraðskreiðasta síns tíma.[34] Hófst þá mikil járnbrautavæðing í Evrópu, þar sem 1840 voru 1.800 mílur járnbrauta, en þrjátíu árum síðar 65.000.[35]
Tilraunir Robert Fulton með gufuskip á Hudsonfljóti 1807 mörkuðu upphaf vélvæðingar skipaiðnaðarins,[36] þótt gufuskip hafi átt við harðari samkeppni að etja en eimreiðarnar, seglskipin.[37] Það háði gufuskipum í fyrstu að vera knúin áfram með veikbyggðum spaðahjólum, vandi sem var leystur með uppfinningu John Ericson, skipsskrúfunni, árið 1837.[38] Með henni og járnsskipsskrokkum tóku gufuskip um miðja nítjándu öld fram úr seglskipum hvað hagkvæmni varðaði.[39]
Tækniframfarir
[breyta | breyta frumkóða]Framfarir í tæknimálum við upphaf iðnbyltingarinnar voru hvatar að frekari framförum. Úr kola- og járngrýtisnámum þurfti að dæla vatni, sem gufuvélar Newcomen og Watt gerðu.[40] Þær gengu sjálfar fyrir kolum og gufuvélar þess síðarnefnda voru smíðaðar úr járni, og þegar tvígengisvél hans var tengd við vefnaðarbúnað var fljótt tekið að smíða hann líka úr járni frekar en timbri, styrkleikans vegna.[41]
Næsta skref í byggingarefnum var stál. Hugvitsmaðurinn Henry Bessemer fékk röð einkaleyfa 1855-6 fyrir aðferð sína til framleiðslu stáls úr fosfórlausu járngrýti, og með betrumbótum Friedrich Siemens á framleiðsluferlinu og aðferð Sidney Gilchrist Thomas til að fjarlægja fosfór úr járngrýti var árið 1876 leiðin greið fyrir stórfellda stálframleiðslu, en þangað til höfðu menn þurft að reiða sig á ört dvínandi námur fosfórlauss járns til hennar.[42] Fyrir heimssýninguna í París 1889 hannaði Gustave Eiffel svo turn úr hinu nýja byggingarefni, Eiffelturninn.[43]
Einnig komu til sögunnar nýir orkugjafar, olía annars vegar og raforka framleidd með olíu eða virkjun vatnsfalla hins vegar. Hófst virkjun olíulinda 1859 í Bandaríkjunum, en rafallinn var fundinn upp 1870. Um miðbik nítjándu aldar og þar til skömmu eftir aldamótin 1900 komu einnig fram ritsími Samuel Morse, talsími Alexander Graham Bell, loftskeytatækni Guglielmo Marconi, vélfluga Wrightbræðra og loks færibandaframleiddir bílar Henry Ford.[44] Var þar með kominn vísir að tækniþróun tuttugustu aldar.
Kenningar um orsakir og eðli iðnbyltingarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Mörg ólík sjónarmið eru á lofti um iðnbyltinguna.
Framleiðniaukning
[breyta | breyta frumkóða]Flestir telja hana hafa verið stóra og víðtæka breytingu á bresku hagkerfi þar sem gríðarlega hröð framþróun varð til þess að framleiðni jókst í öllum iðngreinum landsins. Ýmsar kenningar hafa þó sprottið fram þar sem því er haldið fram iðnbyltingin hafi alls ekki verið jafn stór og menn vilja vera láta. Settar hafa verið fram kenningar, meðal annars af hagfræðingunum Charles Harley og Nicholas Crafts, sem segja að framleiðni hafi einungis aukist í stærstu iðngreinum landsins á tímum iðnbyltingarinnar en ekki í öllum iðngreinum. Í fáum orðum þá segja þessar kenningar að framleiðni hafi aðeins aukist í bómullar- og járnframleiðslu í iðnbyltingunni en aðrar iðngreinar hafi staðið í stað.
Samkvæmt þessum kenningum er iðnbyltingin, eins og almennt er talað um hana, ofmat á því sem raunverulega gerðist í Bretlandi á 18. og 19. öld. Sumir fræðimenn ganga enn lengra og segja að orðið bylting eigi ekki við um þær breytingar sem urðu á bresku hagkerfi á þessum tíma, vefnaðar- og járniðnaður séu einfaldlega of lítill hluti af hagkerfinu til þess að tala megi um byltingu.
