Afríka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Heimskort sem sýnir staðsetningu Afríku
Samsett gervitunglamynd af Afríku

Afríka er heimsálfa. Hún afmarkast af Miðjarðarhafinu í norðri, Súesskurðinum (Súeseiðinu) í norðaustri, Indlandshafi í austri, Suður-Íshafinu í suðri og Atlantshafi í vestri.

Afríka er önnur stærsta heimsálfa jarðar á eftir Asíu og er einnig sú næstfjölmennasta. Hún er um það bil 30.244.050 km²flatarmáli (að meðtöldum eyjum) og þekur 20,3% af þurrlendi jarðar. Þar búa tæplega 1,034 milljarðar manna í 56 löndum, sem er sjöundi hluti alls mannfjölda heims.

Nafnsifjar[breyta | breyta frumkóða]

Nafnið Afríka er komið frá Rómverjum sem notuðu heitið Africa terra (land Afri sem er fleirtala af Afer) fyrir norðurströnd álfunnar og skattlandið Afríku með höfuðborgina Karþagó, sem var þar sem nú er Túnis.

Uppruni nafnsins er á huldu. Orðið Afer getur verið til komið af eftirfarandi ástæðum:

Sagnfræðingurinn Leó Afríkanus (1495–1554) taldi nafnið komið af gríska orðinu phrike (φρικε, sem merkir „kuldi og hrollur“) ásamt neitunarforskeytinu a- og merkti þannig land laust við kulda og hroll. En hljóðbreytingin úr ph í f hefur átt sér stað í kringum fyrstu öld, svo þetta getur því ekki verið uppruni nafnsins.

Egyptaland var talið hluti Asíu af fornmönnum. Fyrstur til að telja það með Afríku var landafræðingurinn Ptólemajos (85–165) sem notaði Alexandríu sem núllbaug og gerði Súeseiðið að mörkum Asíu og Afríku. Eftir því sem Evrópumenn uppgötvuðu raunverulegt umfang álfunnar, óx inntak nafnsins með þeirri þekkingu.

Landa- og jarðfræði[breyta | breyta frumkóða]

Mörk Afríku eru Miðjarðarhafið í norðri, Súesskurðurinn í norð-austri, Indlandshaf og Rauðahaf í austri, Suður-Íshafið í suðri og Atlantshafið í vestri. Heimsálfan er um 8000 km löng frá norðri til suðurs (37°21'N til 34°51'15"S) og 7400 km breið frá vestri til austurs (17°33'22"W til 51°27'52"E). Nyrsti punktur álfunnar er Ras ben Sakka í Marokkó, syðsti punkturinn er Agulhashöfði í Suður-Afríku, vestasti punkturinn er Almadihöfði á Grænhöfðaeyjum og sá austasti er Raas Xaafuunhöfði í Sómalíu.

Strandlengja Afríku er um 26000 km löng.

Miðbaugur liggur í gegnum álfuna og mestur hluti hennar er því í hitabeltinu. Það er mikið um eyðimerkur og óbyggðir og þurrkar og úrhellisrigning gera búsetu á ýmsum svæðum erfiða.

Tungumál[breyta | breyta frumkóða]

Kort sem sýnir dreifingu afrísku málaættanna og nokkur aðalmál. Níger-Kongómálaættinni er skipt til að sýna útbreiðslu Bantúmálanna, sem eru undirflokkur Níger-Kongómálaættarinnar.

Í Afríku eru töluð yfir þúsund tungumál. Í álfunni eru fjórar aðalættir tungumála:

  • Níger-Kongómál eru töluð í mestallri Afríku fyrir sunnan Sahara eyðimörkina. Þetta er sennilega stærsta tungumálaætt heims ef talinn er fjöldi tungumála sem tilheyra henni. Hluti þessara tungumála eru Bantúmál sem eru töluð í Mið- og Suður-Afríku.
  • Khoisan-mál telja um 50 tungumál sem eru töluð í suðurhluta Afríku. Um 120 þúsund manns tala Khoisanmál. Mörg málanna eiga á hættu að deyja út.

Einnig eru töluð nokkur Evrópumál í Afríku, svo sem enska, franska og portúgalska, sem eru opinber tungumál margra Afríkuríkja.

Lönd í Afríku[breyta | breyta frumkóða]

Norður-Afríka

Austur-Afríka

Mið-Afríka

Sunnanverð Afríka

Vestur-Afríka

Eyríki

Yfirráðasvæði annarra ríkja

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]