Kópavogur
Kópavogsbær | |
---|---|
Hnit: 64°06′41″N 21°54′17″V / 64.11139°N 21.90472°V | |
Land | Ísland |
Kjördæmi | Suðvesturkjördæmi |
Þéttbýliskjarnar | Kópavogur |
Stjórnarfar | |
• Bæjarstjóri | Ásdís Kristjánsdóttir D |
Flatarmál | |
• Samtals | 110 km2 |
• Sæti | 53. sæti |
Mannfjöldi (2024) | |
• Samtals | 39.335 |
• Sæti | 2. sæti |
• Þéttleiki | 357,59/km2 |
Póstnúmer | 200, 201, 202, 203 |
Sveitarfélagsnúmer | 1000 |
Vefsíða | kopavogur |
Kópavogsbær er sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem liggur sunnan við Reykjavík og norðan við Garðabæ og á jafnframt landsvæði á Sandskeiðum og Húsfellsbruna. Bærinn dregur nafn sitt af voginum sunnan við Kársnes. Kópavogur er fjölmennastur þeirra bæja sem liggja í kringum Reykjavík og er jafnframt næstfjölmennasta sveitarfélag á Íslandi, með 40.018 íbúa í apríl 2023.[1]
Þar var Kópavogsfundurinn haldinn árið 1662, en allt fram á 20. öld voru einungis nokkrir bústaðir og býli í Kópavogi. Á 4. áratug 20. aldar var byrjað að úthluta lóðum í landi Kópavogs og ollu þjóðfélagsaðstæður því að fólksfjölgun var mikil og hröð. Kópavogshreppur klofnaði frá Seltjarnarneshreppi árið 1948 og fékk svo kaupstaðarréttindi 1955. Undir lok 20. aldarinnar og í byrjun 21. aldar var mikil uppbygging í Kópavogi. Framan af var aðallega íbúðasvæði í Kópavogi, en vegna staðsetningar sinnar í miðju höfuðborgarsvæðisins er einnig mikið af atvinnustarfsemi og þjónustu í bænum. Þar er stærsta verslunarmiðstöð landsins, Smáralind, hæsta bygging landsins Smáratorg 3 og mikil viðskiptastarfsemi.
Landsvæði Kópavogsbæjar er fjölbreytt. Í botni Kópavogs og Fossvogs eru leirur með fjölbreyttu fuglalífi og á svæðinu sem bærinn stendur á eru mikil ummerki um forna sjávarstöðu og ísaldarjökla. Við Elliðavatn er fallegt umhverfi og er vatnið sjálft á náttúruminjaskrá. Eystri landskikar sveitarfélagsins eru að miklu leyti innan Bláfjallafólkvangs, þar er Þríhnúkagígur og skíðasvæðið í Bláfjöllum.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Elstu merki um búsetu í landi Kópavogs eru í botni Kópavogs, norðan við ósa Kópavogslækjar, en þar fannst jarðhýsi sem talið er að geti verið frá 9. öld.[2] Önnur forn bæjarstæði í landi Kópavogs eru Digranes, Hvammur (síðar Hvammskot og Fífuhvammur) og Vatnsendi. Fyrsta ritaða heimild um búsetu á Vatnsenda er frá 1234 og nafnið Kópavogur kemur fyrst fram í heimildum árið 1523. Á Þingsnesi við Elliðavatn er stórt rústasvæði, 6.000-7.000 m² að stærð, sem hefur vakið mikla athygli fornleifafræðinga. Jafnvel er talið að um sé að ræða hið forna Kjalarnesþing, en elstu rústir á svæðinu eru frá 10. öld. Kópavogsþing var staðsett á Þinghól í botni vogsins, en Bessastaðir voru mikilvægur staður á 17. öld og því þörf fyrir þingstað í nágrenninu. Íslendingar vildu þingstað utan lands Bessastaða og því varð Kópavogur fyrir valinu.[3] Af heimildum virðist það hafa verið frekar stórt þing og á 16. öld voru uppi hugmyndir um að flytja Alþingi þangað, þó að til þess hafi aldrei komið. Erfðahyllingin árið 1662, oft kölluð Kópavogsfundurinn, fór fram á Kópavogsþingi. Fundurinn var haldinn til þess að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldi Danakonungs. Þetta hafði það í för með sér að allt ríkisvald komst í hans hendur. Í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga var erfðahyllingin notuð sem dæmi um yfirgang Dana á Íslendingum í gegnum tíðina.[4][5]
Bærinn er áleiðum og ömurlegum stað; umhverfis hann eru lág grýtt hæðardrög eða dökkleitar þýfðar mýrar. | ||
— Danski fræðimaðurinn Kristian P.E. Kålund segir svo frá jörðinni Kópavogi í ferðalýsingu sem var gefin út árin 1877–1882.