Þessar kenningar hafa verið rannsakaðar með hliðsjón af raungögnum um inn- og útflutning Bretlands á þessum tíma. Gögnin sýna að þær eiga ekki við rök að styðjast þar sem framleiðni virðist hafa aukist í margvíslegri framleiðslu, þvert á iðngreinar.[45]
Hagkerfið óx á tímum iðnbyltingarinnar og framleiðni aukningin var áberandi meiri á þessu tímabili. Umdeilt er hvort að aukinn hagvöxtur og framleiðni hafi orsakast einungis af byltingunni sjálfri eða hvort fleiri þættir hafi spilað inn í. Margir halda því fram að það hafi ekki einungis verið aukin tækni sem skýrði aukna framleiðni, heldur hafi það einnig verið heilbrigðari og duglegri verkamenn og meiri agi í verksmiðjum í kjölfar verkaskiptingar.[29] Fólk skilaði meira vinnuframlagi sem útskýrir afhverju fjársfesting er ekki meiri lykilþáttur í iðnbyltingunni en raun ber vitni. Fjárfesting verður ekki mikil fyrr en á fjórða áratug 19. aldar þegar að járnbrautarlagning hófst. [46] Það gefur til kynna að hagvöxtur á þessum tíma virðist ekki vera byltingarkenndur. Hagfræðingurinn McCloskey heldur því fram að byltingin hafi ekki verið jafn áhrifamikil og menn vilja vera láta, án tæknivæddu greinanna hefðu þjóðartekjur Bretlands samt sem áður tvöfaldast. [47]
Hafa ber í huga að hagvöxtur á 19. öldinni og í gegnum iðnbyltinguna er ekki mikil á nútíma mælikvarða. Árlegur vöxtur í Bretlandi á mann var aðeins 0.33% Miðað við þær iðnbyltingar sem á eftir komu er það ekki áhrifamikið. Hagvöxturinn er hins vegar mikill samanborinn við hagvöxt á fyrri öldum því þá var hann enginn. [48]
Kenningar Adam Smith um iðnbyltinguna
[breyta | breyta frumkóða]Einn af þeim fyrstu til að fjalla um iðnbyltinguna var Adam Smith. Margir hagfræðingar hafa hins vegar velt fyrir sér hvort Smith hafi gert sér fulla grein fyrir því að iðnbyltingin væri hafin þegar hann gaf út bókina sína, The Wealth of Nations, eða Auðlegð þjóðanna árið 1776. Smith minnist hvergi á vöxt tækniframfara, sem áttu eftir að hafa gríðarlegar efnahagslegar afleiðingar seinna meir.[49]
Kenningar Smith snérust um þróun samfélagsins, það sem fór framhjá honum voru hugmyndir um byltingu. Hann sá ekki fyrir gríðarlegar tæknibreytingar á véla- og vinnumarkaði. Hans sýn var að Bretland yrði alla tíð alveg eins og það var á 18. öldinni. Aðeins nokkrar magnbreytingar myndu vaxa það er að segja fleira fólk, fleiri vörur, meiri auður en gæði myndu vera hin sömu. Hann sá því fyrir sér að samfélagið væri staðnað, það myndi vaxa en aldrei verða fullmótað.
Smith setti fram rótgrónar kenningar á hegðunum sem myndu knúa áfram framleiðni á markaði. Ein af þeim var kenningin um uppsöfnun auðs á markaði. Hann hafði tekið eftir á fyrstu stigum iðnbyltingarinnar að menn sem voru snöggir að vinna og duglegri en aðrir áttu auðveldara með að afla sér auð á hagkvæmari hátt. Með tilkomu véla jókst því framleiðsla til muna. Adam Smith hélt því fram að uppsöfnun auðs til lengri tíma væri ómöguleg. Til lengri tíma myndu fleiri vélar vera notaðar til framleiðslu, sem myndi leiða til meiri eftirspurnar eftir starfsfólki og stöðugt hækkandi launum á markaði. Hann sá því fyrir að allur hagnaður yrði étinn upp vegna áskorunar sem tengdust vinnuafli á markaði og hærri launum. [50]
Vægi tækniframfara
[breyta | breyta frumkóða]Ein af elstu og útbreiddustu kenningunum snýr að tæknilegum framförum og aukinni framleiðslugetu. Þessi kenning, oft nefnd klassíska kenningin, lítur á iðnbyltinguna sem beina afleiðingu af uppfinningum sem stuðluðu að framleiðsluaukningu. Tækniþróun, eins og uppfinning gufuvélarinnar eftir James Watt og framfarir í vefnaðariðnaði, er talin hafa valdið byltingu í framleiðsluaðferðum og leitt til mikils hagvaxtar. Uppfinningar eins og spunavélin og sjálfvirkur vefstóll breyttu handverki í fjöldaframleiðslu og gjörbyltu mörgum atvinnugreinum.
