Ásdís Kristjánsdóttir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Ásdís Kristjánsdóttir (fædd 28. september 1978) er bæjarstjóri Kópavogs. Hún tók við embættinu af Ármanni Kr. Ólafssyni 15. júní 2022.

Ásdís er alin upp í Seljahverfinu í Breiðholti í Reykjavík og gekk í Seljaskóla. Hún lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands og er með BSc í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og MSc í hagfræði.

Ásdís var viðskiptastjóri hjá Lánstrausti frá 2002-2004, var sérfræðingur í fjármálaráðuneytinu árið 2005, efnahagsgreinandi í greiningardeild Arion banka frá 2005-2011 og forstöðumaður deildarinnar frá 2011-2013. Hún hóf störf hjá Samtökum atvinnulífsins árið 2013 og starfaði þar sem forstöðumaður efnahagssviðs til ársins 2022. Hún gaf kost á sér í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2022 og var oddviti flokksins í kosningum. Hún tók við stöðu bæjarstjóra í Kópavogi þann 15. júní 2022.

Hún var fulltrúi í Samráðsvettvangi um aukna hagsæld árið 2013, hefur verið í stjórn fulltrúaráðs Verslunarskóla Íslands, í stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga, var í verkefnastjórn um endurskoðun peningastefnunnar frá 2017-2018, í stjórn Arctic Adventure frá 2018-2020 og í aðalstjórn HK frá 2018-2022.

Ásdís er gift Agnari Tómasi Möller, verkfræðingi, og eiga þau þrjú börn.


Fyrirrennari:
Ármann Kr. Ólafsson
Bæjarstjóri Kópavogs
(2022 – núverandi)
Eftirmaður:
'


Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Kopavogur.is:Ásdís Kristjánsdóttir tekin við sem bæjarstjóri“. Sótt 16. júní 2022.
  • „Kjarninn:Ásdís Kristjánsdóttir ráðin aðstoðarframkvæmdastjóri SA“. Sótt 16. júní 2022.
  • „Kopavogur.is: Bæjarstjóri“. Sótt 28. júní 2022.
  • „Mannlif.is: Ásdís vill bæjarstjórastólinn“. Sótt 28. júní 2022.