Heimsálfa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hreyfimynd sem sýnir ólíkar skilgreiningar á heimsálfunum.

Heimsálfa er stór samfelldur landmassi á Jörðinni. Engin nákvæm skilgreining er til á heimsálfu en nokkur skilyrði eru oftast höfð til hliðsjónar: landsvæðið verður að vera stórt, ofan sjávar, með greinanleg landfræðileg mörk. Þar sem skilgreininguna skortir eru ekki allir sammála um hver fjöldi heimsálfanna er í raun og hafa tölur frá 4 til 7 verið nefndar í því samhengi, algengast er að miða við 6-7.

Mest er deilt um það hvort að Asía og Evrópa séu ein (Evrasía) heimsálfa eða tvær, það sama gildir um skiptingu Ameríku í Suður- og Norður-Ameríku. Nokkrir landfræðingar hafa einnig lagt til að Afríka og Evrasía skuli teljast til einnar heimsálfu (Evrafrasíu).

Eyjar eru annað vandamál við skilgreiningu heimsálfa, þær eru oft sagðar tilheyra þeirri heimsálfu sem þær eru næstar, það á við um t.d. Stóra-Bretland í Evrópu og Japan í Asíu. Aðrar eyjar eru skilgreindar sem úthafseyjar utan heimsálfa. Eyjaálfa er hugtak sem notað hefur verið yfir úthafseyjar á Kyrrahafi og er stundum talin heimsálfa með Ástralíu og stundum utan heimsálfa. Hvað Ísland varðar þá eru rökin fyrir því að það tilheyri Evrópu menningarleg og söguleg frekar en jarðfræðileg eða landfræðileg þar sem það væri kannski betur skilgreint sem hluti N–Ameríku eða bara utan heimsálfa.

Algengar skilgreiningar á heimsálfunum eru:

7 álfur: Afríka, Asía, Eyjaálfa, Evrópa, Norður-Ameríka, Suður-Ameríka og Suðurskautslandið.
6 álfur: Afríka, Eyjaálfa, Evrasía, Norður-Ameríka, Suður-Ameríka og Suðurskautslandið.
6 álfur: Afríka, Ameríka, Asía, Eyjaálfa, Evrópa og Suðurskautslandið.
5 álfur: Afríka, Ameríka, Eyjaálfa, Evrasía, og Suðurskautslandið.
4 álfur: Ameríka, Eyjaálfa, Evrafrasía, og Suðurskautslandið.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.