Terra Australis

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kort eftir Abraham Ortelius sem sýnir Terra Australis neðst.

Terra Australis (latína: „Suðurland“) var ímyndað meginland á suðurhveli jarðar sem kom fyrir á heimskortum allt frá því í fornöld. Tilvist þessa lands byggðist á þeirri langlífu hugmynd að jafnvægi hlyti að ríkja milli þurrlendis á norðurhveli og suðurhveli. Terra Australis var landið sem vantaði upp á að þetta jafnvægi næðist.

Landkönnun á landafundatímabilinu leiddi til þess að fleiri lönd fundust á suðurhvelinu, sérstaklega Eldland, syðst í Suður-Ameríku, Nýja-Gínea og loks Ástralía (sem var nefnd Nýja-Holland). Til að byrja með töldu ýmsir að þessi lönd væru norðurhluti Terra Australis, en frekari leiðangrar á 18. öld leiddu í ljós að þetta eru allt eyjar. Könnun Kyrrahafsins á 18. öld varð til þess að minnka stöðugt það svæði sem Terra Australis gæti fundist á.

Seint á 18. öld komst einn af leiðöngrum James Cook yfir suðurheimskautsbaug og hann kom auga á ísrönd í fjarska. Hann taldi sjálfur að hún gæti verði hluti af Terra Australis. Þá voru margir orðnir afhuga hugmyndinni um stórt meginland í suðri og árið 1814 stakk breski kortagerðamaðurinn Matthew Flinders upp á að nafni Nýja-Hollands yrði breytt í Ástralíu, eftir Terra Australis, þar sem engar líkur væru á fundi meginlands sem lægi sunnar á jörðinni. Aðeins nokkrum árum síðar komu fyrstu leiðangrarnir auga á Suðurskautsskagann og Suðurskautslandið var uppgötvað. Þá var heitið Ástralía orðið frátekið og nýja meginlandið fékk því heitið Antarktíka.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.