|
Árið 1870 bjuggu 46 í Kópavogi. Ekki eru til miklar heimildir um mannlíf í landi Kópavogsbæjar á síðustu öldum en þar var búið á nokkrum bæjum fram á 20. öld. Jarðirnar í Kópavogi voru leigujarðir og því voru ör skipti ábúenda. Því hefur verið haldið fram að þetta sé ástæðan fyrir að ekki er rótgróin saga í Kópavogi eða stórar ættir þaðan.[6][3]
Upphaf byggðar (1936–1955)
[breyta | breyta frumkóða]Í kreppunni miklu á 4. áratugnum var skortur á húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir þann fjölda fólks sem flutti til Reykjavíkur úr sveitum Íslands. Upp úr 1930 tók ríkisstjórnin Kópavogs- og Digranesjarðirnar úr leigu og skipti niður í nýbýli og leigulönd. Fyrsti vegurinn í Kópavogi var lagður árið 1935 af mönnum í atvinnubótavinnu. Fyrir neðan þennan veg voru byggð nokkur nýbýli og var vegurinn kenndur við þau og kallaður Nýbýlavegur. Nýbýli þessi voru um 15-18 ha. að stærð.[7] Kársnesbraut var lögð árið 1937 og síðan Urðarbraut, Álfhólsvegur, Hlíðarvegur og Digranesvegur. Kópavogur var upphaflega skipulagður sem nýbýla-, ræktunar- og sumarbústaðahverfi, og þjónusta þar var svipuð og í sveitum. Eftir seinni heimsstyrjöldina flutti mikið af fólki til Reykjavíkur og var borgin ekki viðbúin þeim aðstraumi. Því var mikil aðsókn í lóðir í Kópavogi. Upp úr 1940 var komin allnokkur byggð á Kársnesi og norðanverðum Digraneshálsi og árið 1945 bjuggu 521 í bænum, sem var á þeim tíma hluti Seltjarnarneshrepps. Engin verslun eða skóli var í Kópavogi fyrstu ár þéttbýlisins og alla þjónustu þurfti að sækja annað. Börn gengu í skóla á Seltjarnarnesi og sýslumaðurinn var í Hafnarfirði. Svifflugfélag Íslands fékk aðstöðu fyrir flugvöll á Sandskeiði í austurhluta sveitarfélagsins árið 1939 og stendur hann enn.
Sökum mikillar fólksfjölgunar í Kópavogi og þess að Seltjarnarneshreppur var nú í tveimur aðskildum hlutum eftir að Skerjafjörður var færður undir Reykjavíkurbæ, óskuðu Seltirningar eftir því að aðskilja Seltjarnarneshrepp þannig að Kópavogsbúar mynduðu eigin hrepp. Sú skipting var samþykkt og 1. janúar 1948, tók hún gildi þegar Kópavogur og þau landsvæði sem féllu í hans hlut mynduðu Kópavogshrepp. Á árunum eftir stofnun hreppsins var mikil þétting byggðar í bænum, og 1949–1954 var unnið að heildarskipulagi svæðisins. Framfarafélagið Kópavogur var stofnað árið 1945 og hafði á stefnuskrá sinni endurbætur í ýmsum málum, svo sem menningu, menntun, samgöngum, síma- og póstsamskiptum, vatnsveitu og jarðrækt.[7] Kennsla hófst síðan í Kópavogsskóla árið 1949; í skólanum voru 232 nemendur árið 1951 en árið 1957 voru þeir orðnir 580. Ungmennafélagið Breiðablik var stofnað árið 1950. Tvær litlar matvöruverslanir opnuðu í Kópavogi árið 1945 en Kaupfélag Kópavogs hóf rekstur árið 1952.[8][7]
Kaupstaður (1955–)
[breyta | breyta frumkóða]Íbúafjöldi í Kópavogi | |||
---|---|---|---|
Ár | Íbúar | Hlutfall
landsmanna | |
1940 | 200 | 0,2% | |
1950 | 1.652 | 1,1% | |
1960 | 6.213 | 3,5% | |
1970 | 11.165 | 5,4% | |
1980 | 13.814 | 6,0% | |
1990 | 16.186 | 6,3% | |
2000 | 22.693 | 8,1% | |
2010 | 30.357 | 9,6% | |
2011 | 30.779 | 9,7% | |
Heimild: Hagstofa Íslands[9] |
