Einveldissamþykktin

Einveldissamþykktin er samkomulag þjóða Danaveldis um einveldi í Danmörku. Árið 1660 framdi Friðrik 3. valdarán[1] sem að gerði konungin að erfðakonungi og veitti jafnframt konungi bókstaflega allt ríkisvald í sínar hendur, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, og var þar með einveldi hafið í Danmörku og Noregi og öllum „hjálendum“ (danska: Biland) og skattlendum þeirra.
Stjórnarfyrirkomulag fyrir einveldi
[breyta | breyta frumkóða]Stjórnarfyrirkomulagið í danska konungsríkinu fyrir einveldi hefur oft verið kallað aðalsveldi. Fyrirkomulagið fyrir 1660 var af samtímamönnum í Danmörku kallað „frit valgrige“, eða kjörfurstadæmi. Aðallinn, í gegnum ríkisráðið, kaus konung úr sínum hópi. En í reynd hafði ríkið verið erfðaríki því danska ríkisráðið hafði öldum saman kosið erfingja konungsins á undan, líkt og í öðrum konungsríkjum í Evrópu. [2] Aðalsveldið þýddi hins vegar að konungsvaldinu voru sett takmörk, meðal annars hafði konungur ekki frjálst val um embættismenn og ráðgjafa, heldur urðu þeir að koma úr röðum aðalsmanna. Hann varð einnig að deila völdum með ríkisráðinu og þurfti samþykki þess um yfirlýsingu stríðs og friðarsamninga.
Stéttaþingið, en þar sátu fulltrúar aðalsins, presta og biskupa og borgara tóku hins vegar mikilvægar ákvarðanir um löggjöf og skatta. Aðallinn sem réði miklu á stéttaþinginu greiddi ekki skatt en átti í stað þess að halda uppi landvörnum ríkisins.[2]
Aðdragandi
[breyta | breyta frumkóða]
Á árunum 1657–1658 og 1658–1660 geisuðu svo kölluð Karls Gústafsstríð á milli Danmörkur og Svíþjóðar. Fyrra stríðið endaði með tapi Danmerkur og Hróarskeldufriðnum 26. febrúar 1658 þar sem Danmörk tapaði Skáni og öllum öðrum löndum austan Eyrarsunds.[2] Tæpu hálfu ári eftir friðarsamningana, 7. ágúst 1658, hófst stríð á ný með innrás Svía. Á stéttafundi í Kaupmannahöfn 9. ágúst ákváðu konungur, ríkisráð og leiðtogar borgara að verja borgina í stað þess að flýja. Stríðinu lauk svo með Kaupmannahafnarfriðinum 26. maí 1660 sem var Danmörku ólíkt hagstæðari en Hróarskeldufriðurinn. Þótti aðallinn haf staðið sig afar illa sem landvarnarmenn en borgararnir gefið eignir og veittu lán svo hernaðurinn gengi betur. Í staðin veitti konungur og ríkisráðið borgurum Kaupmannahafnar og Kristjánshafnar ný einkaréttindi (danska: privilegier). Þeir fengu meðal annars rétt til að eiga aðalsjarðir, réttindi til æðstu embætta og rétt til áheyrnar í pólitískum álitaefnum og stóðu eftir þetta í rauninni jafnfætis aðalsstéttinni.
Við þetta tók við mikli valdabarátt milli aðalsins og borgaranna. Fjárhagur ríkisins var mjög illa staddur eftir stríðin og þótti mörgum tímabært að aðallinn tæki á sig skattbyrði. Friðrik 3. kallaði þá saman stéttaþing í september að nýju þar sem borgarar og fulltrúar kirkjunnar snérust saman gegn aðalsmönnum sem reyndu að verja hefðbundin skattafríðindi sín. Endalokin á þessum deilum voru að konungur og borgarar Kaupmannahafnar tóku höndum saman gegn aðlinum og knúðu það fram að tekið var upp einveldi í landinu árið 1661 og var þá ríkisráðið og stéttaþingið svipt völdum en bókstaflega allt ríkisvaldið var falið í hendur konungi.

