Esvatíní

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Umbuso weSwatini
Kingdom of Eswatini
Fáni Esvatíní Skjaldarmerki Esvatíní
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Siyinqaba
(svatí: „Við erum virkið“)
Þjóðsöngur:
Nkulunkulu Mnikati wetibusiso temaSwati
Staðsetning Esvatíní
Höfuðborg Mbabane: stjórnsýsla
Lobamba: konungur og löggjafinn
Opinbert tungumál svatí og enska
Stjórnarfar Einveldi

Konungur Mswati 3.
Ndlovukati Ntombi drottning
Forsætisráðherra Cleopas Dlamini
Sjálfstæði
 - frá Bretlandi 6. september 1968 
Flatarmál
 - Samtals
 - Vatn (%)
153. sæti
17.364 km²
0,9
Mannfjöldi
 - Samtals (2018)
 - Þéttleiki byggðar
155. sæti
1.136.281
68,2/km²
VLF (KMJ) áætl. 2021
 - Samtals 10,463 millj. dala (159. sæti)
 - Á mann 3.697 dalir (114. sæti)
VÞL (2019) Increase2.svg 0.611 (138. sæti)
Gjaldmiðill lilangeni (SZL)
Tímabelti UTC+2
Þjóðarlén .sz
Landsnúmer 268

Konungsríkið Esvatíní (áður þekkt sem Svasíland) er landlukt smáríki í sunnanverðri Afríku með landamæri að Suður-Afríku og Mósambík. Landið er eitt það minnsta í Afríku, aðeins 200 km langt og 130 km breitt. Það er þó landfræðilega fjölbreytt með svala hásléttu og þurrt og heitt láglendi.

Íbúar eru aðallega Svasímenn sem tala svatí. Þeir stofnuðu konungsríkið um miðja 18. öld undir stjórn konungsins Ngwane 3..[1] Landið og þjóðin draga nafn sitt af konunginum Mswati 2. sem stækkaði og efldi ríkið á 19. öld. Núverandi landamæri voru fest í sessi árið 1881 í miðju Kapphlaupinu um Afríku.[2] Undir lok 19. aldar gerði Suður-Afríska Lýðveldið í Transvaal tilkall til svæðisins, en náði ekki að leggja það undir sig. Eftir seinna Búastríðið varð landið að bresku verndarsvæði þar til það fékk sjálfstæði 6. september 1968.[3] Í apríl 2018 var nafni landsins formlega breytt úr „Konungsríkið Svasíland“ í „Konungsríkið Esvatíní“, sem er algengasta heiti landsins á svatí.[4][5]

Esvatíní er einveldi Mswati 3. konungs sem hefur ríkt frá 1986.[6][7] Þingkosningar til fulltrúaþings og meirihluta öldungadeildarinnar eru haldnar á fimm ára fresti. Núverandi Stjórnarskrá Esvatíní var tekin upp árið 2005. Helstu hátíðir landsins eru reyrdansinn umhlanga sem er haldinn í ágúst/september, og konungsdansinn Incwala í desember/janúar.[8]

Efnahagur Esvatíní er fjölbreyttur og byggist á framleiðsluiðnaði, en þrír fjórðu íbúanna vinna samt sem áður við landbúnaðarframleiðslu fyrir heimamarkað sem einkennist af lítilli fjárfestingu og framleiðni. Svasíland er í Þróunarbandalagi sunnanverðrar Afríku, Afríkusambandinu og Breska samveldinu, og á aðild að Tollabandalagi sunnanverðrar Afríku og viðskiptasambandinu COMESA. Gjaldmiðillinn, lilangeni, er festur við suðurafríska randið og Suður-Afríka er helsta viðskiptaland Esvatíní. Helstu viðskiptalönd utan Afríku eru Bandaríkin[9] og Evrópusambandið.[10]

Þrátt fyrir að Svasíland sé ekki meðal fátækustu ríkja álfunnar býr það við alvarleg heilbrigðisvandamál, fjórðungur fullorðinna er smitaður af HIV-veirunni og berklar eru einnig vandamál.[11][12] Lífslíkur voru því aðeins um 58 ár árið 2018.[13] Miðaldur íbúa Esvatíní er aðeins 20,5 ár og 37,5% íbúanna eru 14 ára og yngri.[14] Fólksfjölgun er 1,2% á ári.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Esvatíní er skipt í fjögur héruð: Hhohho, Lubombo, Manzini og Shiselweni. Í hverju héraði eru nokkur tinkhundla (inkhundla í eintölu). Héraðsstjóri fer með stjórn héraðanna ásamt kjörnum fulltrúum í hverju inkhundla.[15]

Sveitarstjórnir skiptast í sveitar- og bæjarráð sem eru ólíkt skipulögð eftir því hver staða þróunar er á hverju svæði. 12 bæjarfélög og 55 tinkhundla eru í landinu.

