Suður-Ameríka

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heimskort sem sýnir Suður-Ameríku

Suður-Ameríka er heimsálfa sem er að öllu leyti á vesturhveli jarðar og að mestu leyti á suðurhveli jarðar. Suður-Ameríka er syðri hluti Ameríku sem er oft talin ein heimsálfa. Norðurhlutinn er Norður-Ameríka.

Suður-Ameríka á strönd að Kyrrahafí vestri, Atlantshafi í austri og Karíbahafi í norðri. Hún tengist Norður-Ameríku um Panamaeiðið í norðri. Í Suður-Ameríku eru tólf sjálfstæð ríki: Argentína, Bólivía, Brasilía, Ekvador, Gvæjana, Kólumbía, Paragvæ, Perú, Síle, Súrínam, Úrúgvæ og Venesúela; og tvær útlendur: Falklandseyjar og Franska Gvæjana. Við strönd álfunnar eru ABC-eyjarnar sem tilheyra Hollandi, Ascension-eyja (hluti af Sankti Helenu, Ascension og Tristan da Cunha sem tilheyrir Bretlandi) og Bouvet-eyja sem tilheyrir Noregi. Panama og Trínidad og Tóbagó eru stundum talin til Suður-Ameríku landfræðilega.

Suður-Ameríka er fjórða stærsta heimsálfan og sú fimmta fjölmennasta. Hún þekur 17.818.508 ferkílómetra og fjöldi íbúa álfunnar var áætlaður 423 milljónir árið 2019. Brasilía er langfjölmennasta Suður-Ameríkuríkið með yfir helming allra íbúa álfunnar, en þar á eftir koma Kólumbía, Argentína, Venesúela og Perú. Síðustu áratugi hefur Brasilía orðið leiðandi afl í álfunni bæði efnahagslega og í stjórnmálum.[1]

Flestir íbúar Suður-Ameríku búa við austur- eða vesturströndina, en meira dreifbýli er innar og syðst í álfunni. Andesfjöll setja mikinn svip á landfræði vesturhluta Suður-Ameríku. Í austurhlutanum eru bæði hásléttur og stór láglendissvæði sem stórfljótin Amasónfljót, Órinókófljót og Paraná hlykkjast um. Stærstur hluti álfunnar er í hitabeltinu utan syðsti hluti Suðurkeilunnar sem er við miðbreiddargráðurnar.

Íbúasamsetning álfunnar er blanda af menningu frumbyggja og landnema frá Evrópu, Asíu og Afríku. Saga nýlendustefnu í Suður-Ameríku er löng og ein afleiðing hennar er að flestir íbúar tala ýmist spænsku eða portúgölsku. Samanborið við aðrar heimsálfur hefur saga Suður-Ameríku verið tiltölulega friðsæl og fá meiriháttar stríð átt sér þar stað.[2]

Stærsta borg Suður-Ameríku er Sao Paulo í Brasilíu. Stærsta stöðuvatnið er Títícaca-vatn og hæsti tindur er Aconcagua í Andesfjöllum.

Lönd í Suður-Ameríku[breyta | breyta frumkóða]


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Schenoni, Luis L. (1. janúar 1970). „Unveiling the South American Balance“. Estudos Internacionais 2(2): 215–232. Sótt 8. desember 2016.
  2. Holsti 1996, p. 155

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.