Saminn var erfðahyllingareiður sem var skuldbinding þegna gagnvart konungi og veitti honum öll hugsanleg völd og sjálfræði.[2] Erfðahyllingareiðarnir og einveldisskyldbindingin voru undirrituð í Kaupmannahöfn 10. janúar 1661, Kristjaníu (Osló) 7. ágúst 1661. á Kópavogsþingi á Íslandi 28. júlí 1662, og Þórshöfn í Færeyjum 14. ágúst 1662.[3]
Alls skrifuðu 2.297 nafngreindra einstaklingar undir einveldisskuldbindinguna. Meirihluti þeirra hefur bæði undirritað og sett innsigli sitt á skjalið. Frá Noregi voru það 18 aðalsmenn, 87 biskupar og prestar, 46 borgarar og 406 bændur. Frá Danmörku eru engir bændur, heldur 183 aðalsmenn, 987 biskupar og prestar og 419 borgarar. Frá Íslandi skrifuðu 109 manns undir, báðir biskuparnir, báðir lögmennirnir, 42 prestar og prófastar, 17 sýslumenn, 43 lögréttumenn og bændur, og einnig landþingsskrifarinn, klausturhaldarinn og bartskeri. Alls undirrituðu 41 frá Færeyjum.[4]

Konungslögin (danska: Kongeloven; latína: Lex Regia) var lagagrundvöllur dansk-norska konungdæmisins, (eða Danaveldis) undirritaður af Friðrik 3. konungi 14. nóvember 1665. Lögin voru hinn lagalegi grundvöllur einveldisins sem konungur hafði áður komið á. Þessi lög var eina formlega ritaða stjórnarskráin fyrir einveldisríki konungs í Evrópu. Konungslögin voru skrifuð á latínu og dönsku og var það danska útgáfan sem var undirrituð og þar með gildandi lög.[5] Lögin voru fyrst prentuð árið 1709 en voru aldrei formlega staðfest á Íslandi.
Kópavogsfundurinn 1662
[breyta | breyta frumkóða]Á Kópavogsfundinum 1662 gengu Íslendingar undir einveldi Danakonungs. Löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald hans jókst mjög, erfðaréttur konungsættarinnar var lögbundinn og viss réttindi aðalsins voru afnumin. Með Kópavogsfundinum minnkaði vald Alþingis og innlendra ráðamanna og styrkur embættismanna konungs á Bessastöðum jókst.
Erfðahyllingin
[breyta | breyta frumkóða]Skjölin sem voru undirrituð í Danmörku, Færeyjum, Íslandi og Noregi voru því sem næst samhljóða.[4]
Frumtexti erfðahyllingarinnar er svohljóðandi:
Jeg N.N. lofer og tilsiger at vera den stormektugiste höjborne förste og herre, konung Frederik den tredje, Danmarkis, Norgis, Vendis og Gottis konung, hertug udi Holsten, Slesvik, Stormarken og Ditmersken, greife udi Oldenborg og Delmenhorst, min allernaadigste arfeherre og kong, so vel som hans kongl. majst. kongl. hus paa mandelig og kvindelig line, held og tror, vide og römme hans gavn og beste, skade og fordreven af yderst forme at afverge, og troligen tjene hans kongl. majst. som en ærlig mand og arfe undersatte vel eigned og anstaar. So samt hjelpe mig Gud og hans evangelium.
Íslensk þýðing: Ég N.N. lofa að vera hinum stórmektuga háborna fursta og herra, Friðriki konungi III, konungi Danmerkur og Noregs, Vinda og Gota, hertoga Holstein, Slésvíkur, Stormarken og Ditmersken, greifa af Oldenborg og Delmenhorst, mínum allranáðugasta arfaherra og kóngi, sem og kóngaætt hinnar konunglegu hátignar bæði í karllegg og kvenlegg, heill og trúr, að vita og mæra gagn hans og velferð , að verja hann öllum harmi og skaða og þjóna hinni konunglegu hátign af trúmennsku sem ærlegur maður svo sem hæfir og ber. Svo hjálpi mér guð og fagnaðarboðskapur hans. ! |
||
— „Erfðahyllingareiðurinn“. Skólavefurinn. Þjóðskjalasafn Íslands. Sótt 10.1.2025.