Á þéttbýlissvæðum eru þrjár tegundir svæðisstjórna: borgarstjórnir, bæjarstjórnir og bæjarráð, sem fara eftir stærð bæjarins eða borgarinnar. Á sama hátt eru þrjár tegundir svæðisstjórna í dreifbýli: héraðsstjórn, tinkhundla og ættbálkahöfðingjar. Ákvarðanir eru teknar í ráðum og byggjast á ráðgjöf ýmissa undirnefnda. Bæjarritari er aðalráðgjafinn í hverri sveitarstjórn eða bæjarstjórn.

Í Esvatíní eru tólf þéttbýlissvæði: tvö borgarráð, þrjár bæjarstjórnir og sjö bæjarráð. Helstu borgir og bæir í Esvatíní eru Manzini, Mbabane, Bhlangano og Siteki sem eru líka héraðshöfuðborgir. Fyrstu tvær hafa borgarráð og hinar tvær bæjarstjórnir. Aðrir minni bæir og þéttbýlissvæði með umtalsverðan íbúafjölda eru Ezulwini, Matsapha, Hlatikhulu, Pigg's Peak, Simunye og Big Bend.

Það eru 55 tinkhundla í Esvatíní og hvert þeirra kýs einn fulltrúa á fulltrúaþing Esvatíní. Hvert inkhundla er með þróunarnefnd (bucopho) með fulltrúum ýmissa ættbálkahöfðingja á svæðinu sem eru kjörnir til fimm ára. Bucopho bera upp við inkhundla alls kyns hagsmunamál hinna ýmsu ættbálka, og snúa aftur með ákvarðanir inkhundla. Formaður bucopho er kosinn af inkhundla og nefnist indvuna ye nkhundla.

Héruð Esvatíní og höfuðstaðir þeirra
Hérað Höfuðstaður Stærsta borg Stærð
(km2)
Íbúar
Hhohho Mbabane Mbabane 3,625 320.651
Lubombo Siteki Siteki 5,849 212.531
Manzini Manzini Manzini 4,093 355.945
Shiselweni Nhlangano Nhlangano 3,786 204.111


Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Bonner, Philip (1982). Kings, Commoners and Concessionaires. Great Britain: Cambridge University Press. bls. 9–27. ISBN 0521242703.
 2. Kuper, Hilda (1986). The Swazi: A South African Kingdom. Holt, Rinehart and Winston. bls. 9–10.
 3. Gillis, Hugh (1999). The Kingdom of Swaziland: Studies in Political History. Greenwood Publishing Group. ISBN 0313306702.
 4. „Swaziland facts and guide as the country renamed the Kingdom of eSwatini“. How Dare She (enska). 20. apríl 2018. Sótt 27. september 2019.
 5. „UN Member States“. United Nations. 30. maí 2018. Sótt 30. júní 2018.
 6. Tofa, Moses 16. maí 2013, „Swaziland: Wither absolute monarchism?". Pambazuka News. (630) Skoðað 19. október 2014.
 7. „Swaziland: Africa′s last absolute monarchy“. Deutsche Welle. 14. júlí 2014. Sótt 19. október 2014.
 8. kbraun@africaonline.co.sz. „Cultural Resources – Swazi Culture – The Incwala or Kingship Ceremony“. Swaziland National Trust Commission. Afrit af upprunalegu geymt þann 30. október 2013. Sótt 2. júní 2021.
 9. „Swaziland | Office of the United States Trade Representative“. Ustr.gov. Afrit af upprunalegu geymt þann 20. júlí 2014. Sótt 16. ágúst 2014.
 10. „Swaziland“. Comesaria.org. Sótt 16. ágúst 2014.
 11. „Projects : Swaziland Health, HIV/AIDS and TB Project“. The World Bank. Sótt 16. ágúst 2014.
 12. Swaziland: Dual HIV and Tuberculosis Epidemic Demands Urgent Action updated 18. nóvember 2010
 13. „The Economist explains: Why is Swaziland's king renaming his country?". . (The Economist). 30. apríl 2018. Skoðað 30. apríl 2018.
 14. „Swaziland Demographics Profile 2013“. Indexmundi.com. 21. febrúar 2013. Sótt 16. ágúst 2014.
 15. „Country Profile: Swaziland: The local government system in Swaziland“ (PDF). Commonwealth Local Government Forum. 16. maí 2013. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 23. september 2015. Sótt 19. október 2014.
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.