Fyrst var kosið í bæjarstjórn í október 1955 eftir að kaupstaðarréttindi tóku gildi í maí það ár. Líkt og í öllum þremur hreppsnefndarkosningunum hélt meirihluti Framfarafélagsins við stjórnvölinn eftir það undir forystu Finnboga Rúts Valdimarssonar og það var ekki fyrr en 1962 að breyting varð á þegar Framsóknarflokkurinn gekk í lið með þeim til að mynda meirihluta og svo síðar Sjálfstæðisflokkurinn. Til að byrja með fundaði bæjarstjórn í Kópavogsskóla en síðar í Félagsheimili Kópavogs. Fyrsta stóra ágreiningsmál bæjarstjórnar var tillaga um að sameina Reykjavík og Kópavog en sú tillaga hlaut ekki hljómgrunn. Á næstu áratugum var hröð uppbygging í innviðum svo sem menntun og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Árið 1958 var lokið við fyrsta skipulagsuppdrátt Kópavogs en framkvæmdum við Hamraborg var að mestu lokið árið 1984. Kópavogskirkja var teiknuð árið 1957 af Herði Bjarnasyni, þáverandi húsameistara ríkisins, og vígð árið 1962.[10]
Á sama tíma varð mikill vöxtur í ýmiss konar iðnaði og þjónustu í bænum. Í lok 9. áratugarins voru aðalatvinnugreinar í Kópavogi húsgagnaiðnaður, matvælaiðnaður, bifreiðaumboð og almenn verslun.[10] Frá því á síðasta áratug 20. aldar hefur íbúafjöldi Kópavogs tvöfaldast og stórt verslunar- og þjónustuhverfi risið í Kópavogsdal. Austan Reykjanesbrautar hefur verið mikil uppbygging og þar hafa risið íbúðahverfi kennd við Lindir, Sali, Kóra, Þing og Hvörf. Smáratorg var opnað árið 1997, Smáralind árið 2001 og hinn 20 hæða turn á Smáratorgi 3 árið 2008.[11][12] Í kosningunum 2006 hrapaði fylgi Framsóknar en þó náðu flokkarnir tveir að halda meirihluta. Efnahagskreppan á Íslandi 2008–2010 hafði haft talsverð áhrif á uppbyggingu í Kópavogi. Í kosningunum 2010 féll meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og meirihluti Samfylkingar, Vinstri Grænna, Næstbesta flokksins og Y-lista Kópavogsbúa var myndaður. Þessi meirihluti féll í kosningunum 2014 og Björt framtíð og Sjálfstæðisflokkurinn mynduðu nýjan meirihluta.
Staðhættir
[breyta | breyta frumkóða]- Sjá einnig: Höfuðborgarsvæðið og Reykjanesskagi
Kópavogsbær er samtals 110 km² að stærð og er í 55. sæti af 76 sveitarfélögum á Íslandi eftir stærð. Sveitarfélagið er á þremur aðskildum landspildum á milli Reykjavíkur, Garðabæjar og Mosfellsbæjar innst á Reykjanesskaga. Öll byggð í Kópavogi er á því landi sem afmarkast af Fossvogsdal í norðri, Breiðholti og Elliðavatni í austri og Garðabæ í suðri. Vestast í bænum er Kársnes sem liggur á milli Kópavogs og Fossvogs. Í miðjum bænum er Kópavogsdalur og eftir honum rennur Kópavogslækur, sem er í daglegu tali oft kallaður Skítalækurinn þar sem skólpi var veitt í hann fyrr á árum. Milli Kópavogsdals og Elliðavatns eru ávöl holt og hæðir áberandi. Þar má nefna örnefni eins og Leirdal, Hnoðraholt og Rjúpnahæð. Fyrsta þéttbýli í Kópavogi þróaðist á Kársnesi og á Kópavogshálsi sem liggur inn af Kársnesi og skilur að Fossvogsdal og Kópavogsdal. Á undanförnum tveimur áratugum hefur Kópavogur byggst upp frá norðvestri til suðausturs í átt að Elliðavatni. Í botni Kópavogsdals eru útivistarsvæði og íþróttamannvirki, en sitt hvoru megin eru þéttbýl íbúða- og verslunarhverfi. Það landsvæði Kópavogs sem er ekki uppbyggt liggur annars vegar á Sandskeiðum, vestan Vífilsfells]], og hins vegar á Húsfellsbruna á milli Húsfells og Bláfjalla. Skíðasvæðið í Bláfjöllum er í landi Kópavogs.
