Skólahljómsveit Kópavogs
Skólahljómsveit Kópavogs er íslensk skólalúðrasveit, stofnuð af Birni Guðjónssyni trompetleikara árið 1966. Um 200 hljóðfæraleikarar eru að jafnaði í hljómsveitinni, en henni er skipt niður í þrjár sveitir, A-sveit, B-sveit og C-sveit, með tilliti til aldurs og getu. Frá stofnun var aðalstjórnandi og skólastjóri sveitarinnar Björn Guðjónsson, en árið 1993 tók Össur Geirsson, bassabásúnuleikari og útsetjari, við starfinu, og gegnir því enn í dag.
Fyrstu árin hélt hljómsveitin æfingar í tónmenntastofu Kársnesskóla en lengst hafði hljómsveitin aðstöðu í kjallara íþróttahúss Kársnesskóla, eða til ársins 1996, þegar hún fluttist í Ástún 6 í Kópavogi. Árið 1999 fluttist hljómsveitin í æfinga- og kennsluhúsnæði í íþróttahúsi Digraness við Skálaheiði í Kópavogi. Í febrúar 2020 flutti hljómsveitin svo í sérhannaða tónlistarbyggingu við Álfhólsskóla, Álfhólsvegi 102 þar sem hún er til húsa í dag.