Fara í innihald

Flekakenningin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Jarðfleki)
Kort af 16 stærstu jarðskorpuflekunum.

Flekakenningin eða landrekskenningin er kenning sem skýrir hreyfingar meginlandanna. Samkvæmt kenningunni skiptist stinnhvolf jarðar í nokkra stóra jarðskorpufleka sem fljóta ofan á möttlinum. Kenningin skýrir landrek sem Alfred Wegener rökstuddi eftir rannsóknir sínar á Grænlandi á 2. áratug 20. aldar.[1][2][3] Kenningin ávann sér smám saman meira fylgis og varð almennt viðurkennd eftir að vísindamenn uppgötvuðu eftir 1960 að segulrákir á sjávarbotni sýndu fram á botnrek út frá úthafshryggjum. Tuzo Wilson smíðaði líkan sem skýrði hringrás landreks sem fékk heitið Wilson-hringurinn.[4]

Jarðskorpan og efri möttull jarðar mynda harða skel sem þekur yfirborð jarðar. Þessi skel er brotin í sjö til átta stóra fleka (eftir því hvernig þeir eru skilgreindir) og nokkra minni fleka. Hreyfing þessara fleka gagnvart hver öðrum skilgreinir rekbelti (flekaskil eða flekamót). Hreyfingin er frá núll að 10 cm á ári.[5] Rekbeltin eru jarðfræðilega virk svæði sem einkennast af eldvirkni, jarðskjálftum, fjallmyndun og úthafsrennum.

Á flekaskilum færast tveir flekar í sundur og við það þrýstist bergkvika upp á yfirborð jarðar (hvort sem er ofan- eða neðansjávar) og myndar nýtt land. Á flekamótum þrýstast hins vegar tveir flekar saman. Þegar annar flekinn fer undir hinn getur myndast djúpsjávarrenna. Í því tilfelli er að minnsta kosti annar flekinn úthafsfleki. Flekinn sekkur ofan í möttulinn og við það minnkar jarðskorpan á þeim stað. Í staðinn myndast ný úthafsskorpa með eldgosum á úthafshrygg þar sem jarðskorpan fer í sundur. Jarðskorpan helst því í jafnvægi á eins konar „færibandi“. Ef tveir meginlandsflekar mætast myndast svokölluð fellingafjöll. Ástæðan fyrir því að mismunandi jarðfræðileg fyrirbæri myndast er sú að úthafsflekar eru mun eðlisþyngri en meginlandsflekar.

Jarðflekarnir eru fremur stífir og fljóta ofan á linhvolfinu undir þeim. Breytilegur þéttleiki möttulsins skapar möttulstrauma sem eru hægar hreyfing í möttlinum. Við úthafshryggi hreyfast flekarnir frá hryggnum sem myndar hæð, en eftir því sem skorpan færist lengra þaðan kólnar hún, verður þéttari og tekur þannig þátt í að skapa hreyfinguna. Við sökkbelti sekkur tiltölulega þétt og köld úthafsskorpa ofan í möttulinn og dregur flekann með sér, sem er helsti orsakaþáttur hreyfingarinnar.[6] Aðrir mögulegir orsakaþættir eins og uppstreymi í möttlinum og áhrif aðdráttarafls tunglsins, eru umdeildari.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Hughes, Patrick (8. febrúar 2001). „Alfred Wegener (1880–1930): A Geographic Jigsaw Puzzle“. On the Shoulders of Giants. Earth Observatory, NASA. Sótt 26. desember 2007.
  2. Jón Eyþórsson (1935). „Síðasta Grænlandsför Wegeners“. Dvöl (10): 10–16.
  3. Sigurður Þórarinsson (1981). „Alfred Wegener: Aldarminning - I. Maðurinn og verk hans“. Náttúrufræðingurinn (1–2): 10–26.
  4. Wilson, J. Tuzo (13. ágúst 1966). „Did the Atlantic close and then re-open?“. Nature. 211 (5050): 676–81. Bibcode:1966Natur.211..676W. doi:10.1038/211676a0. S2CID 4226266.
  5. Read, Herbert Harold; Watson, Janet (1975). Introduction to Geology. New York, NY: Halsted. bls. 13–15. ISBN 978-0-470-71165-1. OCLC 317775677.
  6. Forsyth, D.; Uyeda, S. (1975). „On the Relative Importance of the Driving Forces of Plate Motion“. Geophysical Journal International. 43 (1): 163–200. Bibcode:1975GeoJ...43..163F. doi:10.1111/j.1365-246x.1975.tb00631.x.