Náttúra
[breyta | breyta frumkóða]Vesturhluti Kópavogs liggur á því grágrýtissvæði sem meginhluti höfuðborgarsvæðisins stendur á. Þetta grágrýti er að minnsta kosti 100.000 ára gamalt. Austari hlutar sveitarfélagsins eru á hraunum sem hafa runnið eftir ísöld og sum eftir landnám. Þá er móberg frá því um miðbik ísaldar neðst í Kópavogsdal. Land Kópavogs ber þess ýmis merki að hafa verið mótað af ísaldarjöklum. Þinghóll er í raun hluti af 10.000 ára gömlum jökulgarði og stór jökulgarður liggur frá Álftanesi og neðansjávar upp að norðurströnd Kársness. Í landi Kópavogs eru ýmis náttúruvætti. Í botni Kópavogs og Fossvogs eru leirur með fjölbreyttu fuglalífi, og má þar nefna tegundir eins og tjald, stokkönd, skúfönd, rauðbrysting, tildru og lóuþræl. Kópavogsleira er um 21 hektari að stærð og er dvalarstaður fyrir alls 30 staðbundnar fuglategundir og um 10 farfuglategundir. Borgarholt á Kársnesi er friðlýst náttúruvætti þar sem eru greinileg ummerki um hærri sjávarstöðu á höfuðborgarsvæðinu. Brimsorfnir grágrýtishnullungar einkenna holtið og neðri mörk þeirra marka hina fornu sjávarstöðu en hún er í um 40 m hæð yfir núverandi sjávarmáli. Einnig er áhugavert samfélag villtra gróðurtegunda á Borgarholti sem hefur þrifist í návist við erlendan garðagróður í nágrenninu.[13] Víghólar eru einnig friðlýstir en þeir eru jökulsorfnar grágrýtisklappir á hæsta punkti Kópavogsháls í um 70 metra hæð yfir sjávarmáli. Elliðavatn er á náttúruminjaskrá, en það er grunnt sigdældarvatn sem í er þykkt kísilgúrlag og mikið lífríki. Botnplöntur eru mjög áberandi og dýralíf við fjöruna mjög mikið. Í Elliðavatni er góð silungsveiði, en í vatnakerfinu lifa allar tegundir villtra ferskvatnsfiska á Íslandi; bleikja, lax, urriði, áll og hornsíli. Vatnið í Elliðavatni er að uppruna lindarvatn sem streymir upp víðs vegar umhverfis vatnið. Vatnið stækkaði verulega til suðurs eftir að það var stíflað á árunum 1924-1925[14][15][3]
Næstum því helmingur af landi Kópavogs, eða 37 km², er innan Bláfjallafólkvangs. Svæðið er á Reykjanesgosbeltinu og á því eru margs konar ummerki um eldvirkni, svo sem hraun, eldgígar og móbergsmyndanir. Hraun frá að minnsta kosti 15 eldstöðvum innan fólkvangsins eru að hluta innan marka Kópavogs. Í Þríhnúkagíg, syðst í landi Kópavogs, er 120 metra djúpur gígketill sem er sá stærsti sinnar tegundar á Íslandi og er af mörgum talin ein merkasta náttúrumyndun landsins. Inn af botni ketilsins er 115 metra langur hellir. [16] Þríhnúkagígur hefur verið gerður aðgengilegan fyrir almenning með göngum inn í hann og er þar útsýnispallur. Auk þess er hægt að fá að síga ofan í hann. [17]
Hverfi