|
Færeyjar, Ísland og Noregur í Danaveldi
[breyta | breyta frumkóða]Noregur
[breyta | breyta frumkóða]
Þegar einveldinu var komið á höfðu Danmörk og Noregur verið í konungssambandi allt frá 1380 þegar Ólafur 4. Hákonarson, eins og hann var nefndur í Noregi og Ólafur 2. Danakonungur í Danmörku, varð konungur beggja ríkjanna. Árið 1536, undir stjórn Kristjáns 3., var norska ríkisráðið lagt niður, og með því hætti Noregur í raun að vera sérstakt konungsríki og varð þess í stað danskt hérað.[6] Í svo nefndri handsalsskrá (danska: håndfæstning) konungs og danska ríkisráðsins frá 1536 er sagt að Noregur skyldi heyra undir konungsríkið Danmörk, á sama hátt og Jótland, Fjón, Sjáland og Skánn. Noregur hélt þó áfram að vera sérstök eining innan ríkisins og konungur var nefndur konungur tvíburaríkjanna (danska tvillingrigerne), Danmörku og Noregs.[7] Árið 1671 var Noregi skipt i fjögur stiftömt ásamt átta undirömtum innan konungsdæmisins.
Með einveldinu var komið á stjórnarfari sem átti að gilda um allt hið svo nefnda Helstaten (Alríkið). Kaupmannahöfn varð miðstöð allrar stjórnunar í ríkinu og danska varð embættis og kirkjumál í Noregi. Norskan hélt áfram að lifa áfram sem talað mál, en gamla norska ritmálið var ekki lengur notað.[8]
Kristján 5. setti svo nefnd Dönsk lög árið 1683; árið 1697 voru sett svo kölluð Norsk lög sem byggðu á lögunum frá 1683. Beita átti réttarfarsreglum Norsku laganna á Íslandi samkvæmt konungsskipun frá 1718, en lögbókin var aldrei formlega lögtekin á Íslandi. Íslensk þýðing var gefin út í Hrappsey árið 1778, Kongs Christians þess fimmta Norsku lög á íslendsku útlögð.[9]
Færeyjar
[breyta | breyta frumkóða]Færeyjar höfðu orðið norskt lén og skattland þegar árið 1035 en höfðu um tíma mikið sjálfstæði gagnvart konungsvaldinu. Árið 1274 samþykkti færeyska alþingið að taka upp landslög Magnúsar konungs lagabætis, eftir það var ekkert innlent löggjafarvald í Færeyjum en alþinginu breytt í dómþing. Þegar Noregur tengdist Danmörku í konungssambandi árið 1380 fylgdu Færeyjar inn í sambandið. Danskar og norskar heimildir benda til þess að Færeyjar hafi alltaf verið meðhöndlað sem pólitísk eining út af fyrir sig, bæði undir Noregskonungi og eftir að dansk-norski konungurinn varð einvaldur. Eftir að norska ríkisráðið var lagt niður 1536 urðu Færeyjar danskt hérað og danska varð embætismál. Með siðaskiptunum í Færeyjum árið 1538 var færeyska einnig bönnuð í skólum, kirkjum og opinberum skjölum; færeyska varð eingöngu talað mál fram á 19. öld.
Ísland
[breyta | breyta frumkóða]
Ísland varð skattland [10] eða hjálenda Noregskonungs á árunum 1262–1264 þegar helstu höfðingjar landsins gengust undir vald hans. Landið var þó ekki innlimað í veldi konungs og Íslendingar höfðu enn sjálfstæði í lagasettningu og stjórnun landsins. Lagabókin Járnsíða var lögtekin á árunum 1271-1274 en meginhluti hennar var sótt í landslög Magnúsar lagabætis en Íslendingum þótti margt ekki henta aðstæðum í landinu. Ný lögbók var því send til Íslands, Jónsbók, sem var samþykkt á Alþingi árið 1281. Með þessari lagabók varð löggjafarvaldið sameiginlega í höndum konungs og Alþingi. Með tímanum fjaraði undan löggjafarvaldi Alþingis og urðu dómstörf aðalverkefni þess.[11] Þegar Noregur tengdist Danmörku í konungssambandi árið 1380 fylgdi Ísland inn í sambandið og taldist þá ekki hluti Danmerkur heldur norskt skattland undir stjórn sameiginlegs konungs Danmerkur og Noregs. Með vaxandi miðstýringu frá Kaupmannahöfn yfir Noregi og hjálöndum þess styrktist vald Danakonungs einnig yfir Íslandi. En landið var alla tíð tiltölulega sjálfstætt um eigin innri málefni og lagareglur voru aldrei algerlega samræmdar í ríkinu öllu. Sjálfstæðið takmarkaðist þó mjög þegar Íslendingar gengust undir einveldi og afsöluðu sér sjálfstjórn í hendur konungs við erfðahyllinguna á Kópavogsfundinum 1662.