Samkvæmt þessari kenningu er iðnbyltingin fyrst og fremst tæknileg bylting. Hún byrjaði í Bretlandi þar sem nýjar tæknilausnir gerðu framleiðsluiðnaði kleift að framleiða fleiri vörur á styttri tíma og með minni kostnaði. Þetta hafði mikil áhrif á efnahagslegan vöxt, sérstaklega með tilkomu nýrra framleiðslukerfa og breyttrar verkaskiptingar. Mikilvægi járnbrauta og gufuskipa var einnig gríðarlegt þar sem þessi nýju samgöngutæki gerðu það auðveldara að flytja hráefni og vörur á milli landa og heimshluta, sem jók viðskipti.
Klassíska kenningin hefur þó verið gagnrýnd fyrir að leggja of mikla áherslu á tækniþróun sem eina orsök iðnbyltingarinnar. Með tímanum hafa fræðimenn bent á að þó tækniframfarir hafi verið lykilatriði, þá sé hún hluti af stærra samhengi sem þarf að skoða í ljósi félagslegra, efnahagslegra og menningarlegra þátta. [51]
Afleiðingar iðnvæðingarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Þegar iðnbyltingin er skoðuð frá sjónarhorni efnahagslegra kenninga þá kom hún út frá frjálsum markaðsöflum og þróunar kapítalísks hagkerfis. Samkvæmt nýklassískri nálgun er iðnbyltingin talin hafa verið afleiðing af auknu frelsi í viðskiptum og hagkvæmari nýtingu á fjármagni. Markaðskerfið skapaði hvata til nýsköpunar, sem skilaði sér í auknum hagvexti. Verkaskipting og alþjóðlegir markaðir bjuggu til grunninn fyrir framleiðsluaukningu, þar sem mismunandi lönd og svæði sérhæfðu sig í ákveðnum atvinnugreinum. Efnahagslegar umbætur, eins og afnám tolla, auðvelduðu viðskipti og stuðluðu að frekari iðnvæðingu.
Á hinn bóginn eru Marxískar kenningar mun gagnrýnni á efnahagsleg áhrif iðnbyltingarinnar. Karl Marx leit á iðnbyltinguna sem hluta af þróun kapítalisma, þar sem kapítalistar nýttu sér vinnuaflið til að hámarka gróða. Samkvæmt Marx jók iðnbyltingin félagslegan ójöfnuð þar sem framleiðslutækin voru í eigu kapítalista en verkamenn áttu aðeins sína vinnuaflskrafta. Iðnvæðingin leiddi til nýrra samfélagslegrar spennu, þar sem verkamenn urðu háðari atvinnurekendum og bjuggu oft við lélegar aðstæður í nýjum iðnaðarborgum.
Þessar tvær nálganir, neóklassísk og marxísk, gefa ólík svör við spurningunni um hvernig iðnbyltingin mótaði hagkerfi og stéttaskiptingu. Báðar eru þó sammála um að iðnbyltingin hafi breytt efnahagskerfum, bæði innan landa og á alþjóðavettvangi. [52]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Industrialisation and urbanisation - Why Britain became more democratic, 1851–1928 - Higher History Revision“. BBC Bitesize (bresk enska). Sótt 8. október 2021.
- ↑ Anderson, 78
- ↑ The New Encyclopædia Britannica Micropædia, 305
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 142
- ↑ Tønnesson, 76
- ↑ Hearder, 87
- ↑ Hearder, 66-8
- ↑ Hugget, 74
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 141
- ↑ Anderson, 78
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 145
- ↑ 12,0 12,1 Society, National Geographic (9. janúar 2020). „Industrial Revolution and Technology“. National Geographic Society (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2021. Sótt 8. október 2021.
