Fara í innihald

Rauðbrystingur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rauðbrystingur
Rauðbrystingur í varpbúningi
Rauðbrystingur í varpbúningi
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Fuglar (Aves)
Ættbálkur: Strandfuglar (Charadriiformes)
Ætt: Snípuætt (Scolopacidae)
Ættkvísl: Sendlingar (Calidris)
Tegund:
C. canutus

Tvínefni
Calidris canutus
(Linnaeus, 1758)
Dreifing og ferðir rauðbrystingstegundanna sex
Dreifing og ferðir rauðbrystingstegundanna sex
Undirtegundir

Raðað í stærðarröð:
C. c. roselaari (Tomkovich, 1990) (stærstur)
C. c. rufa (Wilson, 1813)
C. c. canutus (Linnaeus, 1758)
C. c. islandica (Linnaeus, 1767)
C. c. rogersi (Mathews, 1913)
C. c. piersmai (Tomkovich, 2001) (minnstur)

Samheiti

Tringa canutus

Rauðbrystingur (fræðiheiti: Calidris canutus) er meðalstór strandfugl af snípuætt.

Í vetrarbúningi sínum er rauðbrystingurinn frekar litlaus, grár að mestu en brúnn á bakinu.

Lengd: 23 – 25 cm. | Þyngd: 150 gr. | Vænghaf: 67 – 61 cm. | Þessi mál eiga við um undirtegundina islandica sem er fargestur á Íslandi[2]

Rauðbrystingurinn er meðalstór vaðfugl, örlítið þrýstinn og lítið eitt stærri en lóuþræll. Hann er líkur þeim fugli í hegðun nema hvað hann er allur hægari á sér og rólegri. Hann er hálsstuttur og með lítið höfuð og augu, svartan gogg og fremur grannan sem er álíka langur og höfuðið, og stutta svarta fætur. Á veturna er hann grár að mestu en brúnn ofan á baki, og litur kynjanna er svipaður. Í varpbúningi er hann aftur á móti með gráar strípur ofan á höfði og flekki ofan á baki, en annars rauðgulur á höfuð, herðar og bringu en aðeins ljósari á kviðnum. Kynin eru nánast eins en þó er kvenfuglinn ívið ljósari á litinn.

Útbreiðsla

[breyta | breyta frumkóða]

Rauðbrystingur er farfugl og verpir á norðurslóðum í Kanada, Evrópu og Rússlandi. Til eru sex undirtegundir sem hver fyrir sig hefur mismunandi varp- og veturstöðvar. Er rauðbrystingurinn sá strandfugl sem ferðast hve lengst á varpstöðvarnar, fer til dæmis frá syðsta odda Suður-Ameríku til nyrstu heimskautaeyja Kanada. Ekki fara þó allar undirtegundirnar svo langt. Sú þeirra sem kemur við á Íslandi hefur vetursetu við strendur Vestur-Evrópu, aðallega á Bretlandseyjum, og er fargestur á Íslandi, það er stoppar hér aðeins til að næra sig fyrir áframhaldandi ferðalag til norðurhluta Grænlands og Kanada þar sem hann verpir. Fuglinn verpir ekki á Íslandi.

Rauðbrystingar eru mjög félagslyndir og ferðast margir saman, jafnvel svo þúsundum skiptir. Einstaklingar af deilitegundinni islandica, sem kemur við á Íslandi, koma í stórum flokkum frá miðjum apríl og fram í byrjun júní, og eru það um 250–300 þúsund fuglar, eða um 77%[3] af stofnstærðinni. Hinn hluti stofnsins fer um Norður-Noreg. Færri fuglar koma við á haustin, en þá eru þeir á ferðinni frá miðjum júlí og út september. Við fuglatalningar að vetri hafa alltaf fundist nokkrir rauðbrystingar sem hafa haft vetursetu, þó ekki nema 10–50 fuglar.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. BirdLife International (2012). Calidris canutus. Rauði listi IUCN yfir tegundir í hættu. 2012.1. Sótt 16 júlí 2012.
  2. „Rauðbrystingur“. Námsgagnastofnun-fuglavefurinn. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. mars 2016. Sótt 8. mars 2013.
  3. „Vöktun íslenskra fuglastofna - Forgangsröðun tegunda og tillögur að vöktun“ (PDF). Náttúrufræðistofnun Íslands. Sótt 8. mars 2013.
  4. „Vaðfuglar“. Náttúrufræðistofa Kópavogs. Afrit af upprunalegu geymt þann 7. mars 2016. Sótt 8. mars 2013.