Formlega hafði Ísland komið inn í Danaveldi som skattland Noregs. En skattland var land með innlenda tiltölulega sjálfstæða stjórn en íbúar þess voru skyldugir til að greiða skatta til annars lands. Óvissa ríkti um formlega stöðu Íslands í danska kongungsríkinu, sem kom fram í því að landið hefði ýmist verið kallað „ríkishluti“ (danska: Provinds), „hjálenda“ (danska: Biland) eða „nýlenda“ (danska: Koloni) í opinberum skjölum. Íslenska orðið hjálenda er þýðing á danska orðinu biland, sem var meðal annars notað til að lýsa eyjunum í Norður-Atlantshafi sem lutu danskri stjórn. Ekki er alveg ljóst hvað það merkti nákvæmlega. Í danskri orðabók frá árinu 1920 er þessi skýring gefin á orðinu „biland“: það er „hluti af ríki sem stendur aðeins í lauslegu sambandi við móðurlandið (og að nokkru leyti utanvið þingleg eða réttarleg stjórnskipunarlög þess). (Ordbog over det danske Sprog, 1920). Af heimildum má þó ráða að menn gerðu alls ekki skýran greinarmun á hugtökunum hjálenda og nýlenda (eða koloni og biland).[12] En með einveldinu fékk Ísland aðra stöðu gagnvart konungsvaldinu.
Miklar breytingar á stjórnsýslu konungs gagnvart Íslandi fylgdu einveldinu á árunum 1662–1683 og varð Ísland meðal annars amt eins og önnur fyrrum lén í ríkinu. Í stað lénsherra skipaði konungur amtmenn um leið og lénin voru lögð niður. Ólíkt lénsmanni sem heyrði beint undir konung og bar ábyrgð á landvörnum og skattheimtu, bar amtmaður aðallega ábyrgð á löggæslu og dómsvaldi í héraði. Samhliða amtmanni var landfógeti skipaður. Hann var embættismaður sem sá um fjármál Danakonungs í hjálöndum eins og í Færeyjum og á Íslandi. Í kjölfar einveldis dró verulega úr völdum innlendra kirkjulegra yfirvalda á Íslandi eins og hjá þeim veraldlegu. Sterkara konungsvald einveldisins birtist í embættisskipan innanlands mjög fljótt eftir að einveldi var komið á. Biskupakjör innanlands féllu niður og konungur skipaði biskupa sem hann vildi algerlega án aðkomu klerkastéttarinnar eða innlends valds á nokkurn hátt andstætt því sem áður hafði tíðkast.[13] Áhrif einveldisins á kosningu lögmanna komu einnig fram strax árið 1663 með nýjum eiðstaf og landfógeti fór fljótlega að hafa afskipti af kosningu lögmanna. Landfógeti fór einnig að taka sér dómsvald á prestastefnum.
Lok einveldis
[breyta | breyta frumkóða]Í Noregi giltu konungslögin og þar með einveldið þar til dansk-norska sambandinu var slitið árið 1814 þegar stjórnarskrá Noregs var samþykkt. Með stjórnarskrá Danmerkur 1849 var einveldið lagt niður í Danmörku og Færeyjum og frá því hafði danska þingið löggjafarvald. Staða Íslands var óljós þar til stöðulögin voru samþykkt 1871 en þau ákvörðuðu stöðu Íslands gagnvart Danmörku. Stöðulögunum fylgdi svo fyrsta stjórnarskrá Íslands árið 1874.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Einar Laxness: Íslandssaga a – k, bls. 185, Reykjavík 1974. Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
- Fabricius, Knud: „Frederik III", Danmarks Konger, bls. 293 – 311, København 1944. Jespersen & Pio
- Helgi Þorláksson: „Undir einveldi", Saga Íslands VII, bls. 150 – 168, Reykjavík 2004.