[breyta | breyta frumkóða]
Stjórnsýsla
[breyta | breyta frumkóða]Listi | Kjörnir bæjarfulltrúar | |
---|---|---|
B | Orri Vignir Hlöðversson | |
B | Sigrún Hulda Jónsdóttir | |
C | Theódóra S. Þorsteinsdóttir | |
D | Andri Steinn Hilmarsson | |
D | Ásdís Kristjánsdóttir | |
D | Hannes Steindórsson | |
D | Hjördís Ýr Johnson | |
P | Sigurbjörg Erla Egilsdóttir | |
S | Bergljót Kristinsdóttir | |
Y | Helga Jónsdóttir | |
Y | Kolbeinn Reginsson |
Eins og í öðrum sveitarfélögum á Íslandi er kosið til bæjarstjórnar Kópavogs á fjögurra ára fresti. Bæjarstjórn kýs síðan bæjarstjóra og skipar í ýmis ráð og nefndir bæjarins. Bæjarstjórn Kópavogs er skipuð 11 fulltrúum úr 6 framboðum, en meirihlutasamstarf er með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokki. Þessi meirihluti hefur verið starfandi frá árinu 2018. Bæjarstjóri Kópavogs er Ásdís Kristjánsdóttir, Sjálfstæðisflokki, forseti bæjarstjórnar er Sigrún Hulda Jónsdóttir og formaður bæjarráðs er Orri Vignir Hlöðversson, bæði úr Framsóknarflokki. [18]
Kópavogur er í Suðvesturkjördæmi og er fjölmennasta sveitarfélagið í kjördæminu. Fyrir breytingar á lögum um framkvæmdavald ríkisins árið 1989 var Kópavogur hluti Gullbringu- og Kjósarsýslu. Kópavogsbær er sérstakt sýslumannsumdæmi, en frá árinu 2007 hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu séð um löggæslu í bænum. Kópavogur er í umdæmi Héraðsdóms Reykjaness.
Sjá nánar um kosningaúrslit, bæjarfulltrúa og bæjarstjóra í:
- Hreppsnefndarkosningar í Kópavogi (1948–1954);
- Bæjarstjórnarkosningar í Kópavogi (1955–).
Merki
[breyta | breyta frumkóða]Merki Kópavogsbæjar var valið í samkeppni árið 1965 og var tekið í notkun það sama ár í tilefni 10 ára afmæli bæjarins. Allmargar tillögur bárust og greiddi bæjarstjórn atkvæði um tillögurnar 26. mars 1965 á bæjarstjórnarfundi. Sigurtillagan er núverandi merki sem hlaut 9 atkvæði.Höfundar þess eru Sigurveig Magnúsdóttir arkitekt og Ingvi Magnússon auglýsingateiknari. Merkið sýnir boga Kópavogskirkju með selkópi fyrir neðan. Græni liturinn er Pantone 356.[19]
Samfélag og menning
[breyta | breyta frumkóða]Samfélagið í Kópavogi einkennist af ungum aldri bæjarins, staðsetningu hans og náttúru svæðisins. Kópavogur er því sem næst í miðju höfuðborgarsvæðisins og í gegnum bæinn liggja tvær stofnbrautir, Hafnarfjarðarvegur og Reykjanesbraut. Því eru margir Kópavogsbúar sem sækja vinnu eða stunda nám í nágrannasveitarfélögunum og öfugt. Í Kópavogi er mikið um verslun og þjónustu, sérstaklega í Smáranum og við Smiðjuveg. Nálægð bæjarins við höfuðborgina og ungur aldur byggðarinnar hefur áhrif á menningarstarfsemi í Kópavogi.
