Kumari Kandam

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mynd sem sýnir Lemúríu sem Kumari Kandam.

Kumari Kandam (tamílska: குமரிக்கண்டம்) er goðsögulegt sokkið meginland suður af Indlandsskaga sem kemur fyrir í ritum tamílskra þjóðernissinna á 20. öld sem upprunaland menningar Tamíla. Heitið kemur fyrst fyrir í tamílskri útgáfu Skanda Purana frá 15. öld. Týnd og sokkin lönd koma víða fyrir í bókmenntum á sanskrít og tamílsku en ekkert þeirra var kallað þessu nafni né talið vera upprunaland Tamíla fyrr en tamílskir þjóðernissinnar tóku að tengja heitið við tilgátu breska líffræðingsins Philip Sclater um Lemúríu, sokkið meginland í Indlandshafi, eftir miðja 19. öld.

Í þessum ritum er Kumari Kandam lýst sem aðgreindu meginlandi sunnan við Indland þar sem útópískt samfélag, án bramína, hafi þróast „fyrir þúsundum ára“. Höfundar halda því fram að borgin Kanyakumari, og jafnvel allt héraðið Tamil Nadu, hafi verið hlutar af Kumari Kandam, til að leggja áherslu á að Tamílar hafi verið frumbyggjar suðurhluta Indlandsskaga.