- Páll Eggert Ólason: Saga Íslendinga V – Seytjánda öld, bls. 154 – 161, Reykjavík 1942. Menntamálaráð and Þjóðvinafélag,
- Sigurður Ólason: Yfir alda haf, Reykjavík 1964. Útgefandi: Hildur.
- Gunnar G. Schram (1997), Stjórnskipunarréttur, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, s. 129.
- Sigurður Líndal (2007), Réttarsöguþættir, Reykjavík: Háskólaútgáfan, s. 632-645.
- Knud Fabricius: Kongeloven. Dens tilblivelse og plads i samtidens Natur- og arveretlige udvikling. En historisk undersøgelse. Kopenhagen 1920. Reprografischer Nachdruck 1971. ISBN 87 7500 810 6.
- Thomas Lyngby, Søren Mentz og Sebastian Olden-Jørgensen (red.), Magt og pragt – Enevælde 1660-1848, Gads Forlag, 2010. ISBN 978-87-12-04482-6.
- Gunnar Marel Hinriksson (2022), Amtið Ísland 1662–1683 Henrik Bjelke og stjórnsýslubreytingar einveldisins, Sagnfræði- og heimspekideild, Hugvísindasvið Háskóla Íslands, https://skemman.is/bitstream/1946/40612/1/Gunnar%20Marel%20Hinriksson_Amtid_Island_1662_1683.pdf
Sjá einnig
[breyta | breyta frumkóða]- Einveldistímabilið á Íslandi
- Kópavogsfundurinn
- Dansk-norska ríkið
- Hirðstjóri
- Amtmaður
- Landfógeti
- Stiftamtmaður
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Weidling, Tor Ragnar & Njåstad, Magne. (2017). Norge Under Dansk Styre: 1537-1814. Store norske leksikon.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 2,3 Sebastian Olden-Jørgensen (2010). Ind i enevælden. Magt og pragt : Enevælde 1660-1848. Gad. ISBN 9788712044826.
- ↑ Enevoldsarveregeringsakter, Færøe; Lovsamling for Island, I. bindi,.
- ↑ 4,0 4,1 Allan Tønnesen (ritstjóri) (2013). Magtens besegling, Enevoldsarveregeringsakterne af 1661 og 1662 underskrevet og beseglet af stænderne i Danmark, Norge, Island og Færøerne. Syddansk Universitetsforlag. bls. 583. ISBN 9788776746612.
- ↑ „Kongeloven, 14. november 1665. Lagatextinn“. Aarhus Universitet.
- ↑ Hans Jacob Orning (2023). Norge blir et lydrike. Universitet i Oslo.
- ↑ Øystein Rian (2025). Norges status som kongerike 1536–1814. Universitet i Oslo.
- ↑ Øystein Rian (2003). Eneveldet og den nye elitens voksende tyngde. Maktens historie i dansketiden. Makt- og demokratiutredningens rapportserie.
- ↑ Einar Laxness & Pétur Hrafn Árnason: Íslandssaga A–Ö. Reykjavík 2015, bls. 371.] (2015). Íslandssaga A–Ö. Forlagið.
- ↑ Imsen, Steinar (2011). Taxes, tributes and tributary lands in the making of the Scandinavian kingdoms in the Middle Ages. Tapir Akademisk Forlag. Trondheim studies in history. ISBN 978-82-519-2563-1.
- ↑ Þorsteinn Hjaltason (september 2023). „Hvaða bækur eru Grágás og Jónsbók?“. Vísindavefur.
- ↑ Guðmundur Hálfdanarson (desember 2018). „Hver er munurinn á nýlendu og hjálendu?“. Vísindavefur.
- ↑ Skúli S. Ólafsson; Loftur Guttormsson, Frá siðaskiptum til upplýsingar, (2000). Altarisganga á Íslandi 1570–1720. Alþingi. bls. 121–123. ISBN 9979888113.