Túnis

Hnit: 33°00′00″N 09°00′00″A / 33.00000°N 9.00000°A / 33.00000; 9.00000
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

33°00′00″N 09°00′00″A / 33.00000°N 9.00000°A / 33.00000; 9.00000

Lýðveldið Túnis
الجمهورية التونسية
El-joumhouriyya et-Tounisiyya
Fáni Túnis Skjaldarmerki Túnis
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
حرية، نظام، عدالة
Ḥurriyyah, Niẓām, ‘Adālah
„Frelsi, regla, réttlæti“
Þjóðsöngur:
Humat al-Hima
Staðsetning Túnis
Höfuðborg Túnis
Opinbert tungumál arabíska
Stjórnarfar Lýðveldi

Forseti Kais Saied
Forsætisráðherra Ahmed Hachani
Sjálfstæði
 • frá Frakklandi 20. mars 1956 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
91. sæti
163.610 km²
5
Mannfjöldi
 • Samtals (2019)
 • Þéttleiki byggðar
78. sæti
11.722.038
71/km²
VLF (KMJ) áætl. 2019
 • Samtals 151,566 millj. dala (77. sæti)
 • Á mann 12.862 dalir (99. sæti)
VÞL (2018) 0.739 (91. sæti)
Gjaldmiðill túniskur dínar
Tímabelti UTC+1
Þjóðarlén .tn
Landsnúmer +216

Túnis, opinbert heiti Lýðveldið Túnis, er land á Maghreb-svæðinu í Norður-Afríku með landamæri að Alsír í vestri og Líbýu í austri og strandlengju að Miðjarðarhafi í norðri og austri. Íbúar voru 11,7 milljónir árið 2019. Nafnið Túnis er talið koma úr máli Berba og merkja tjaldbúðir en landið dregur nafn sitt af höfuðborginni.

Túnis er nyrsta landið í Afríku og austasta landið á Atlasfjallgarðinum. Suðurhluti landsins er nyrsti hluti Sahara, en annars staðar er frjósamur jarðvegur. Strönd landsins er 1300 km að lengd og er hluti af skilunum milli austur- og vesturhluta Miðjarðarhafsins.

Í Túnis er fulltrúalýðræði og landið er talið eina sanna lýðræðisríkið í Arabaheiminum. Vísitala um þróun lífsgæða er há fyrir Túnis. Landið er með samstarfssamning við Evrópusambandið, er aðili að Samtökum frönskumælandi ríkja, Miðjarðarhafsbandalaginu, sameiginlegum markaði Austur- og Norður-Afríku, Arabíska Maghreb-bandalaginu, Arababandalaginu, Samtökum um íslamska samvinnu, Fríverslunarbandalagi Arabaríkja, Sambandi ríkja í Sahel og Sahara, Afríkusambandinu, Samtökum hlutlausra ríkja, G77 hópnum, og er bandamaður NATO. Túnis er aðili að Rómarsamþykkt um Alþjóðlega sakamáladómstólinn og Sameinuðu þjóðunum. Túnis á í nánu samstarfi við Evrópu, einkum Frakkland og Ítalíu.

Berbar hafa búið í Túnis frá fornu fari. Föníkumenn stofnuðu þar borgina Karþagó á 12. öld f.Kr.. Karþagó var sjóveldi og keppti við Rómaveldi um áhrif á Miðjarðarhafi. Rómverjar lögðu Karþagó undir sig árið 146 f.Kr. og landið varð síðar rómverska skattlandið Afríka. Rómverjar réðu yfir Túnis næstu 800 árin, kynntu íbúa fyrir Kristni og skildu eftir sig minjar eins og hringleikahúsið El Jem. Eftir árið 647 lögðu múslimar landið undir sig á 50 árum. Tyrkjaveldi tók síðan við völdum í landinu eftir röð herleiðangra frá 1534. Innrás Frakka í Túnis átti sér stað 1881. Landið fékk sjálfstæði frá Frökkum árið 1957 og lýsti yfir stofnun lýðveldis. Fyrsti forseti landsins var sjálfstæðisleiðtoginn Habib Bourguiba. Árið 2011 hófst byltingin í Túnis sem varð til þess að steypa forsetanum Zine El Abidine Ben Ali af valdastóli. Frjálsar kosningar fóru fram árið 2014.

