Sómalíland

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jamhuuriyadda Soomaaliland (sómalska)
جمهورية أرض الصومال (arabíska)
Jumhūrīyat Arḍ aṣ-Ṣūmāl
Fáni Sómalílands Skjaldarmerki Sómalílands
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
لا إله إلا الله محمد رسول الله (arabíska)
Lā ilāhā illā-llāhu; muhammadun rasūlu-llāhi
„Það er enginn guð nema Allah; Múhameð er sendiboði Allah“
Þjóðsöngur:
'Samo ku waar'
Staðsetning Sómalílands
Höfuðborg Hargeisa
Opinbert tungumál sómalska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Muse Bihi Abdi
Sjálfstæði frá Sómalíu
 • Yfirlýst 18. maí 1991 
Flatarmál
 • Samtals

176.120 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
113. sæti
5.700.000
28,27/km²
VLF (KMJ) áætl. 2018
 • Samtals 2,5 millj. dala
 • Á mann 950 dalir
Gjaldmiðill sómalílandsskildingur (SLSH)
Tímabelti UTC+3
Landsnúmer +252

Sómalíland (sómalska: Soomaaliland; arabíska: صوماليلاند‎ Ṣūmālīlānd eða أرض الصومال Arḍ aṣ-Ṣūmāl) er fyrrum breskt yfirráðasvæði í norðvesturhluta Sómalíu við horn Afríku. Í maí 1991 samþykktu ættbálkarnir á svæðinu að lýsa yfir sjálfstæðu lýðveldi sem nú inniheldur sex af átján héruðum Sómalíu, eða svæðið milli Djíbútí, Eþíópíu og Adenflóa. Höfuðborgin er Hargeisa.

Stjórn Sómalílands lítur á sig sem arftaka stjórnar Breska Sómalílands sem hlaut sjálfstæði árið 1960 rétt áður en það sameinaðist Ítalska Sómalílandi og myndaði ríkið Sómalíu. Þegar ríkisstjórn Siad Barre hóf baráttu gegn aðskilnaðarsinnum í Hargeisa átti það þátt í að setja Sómölsku borgarastyrjöldina af stað. Eftir hrun miðstjórnarvaldsins árið 1991 lýsti Sómalska þjóðarhreyfingin yfir sjálfstæði Sómalílands. Sómalíland hefur ekki verið viðurkennt af neinni ríkisstjórn eða alþjóðlegri stofnun. Engu að síður hefur þetta ríki haldist stöðugt. Það hefur átt í átökum við Púntland (sem lítur á sig sem fylki í ríkjasambandi Sómalíu fremur en sjálfstætt ríki) um héruðin Sanaag og Sool.

Frá 1991 hefur Sómalíland verið undir stjórn lýðræðislega kjörinna ríkisstjórna sem sækjast eftir viðurkenningu alþjóðasamfélagsins. Nokkur ríki hafa sent fulltrúa til Hargeisa, og Eþíópía rekur viðskiptaskrifstofu þar. Ekkert ríki eða alþjóðastofnun hefur þó formlega viðurkennt sjálfstæði Sómalílands. Landið er félagi í Samtökum þjóða og þjóðarbrota án aðildar (UNPO).

Svæði sem stjórn Sómalílands gerir tilkall til

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Nafn landsins merkir einfaldlega „land Sómala“. Þetta svæði fékk þetta nafn þegar Bretar tóku við stjórn þess af Egyptalandi árið 1884, eftir að hafa gert nokkra samninga við soldána Sómala frá ættbálkunum Isaaq, Issa, Gadabursi og Warsangali. Bretar komu upp verndarríki á svæðinu sem var kallað Breska Sómalíland. Það fékk sjálfstæði sem Sómalíland árið 1960, en fjórum dögum síðar sameinaðist það Ítalska Sómalílandi og varð hluti Sómalíu. Þegar borgarastyrjöldin í Sómalíu braust út 1991, lýsti Sómalíland yfir sjálfstæði.

Á ráðstefnu í Burao árið 1991 var stungið upp á nokkrum nöfnum fyrir hið nýstofnaða ríki, þar á meðal „Púntland“, með vísun í hið forna ríki Púnt. Nú er það nafn notað á fylkið Púntland í Sómalíu. Annað nafn sem stungið var upp á var „Shankaroon“ sem merkir „betri en fimm“ á sómölsku, með vísun í fimm héruð Stór-Sómalíu.[1]

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Hæðakort af Sómalílandi.

