Fara í innihald

Kópavogsfundurinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Kópavogsfundurinn var haldinn 28. júlí 1662 á Kópavogsþingi og var tilgangur hans að fá Íslendinga til að samþykkja erfðaeinveldið. Áður fyrr var einveldið þannig að konungur væri kjörinn af helstu fulltrúum ríkisins en yrði síðan ekki löglega konungur fyrr en fulltrúar allra þjóðanna sem tilheyrðu Danaveldi höfðu samþykkt hann. Svíar höfðu fengið nóg af yfirráðum Dana yfir Eyrarsundi og orsakaði það stríð á milli þeirra tveggja. Afleiðingar stríðsins settu fjárhag Dana í rúst og vildi Friðrik 3. koma á erfðaeinveldi að evrópskri fyrirmynd þar sem konungsvaldið gengi sjálfkrafa í arf. Þessi aðgerð var meðal annars til þess að takmarka völd aðalsins í Danmörku.

Henrik Bjelke, aðmíráll, fulltrúi konungs, kom til Íslands á fund í Kópavogi til þess að fá íslenska höfðingja til að undirrita Erfðahyllinguna. Samningurinn var síðan kallaður Kópavogssamningurinn og afleiðingarnar voru þær að lög sem konungur setti hlutu sjálfkrafa gildi án sérstaks samþykkis Alþingis Íslendinga. Erfðaeinveldið gilti til ársins 1874 þegar Íslendingar fengu stjórnarskrá.

Sagnir um að Bjelke hafi hótað Íslendingum með herliði til að neyða Íslendinga til að samþykkja Erfðahyllinguna komust í hámæli eftir að tveir minnismiðar fundust í kistu Jóns Sigurðssonar sem sögðu frá því að Brynjólfur Sveinsson biskup hefði andmælt þessari löggjöf en Bjelke minnt hann á hermennina og að Árni Oddsson, lögmaður hafi tárfellt við undirskriftina. Þessari harmasögu var slegið upp í Þjóðólfi í miðri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Ekkert í samtímaheimildum bendir hins vegar til annars en að hér hafi verið um annað að ræða en formlegt samþykki á fait accompli, þ.e. að samþykkt Alþingis á lögum konungs hafði um langt skeið áður verið sjálfvirk. Annálar minnast Kópavogsfundarins helst fyrir það að eftir undirskriftina var haldin mikil og vegleg veisla með flugeldasýningu og fallbyssuskotum. Mun það vera fyrsta sinni sem getið er um flugelda á Íslandi.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Einar Laxness: Íslandssaga a – k, bls. 185, Reykjavík 1974.
  • Fabricius, Knud: „Frederik III", Danmarks Konger, bls. 293 – 311, København 1944.
  • Helgi Þorláksson: „Undir einveldi", Saga Íslands VII, bls. 150 – 168, Reykjavík 2004.
  • Páll Eggert Ólason: Saga Íslendinga V – Seytjánda öld, bls. 154 – 161, Reykjavík 1942.
  • Sigurður Ólason: Yfir alda haf, Reykjavík 1964.