Túnis nær yfir 163.610 ferkílómetra. Nyrsti oddi landsins og jafnframt álfunnar er Ras ben Sakka. Sikileyjarsund skilur milli Túnis og Sikileyjar, en það er um 145 km á breidd. Aðeins 60 km undan strönd Túnis er ítalska eyjan Pantelleria. Túnis er frjósamt land með miklar strendur sem laða að ferðamenn. Efnahagslíf landsins er fjölbreytt og byggist á landbúnaði, olíuvinnslu, námavinnslu, iðnframleiðslu og ferðaþjónustu. Arabíska er opinbert mál og 98% íbúa eru múslimar. Frönskukunnátta er algeng.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Nafn Túnis er dregið af borginni Túnis sem í dag er höfuðborg landsins. Rót orðsins er úr máli berba ⵜⵏⵙ sem merkir „að leggjast niður“ eða „tjaldbúðir“.[1] Það hefur stundum verið tengt við fönísku gyðjuna Tanit.[2][3]

Í ýmsum málum fær landaheitið latnesku endinguna -ia eins og í ensku, Tunisia, og frönsku Tunisie, en borgin heitir þá Tunis. Í öðrum málum, til dæmis arabísku, rússnesku og spænsku, eru heiti landsins og borgarinnar skrifuð eins.

Meðan landið var undir yfirráðum Rómaveldis í fornöld hét það Afríka eða Ifriqiya. Heiti heimsálfunnar er dregið af því.

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Loftslagsbelti í Túnis. Miðjarðarhafsloftslag er ríkjandi við ströndina en inni í landi er eyðimörk.
Útsýni yfir miðja Túnishásléttuna við Téboursouk.

Túnis stendur við Miðjarðarhafsströnd Norðvestur-Afríku, miðja vegu milli Atlantshafsins og Nílarósa. Það á landamæri að Alsír í vestri og suðvestri og Líbíu í suðaustri. Það liggur milli 30. og 38. breiddargráða norður, og 7. og 12. lengdargráða austur. Skyndileg beygja á sunnanverðri Miðjarðarhafsströndinni í Norður-Túnis gefur landinu strendur í tvær áttir; vestur-austur í norðri, og norður-suður í austri.

Þótt landið sé tiltölulega lítið að stærð er Túnis landfræðilega fjölbreytt vegna þess hve langt það nær í norður og suður. Breidd landsins er minni. Mismunur á loftslagi í Túnis, eins og öðrum löndum Norður-Afríku, stafar af minnkandi úrkomu eftir því sem sunnar dregur. Austurendi Atlasfjalla liggur gegnum Túnis í norðausturátt frá landamærum Alsír í vestri að Cap Bon-skaganum í austri. Norðan við fjöllin er Tell, svæði sem einkennist af lágum hæðum og sléttum, sem aftur eru framhald af fjöllum vestan megin. Í Khroumire, norðvesturhorni Tell, nær landið 1050 metra hæð og þar snjóar á veturna.

Túnisíska Sahel, sem er breikkandi strandslétta við austanverða Miðjarðarhafsströnd Túnis, er meðal helstu ólífuræktarsvæða heims. Innan við Sahel, milli Atlasfjalla og nokkurra hæða sunnan Gafsa, eru steppur. Mikið af suðurhlutanum er hálfþurrt og eyðimörk.

Strönd Túnis er 1148 km löng. Landið gerir tilkall til 25 mílna samfelldrar lögsögu utan við 12 mílna landhelgi landsins.[4]

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Túnis skiptist í 24 landstjóraumdæmi sem aftur skiptast í 264 landsvæði sem síðan skiptast í sveitarfélög og hverfi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Rossi, Peter M.; White, Wayne Edward (1980). Articles on the Middle East, 1947–1971: A Cumulation of the Bibliographies from the Middle East Journal. Pierian Press, University of Michigan. s. 132.
  2. Room, Adrian (2006). Placenames of the World: Origins and Meanings of the Names for 6,600 Countries, Cities, Territories, Natural Features, and Historic Sites. McFarland. s. 385.
  3. Taylor, Isaac (2008). Names and Their Histories: A Handbook of Historical Geography and Topographical Nomenclature. BiblioBazaar, LLC. s. 281.
  4. Ewan W., Anderson (2003). International Boundaries: Geopolitical Atlas. Psychology Press. bls. 816. ISBN 978-1-57958-375-0.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.