Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu (LRH) tók til starfa 1. janúar 2007. Embættið varð til við sameiningu þriggja lögregluembætta á höfuðborgarsvæðinu; lögreglunnar í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi. Hjá því starfa tæplega 400 starfsmenn, þar af um 300 lögreglumenn. Umdæmið nær yfir sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og eru íbúar umdæmisins um 200 þúsund talsins. Sérstök kynningarsíða á netinu var sett upp þegar embættið tók til starfa,[1] en embættið er einnig með vefsíðu á lögregluvefnum.[2] Stofnun embættisins var liður í víðtækum breytingum á skipulagi lögreglumála á Íslandi en nánari upplýsingar um þær breytingar má m.a. finna í vefriti dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá janúar 2007.[3]

Grundvallarstefna LRH og helstu áhersluatriði[breyta | breyta frumkóða]

Grundvallarstefna embættisins og helstu áhersluatriði ásamt skipulagi og æðstu stjórnendum var kynnt á blaðamannafundi í október 2006.[4] Í drögum að grundvallarstefnun embættisins er haft að leiðarljósi að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dvelja á höfuðborgarsvæðinu, auk þess sem markmið eru sett um fækkun afbrota á nánar skilgreindum sviðum.

Eftirtaldir lykilþættir skipta mestu til að þessum markmiðum verði náð:

  • Aukin sýnileg löggæsla.
  • Efld hverfa- og grenndarlöggæsla og forvarnastarf í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga.
  • Betri og skilvirkari rannsóknir sakamála.
  • Traust og fagleg þjónusta á öllum sviðum og skilvirk miðlun upplýsinga bæði innan embættisins og gagnvart almenningi.
  • Bætt nýting fjármuna.

Skipulag LRH og æðstu stjórnendur[breyta | breyta frumkóða]

Starfsemi LRH skiptist í þrjú meginsvið. Í fyrsta lagi löggæslusvið, í öðru lagi ákæru- og lögfræðisvið og í þriðja lagi stjórnsýslu- og þjónustusvið. Lögreglustjóri er Stefán Eiríksson. Hörður Jóhannesson er aðstoðarlögreglustjóri yfir löggæslusviði embættisins og Jón H.B. Snorrason er aðstoðarlögreglustjóri og saksóknari og stýrir ákæru- og lögfræðisviði embættisins.

Egill Bjarnason er yfirlögregluþjónn almennrar deildar og Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar. Jónmundur Kjartansson er yfirlögregluþjónn innri endurskoðunar LRH. Framkvæmdastjóri LRH er Halldór Halldórsson en hann stýrir fjármála- og þjónustudeild embættisins og Sigríður Hrefna Jónsdóttir er starfsmannastjóri og stýrir starfsmannadeild LRH. Skipurit LRH var staðfest af dóms- og kirkjumálaráðherra 9. janúar 2007.[5]

Lögreglustöðvar á höfuðborgarsvæðinu og aðrar starfsstöðvar LRH[breyta | breyta frumkóða]

Höfuðstöðvar LRH eru við Hverfisgötu 113-115 í Reykjavík. Á höfuðborgarsvæðinu eru fimm lögreglustöðvar og sérstakt rannsóknarsvið á þeim öllum. Miðlæg rannsóknardeild embættisins rannsakar stærri og flóknari sakamál. Lögreglustöðvarnar eru þessar:

Lögreglustöð 1 - Grensásvegi 9, 108, Reykjavík , en þaðan er sinnt verkefnum austan Snorrabrautar til vestan Elliðaáa. Stöðvarstjóri: Árni Þór Sigmundsson.

Lögreglustöð 2 - Flatahrauni 11, Hafnarfirði - en þaðan er sinnt verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Stöðvarstjóri: Ómar Smári Ármannsson.

Lögreglustöð 3 - Dalvegi 18, Kópavogi - en þaðan er sinnt verkefnum í Kópavogi og Breiðholti. Stöðvarstjóri: Ómar Smári Ármannsson.

Lögreglustöð 4 - Vínlandsleið 2-4, Reykjavík - en þaðan er sinnt verkefnum í Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Stöðvarstjóri: Árni Þór Sigmundsson.

Lögreglustöð 5 - Hverfisgötu 113-115, Reykjavík - en þaðan er sinnt verkefnum vestan Snorrabrautar og á Seltjarnarnesi. Stöðvarstjóri: Kristján Ólafur Guðnason.

Miðlæg rannsóknardeild embættisins er staðsett á Hverfisgötu 113-115 - sími 444-1000. Deildin er þrískipt og annast rannsóknir kynferðisbrota og alvarlegra ofbeldisbrota, fíkniefnabrota og fjármunabrota.

Afbrot á höfuðborgarsvæðinu[breyta | breyta frumkóða]

Ítarleg skýrsla um afbrot á höfuðborgarsvæðinu var gefin út haustið 2007 en þar er að finna nákvæmar upplýsingar um dreifingu tilkynntra brota á höfuðborgarsvæðinu sem og upplýsingar um reynslu íbúa af lögreglu, öryggi og afbrotum.[6] Höfundar skýrslunnar eru Rannveig Þórisdóttir og Benjamín Gíslason. Skýrslan byggir annars vegar á opinberum gögnum um fjölda afbrota eftir svæðum á árunum 2005 og 2006, íbúafjölda, tekjum og félagslegum stuðningi. Hins vegar er byggt á niðurstöðum rannsóknar sem gerð var meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins vorið 2007 þar sem spurt var um reynslu af afbrotum, viðhorfi til lögreglu og mat á eigin öryggi. Fram kemur m.a. í skýrslunni að aðspurðir um það hvaða afbrot þátttakendur teldu mesta vandamálið í sínu hverfu nefndu flestir innbrot eða þriðjungur þátttakenda, 25 prósent nefndu umferðarlagabrot og 20 prósent eignaspjöll. Í rannsókninni kom almennt fram ánægja þátttakenda með störf lögreglu í sínu hverfi til að stemma stigu við afbrotum. Mikill meirihluti þátttakenda, eða rúmlega 90 af hundraði, sagðist mjög eða frekar öruggur einn á gangi að næturlagi í sínu hverfi.

Í skýrslunni kemur fram að árið 2006 voru 9.666 hegningarlagabrot tilkynnt til lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er nokkur aukning frá árinu á undan þegar 7.742 brot voru skráð. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að hafa beri í huga að árið 2005 var nýtt tölvukerfi tekið í notkun hjá lögreglu og gæti það skýrt þessa fjölgun brota milli ára. Nánari upplýsingar um fjölda brota, skiptingu milli brotaflokka o.fl. má finna í skýrslunni.

Neðanmálsgreinar[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Kynningarsíða LRH á netinu“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. apríl 2008. Sótt 21. mars 2008.
  2. Heimasíða LRH
  3. Vefrit dóms- og kirkjumálaráðuneytisins - Nýskipan í starfi lögreglu og sýslumanna
  4. Fréttatilkynning dóms- og kirkjumálaráðuneytisins október 2006
  5. Skipurit LRH[óvirkur tengill]
  6. Skýrsla um afbrot á höfuðborgarsvæðinu[óvirkur tengill]