Flestar menningarstofnanir Kópavogs eru til húsa á Borgarholti. Lestrarfélag Kópavogs var stofnað 1953 að undirlagi Jóns úr Vör. Bókasafn Kópavogs er nú til húsa í Safnahúsi Kópavogs með útibú í Lindaskóla. Árið 2007 voru 212.060 útlán frá safninu.[20] Náttúrufræðistofa Kópavogs, Tónlistarskóli Kópavogs og Salurinn eru einnig til húsa í Safnahúsinu. Salurinn er var einn stærsti tónleikasalur á Íslandi áður en tónlistarhúsið Harpa var byggð og tekur hann um 300 manns í sæti .[21] Gerðarsafn er listasafn sem er til húsa í Hamraborg, í næsta nágrenni við Safnahúsið. Það var opnað í apríl 1994 og heitir eftir Gerði Helgadóttur myndhöggvara.[22] Héraðsskjalasafn Kópavogs var opnað árið 2001 og er til húsa í Hamraborg. Það fer með umboð Þjóðskjalasafns í Kópavogi.[23] Í samstarfi við Héraðsskjalasafnið starfar Sögufélag Kópavogs, stofnað 2011. Leikfélag Kópavogs var stofnað árið 1957 og var lengi vel til húsa í Félagsheimili Kópavogs.[24] Skólahljómsveit Kópavogs var stofnuð 1966. Henni er skipt í þrjár sveitir eftir aldri og getu sem koma að meðaltali fram 90 sinnum á ári.[25]
Í Kópavogi eru fjórar kirkjur. Kópavogskirkja, sem var vígð árið 1962, er eitt helsta kennileiti Kópavogs og einfölduð mynd af kirkjunni kemur fyrir í merki bæjarins. Í bænum eru tvær sundlaugar og fjölmargir almenningsgarðar og útivistarsvæði, svo sem í Kópavogsdal, Fossvogsdal og við Elliðavatn. Tvö bæjarblöð eru gefin út í Kópavogi, Kópavogspósturinn og Kópavogsblaðið.
Skólar
[breyta | breyta frumkóða]Í Kópavogi eru 21 leikskóli, en árið 2009 voru 83% barna á leikskólaaldri í Kópavogi í leikskóla á vegum bæjarins.[26] Kópavogsbær rekur 9 grunnskóla. Menntaskólinn í Kópavogi er eini framhaldsskólinn í Kópavogi. Auk hefðbundins bóknáms er þar boðið upp á ferðamálanám og nám á matvælasviði.[27] Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um að Knattspyrnuakademía Íslands myndi koma að starfsemi framhaldsskóla í Kórahverfinu, en frá því var horfið.[28] Um 550 nemendur stunda nám við Tónlistarskóla Kópavogs. Þá er Kvöldskóli Kópavogs með starfsemi í Snælandsskóla og býður upp á ýmis námskeið, þar á meðal íslenskunámskeið fyrir útlendinga.[29][30]
Samgöngur
[breyta | breyta frumkóða]Kópavogsbær er aðili að Strætó bs. sem sér um almenningssamgöngur í bænum. Aðal strætisvagnaskiptistöð bæjarins er í Hamraborg. Þar stoppa bæði þeir vagnar sem ganga um bæin auk vagna sem tengja bæin við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu.
Í Kópavogi er göngu- og hjólastígakerfi sem er hluti af stígakerfi höfuðborgarsvæðisins. Meðal annars liggja stígar fyrir Kársnes, fyrir botn Kópavogs til Garðabæjar, um Kópavogsdal og meðfram mörkum Reykjavíkur og Kópavogs úr Kópavogsdal upp í Kórahverfi.
Íþróttir
[breyta | breyta frumkóða]Fjöldi íþróttafélaga starfa í bænum en fjölmennust þeirra eru Breiðablik og HK og á vegum þeirra stundaðar fjölmargar íþróttagreinar. Breiðablik var stofnað árið 1950 og HK var árið 1970. HK er með aðstöðu í íþróttahúsinu Digranesi og Kórnum, þar sem HK spilar knattspyrnuleiki sína í Knatthúsinu. Íþróttafélagið Gerpla hefur aðstöðu í Versölum en kvennalið félagsins í hópfimleikum, sem jafnframt var landslið Íslands, sigraði Evrópumótið í hópfimleikum árið 2010.[31]
Í Leirdal er 9 holu golfvöllur, en Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar hefur einnig aðstöðu á 18 holu golfvelli innan lands Garðabæjar. Tvær knattspyrnuhallir eru í Kópavogi, Fífan sem var opnuð 2002 og Kórinn sem var opnaður 2007. Siglingafélagið Ýmir er með aðstöðu á Kársnesi og Tennisfélag Kópavogs í Tennishöllinni í Kópavogsdal. Hestamannafélagið Gustur er með aðstöðu á Kjóavöllum. Þá eru í bænum tvö dansfélög, taflfélag og skotfélag.[32]
Vinabæir
[breyta | breyta frumkóða]- Ammassalik, Grænland
- Klakksvík, Færeyjar
- Maríuhöfn, Álandseyjar
- Norrköping, Svíþjóð
- Óðinsvé, Danmörk
- Tampere, Finnland
- Þrándheimur, Noregur
- Wuhan, Alþýðulýðveldið Kína
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ [ https://skra.is/um-okkur/frettir/frett/2023/04/05/Fjoldi-ibua-eftir-sveitarfelogum-1.-april-2023/] Skrá.is, sótt 12. apríl 2023
- ↑ Guðrún Sveinbjarnardóttir. Rannsókn á Kópavogsþingstað. Kópavogskaupstaður, 1986, bls. 77.