- ↑ 13,0 13,1 Tønnesson, 82-3
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 142-3
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 143
- ↑ Tønnesson, 85
- ↑ Tønnesson, 80; Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 144
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 146
- ↑ Tønnesson, 85
- ↑ Clark, 93-4; Tønnesson, 99
- ↑ Clark, 100
- ↑ Hearder, 67
- ↑ Tønnesson, 99
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 151
- ↑ Anderson, 78-9
- ↑ Hugget, 56
- ↑ Hearder, 116
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 152
- ↑ 29,0 29,1 The Industrial Revolution in World History (bandarísk enska). 27. júní 2017. ISBN 978-0-8133-4730-1.
- ↑ Encyclopaedia Britannica. (n.d.). The first Industrial Revolution. In Industrial Revolution. Sótt october 30. 2024. https://www.britannica.com/event/Industrial-Revolution/The-first-Industrial-Revolution
- ↑ Hearder, 72
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 147; Tønnesson, 91
- ↑ Hearder, 73
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 146; Hearder, 75
- ↑ Hearder, 77
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 147
- ↑ Hearder, 79
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 147
- ↑ Hearder, 79
- ↑ Tønnesson, 80
- ↑ Tønnesson, 89
- ↑ Hearder, 80-1
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 148-9
- ↑ Gunnar Karlsson og Sigurður Ragnarsson, 147-9
- ↑ Temin, Peter (1997). „Two Views of the British Industrial Revolution“. The Journal of Economic History. 57 (1): 63–82. ISSN 0022-0507.
- ↑ Hartwell, R. M. (26. júní 2017). The Industrial Revolution and Economic Growth (enska). Taylor & Francis. ISBN 978-1-351-69695-1.
- ↑ „Deirdre McCloskey: Publications: Industrial Revolution“. Sótt 8. október 2021.
- ↑ Williamson, Jeffrey G. (1984). „Why Was British Growth So Slow During the Industrial Revolution?“. The Journal of Economic History. 44 (3): 687–712. ISSN 0022-0507.
- ↑ Caton, Hiram (1985). „The Preindustrial Economics of Adam Smith“. The Journal of Economic History. 45 (4): 833–853. ISSN 0022-0507.
- ↑ Robert L. Heilbronner (1999). the worldly philosophers. Simon & Schuster. bls. 63-72. ISBN 978-0-684-86214-9.
- ↑ Encyclopedia Britannica. „The Industrial Revolution in Theory and in History“ (PDF). Encyclopedia Britannica, Inc. Sótt október 2024.
- ↑ "Hey Miss A World" (n.d). „Economic Theories of the Industrial Revolution“ (PDF). Weebly. Sótt október 2024.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Anderson, Matthew Smith. Europe in the Eighteenth Century 1713/1783 (London: Longman Group Limited, 1976).
- Clark, Gregory. A Farewell to Alms. A brief economic history of the world, (Princeton: Princeton University Press, 2007).
- Gunnar Karlsson, Sigurður Ragnarsson. Nýir tímar: Saga Íslands og umheimsins frá lokum 18. aldar til árþúsundamóta (Reykjavík: Mál og Menning, 2008).
- Hearder, Harry. Europe in the Nineteenth Century 1830/1880 (London: Longman Group Limited, 1977).
- Hugget, Frank E. The Land Question and European Society (London: Thames and Hudson, 1975).
- The New Encyclopædia Britannica Micropædia. 6. bindi. 1990. „Industrial Revolution“, bls. 304-305. Ritstj. Philip W. Goetz. Encyclopædia Britannica, Chicago.
- Tønnesson, Kåre. Saga Mannkyns. Ritröð AB. 10. bindi. Vilborg Sigurðardóttir íslenskaði. (Reykjavík: Almenna bókafélagið, 1987).
- „Industrial Revolution“, Wikipedia (enska), 9. september 2024, sótt 22. september 2024
- Caton, Hiram (1985). „The Preindustrial Economics of Adam Smith“. The Journal of Economic History. 45 (4): 833–853. ISSN 0022-0507.