Sómalíland er norðvestan við Sómalíu, á milli 08°N og 11°30'N, og 42°30'A og 49°00 A. Það á landamæri að Djibútí í vesstri, Eþíópíu í suðri og Sómalíu í austri. Strönd Sómalílands er 850 km löng, að mestu leyti við Adenflóa.[2] Sómalíland er 176.120km2 að stærð.[3]

Loftslag í Sómalílandi er bæði vott og þurrt. Norðurhluti landsins er hæðóttur og á mörgum stöðum er hæðin milli 900 og 2.100 metrar. Héruðin Awdal, Sahil og Maroodi Jeex eru frjósöm og fjalllend, meðan Togdheer er að mestu gróðurlítil hálfeyðimörk. Awdal-hérað er líka þekkt fyrir eyjar undan ströndinni, kóralrif og fenjaskóga.

Guban er kjarrlend slétta sem liggur samsíða strandsléttunni við Adenflóa. Breidd sléttunnar er frá 12 km í vestri að 2 km í austri og þvert á hana liggja árfarvegir sem eru þurrir utan regntímans. Þegar tekur að rigna breytist lágvaxið kjarrið og grastóttir í iðagrænt landslag.[4]

Cal Madow er fjallgarður í austurhluta landsins. Hann nær frá norðvesturhluta Erigavo að svæði nokkrum kílómetrum vestan við borgina Bosaso í Sómalíu. Þar er hæsti tindur Sómalílands, Shimbiris, 2.416 metrar á hæð.[5] Klettótt Karkaar-fjöll liggja líka innan við strönd Adenflóa.[4] Í miðhéruðunum renna fjöllin í norðri saman við hásléttur og þurra árfarvegi sem nefnast Ogo-fjöll. Vesturhluti Ogo-fjalla rennur svo saman við Haud þar sem eru mikilvæg beitilönd.[4]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Kort sem sýnir héruð Sómalílands

Sómalíland skiptist núna í sex héruð: Awdal, Sahil, Maroodi-Jeeh, Togdheer, Sanaag and Sool. Héruðin skiptast síðan í 18 umdæmi.[6][7][8]

Nr. Hérað Höfuðstaður Umdæmi
1 Awdal Borama Baki, Borama, Zeila, Lughaya
2 Sahil Berbera Sheikh, Berbera
3 Maroodi Jeex Hargeisa Gabiley, Hargeisa
4 Togdheer Burao Odweyne, Buhoodle, Burao
5 Sanaag Erigavo El Afweyn, Erigavo, Lasqoray
6 Sool Las Anod Aynabo, Las Anod, Taleh, Hudun

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Peace in Somaliland: An Indigenous Approach to State-Building“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 28. mars 2022. Sótt 12. janúar 2022.
  2. Mesfin, Berouk (september 2009). „The political development of Somaliland and its conflict with Puntland“ (PDF). Institute for Security Studies. Sótt 15. maí 2021.
  3. Lansford, Tom (24. mars 2015). Political Handbook of the World 2015 (enska). CQ Press. ISBN 9781483371559.
  4. 4,0 4,1 4,2 Hadden, Robert Lee. 2007. "The Geology of Somalia: A Selected Bibliography of Somalian Geology, Geography and Earth Science." Geymt 27 mars 2009 í Wayback Machine[óvirkur tengill] Engineer Research and Development Laboratories, Topographic Engineering Center
  5. „Somalia“. World Factbook. Central Intelligence Agency. 14. maí 2009. Sótt 31. maí 2009.
  6. actionaid.org Geymt 10 janúar 2017 í Wayback Machine ActionAid International Somaliland (AAIS) supports poor and marginalised communities in three of six Somaliland administrative regions.
  7. State Formation in Somaliland: Bringing Deliberation to Institutionalism. Michael Walls, Planning Unit, UCL febrúar 2011
  8. „Somaliland: The Strains of Success Crisis Group Africa Briefing N°113 Nairobi/Brussels, 5. október 2015“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 21. janúar 2017. Sótt 17. maí 2021.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.