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Árni Waag (ritstj.), Saga Kópavogs - Saga lands og lýðs á liðnum öldum (Lionsklúbbur Kópavogs, 1990).
- ↑ „Konungsbréf“.
- ↑ „Kópavogsbærinn og Þinghóll“.
- ↑ „Ferlir - Kópavogur - fornleifar“.
- ↑ 7,0 7,1 7,2 Helga Sigurjónsdóttir. Sveitin mín - Kópavogur. Frásagnir bekkjarsystkina. Skóli Helgu Sigurjónsdóttur, Kópavogi, 2002.
- ↑ Adolf J. E. Petersen (ritstj.), Saga Kópavogs - Frumbyggð og hreppsár (Lionsklúbbur Kópavogs, 1983).
- ↑ Tölur fengnar af vefsíðu Hagstofu Íslands
- ↑ 10,0 10,1 Ándrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson (ritstj.), Saga Kópavogs - Þættir í kaupstaðarsögunni 1955-1985 (Lionsklúbbur Kópavogs, 1990).
- ↑ „Smáratorg 1“.
- ↑ „Smáratorg 3“.
- ↑ „Borgarholt og Leirur“.
- ↑ „Ferlir - Kópavogur - minjar og þjóðsögur I“.
- ↑ „Elliðavatn og nágrenni“.
- ↑ „Bláfjallafólkvangur og fleira“.
- ↑ „Ferlir - Þríhnjúkagígur - fyrirhugað aðgengi“.
- ↑ „www.kopavogur.is - Bæjarstjórn Kópavogs“.
- ↑ „Héraðsskjalasafn Kópavogs - Við merkjum bæinn okkar“.
- ↑ „Sagan (í vinnslu)“.
- ↑ „Salurinn - Um húsið“.
- ↑ „Gerðarsafn.is“.
- ↑ „www.kopavogur.is - Héraðsskjalasafn Kópavogs“.
- ↑ „Stiklað á stóru í sögu LK“.
- ↑ „Um hljómsveitina“.
- ↑ „Leikskólar Kópavogs - Tölulegar upplýsingar“ (PDF). Fræðsluskrifstofa Kópavogs. Nóvember 2009. Sótt 16. janúar 2011.
- ↑ „Ágrip af sögu skólans“.
- ↑ „Eignir Knattspyrnuakademíu seldar - mbl.is“.
- ↑ „Tónlistarskóli Kópavogs - Um skólann“.
- ↑ „Kvöldskóli Kópavogs“.
- ↑ Íþróttafélagið Gerpla: Gerpla Evrópumeistari í hópfimleikum[óvirkur tengill]
- ↑ „Íþróttir í Kópavogi“ (PDF). Kópavogsbær. Sótt 16. janúar 2011.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Dóra Hafsteinsdóttir og Sigríður Harðardóttir (ritstj.) (1990). Íslenska Alfræðiorðabókin, 2. bindi. Bókaútgáfan Örn og Örlygur.
- Árni Waag (ritstj.) (1990). Saga Kópavogs - Saga lands og lýðs á liðnum öldum. Lionsklúbbur Kópavogs.
- Adolf J. E. Petersen (ritstj.) (1983). Saga Kópavogs - Frumbyggð og hreppsár 1935-1955. Lionsklúbbur Kópavogs.
- Andrés Kristjánsson og Björn Þorsteinsson (ritstj.) (1990). Saga Kópavogs - Þættir úr kaupstaðarsögunni 1955-1985. Lionsklúbbur Kópavogs.
Tengt efni
[breyta | breyta frumkóða]- Listi yfir íþróttafélög í Kópavogi
- Listi yfir íþróttamannvirki í Kópavogi
- Listi yfir menntastofnanir í Kópavogi