Jón Ásgeir Jóhannesson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Jón Ásgeir Jóhannesson (fæddur 27. janúar 1968 í Reykjavík) er íslenskur kaupsýslumaður og fyrrverandi forstjóri Baugs Group. Hann er einn af fyrirferðarmestu viðskiptamönnum á Íslandi. Eftir bankahrunið hefur Jón komist í kastljós fjölmiðla á ný vegna stjórnarsetu hans í FL Group sem átti um þriðjungshlut í Glitni banka, nú Íslandsbanki hf.. Áður hafði Baugsmálið verið umfangsmikið sakamál sem snerist um meint lögbrot Jóns og fleiri stjórnenda Baugs. Því lauk með að Jón fékk skilorðsbundinn dóm. Hann hefur oft látið hafa eftir sér að Davíð Oddsson vilji honum illt.

Honum hefur verið stefnt af skilanefnd Glitnis, ásamt sjö öðrum og endurskoðunarfyrirtækinu PriceWaterhouseCoopers fyrir auðgunarbrot.[1]

Ævi[breyta | breyta frumkóða]

Hann útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands, (þó lauk hann ekki stúdentsprófi þaðan) 1989 og stofnaði sama ár fyrstu Bónus-verslunina með föður sínum Jóhannesi Jónssyni.

Jón Ásgeir gerðist forstjóri Baugs Group árið 1998 og jók umsvif fyrirtækisins til muna. Hann hætti sem forstjóri í maí 2002 og gerðist stjórnarformaður fyrirtækisins í staðinn, en tók aftur við forstjórastólnum í nóvember sama ár.

Í árslok 2003 hafði fyrirtækið vaxið svo undir forystu Jóns Ásgeirs, að ekkert annað íslenskt fyrirtæki hafði jafnmikil umsvif erlendis, auk þess sem það var orðið stærsta fyrirtæki á Íslandi.

Þann 17. ágúst 2005 voru Jón Ásgeir og fleiri ákærðir fyrir 40 brot á lögum um bókhald og fleira. Flestar ákærurnar varða millifærslur milli hans sjálfs og fyrirtækisins. Hæstiréttur vísaði málinu aftur til Héraðsdóms Reykjavíkur haustið 2005 vegna formgalla.

Í lok september 2008 var bankinn Glitnir kominn í svo krappa stöðu að Seðlabankinn og ríkisstjórnin ákváðu að yfirtaka hann með því að kaupa 75% hlut fyrir 84 milljarða króna. Eitt af fyrirtækjunum sem Jón Ásgeir á stóran hlut í, Stoðir, átti stóran hlut í Glitni og tapaði tugmilljörðum á yfirtökunni. Jón Ásgeir var ekki ánægður með yfirtökuna og sagði bankann ekki hafa staðið eins illa og Seðlabanki áleit. Jón og aðrir þátttakendur í „útrásinni“ svokölluðu fengu mikla gagnrýni og ekki alla vinsamlega og var kennt um að hafa komið íslenska ríkinu og þjóðinni í skuldir og önnur vandræði.

Málsókn Glitnis banka[breyta | breyta frumkóða]

Þann 11. maí 2010 var málsókn Glitnis banka á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, Þorsteini Jónssyni, Jóni Sigurðssyni, Lárusi Welding, Pálma Haraldssyni, Hannesi Smárasyni og Ingibjörgu Stefaníu Pálmadóttur þingfest fyrir rétti í New York-fylki, þar sem þau eru ákærð fyrir það að „...hafa með sviksamlegum og ólöglegum hætti haft fé af bankanum sem nemur meira en tveimur milljörðum dala...“.[2] Endurskoðendafyrirtækið PricewaterhouseCoopers er einnig ákært fyrir að „...greiða fyrir og taka þátt í að dylja þau sviksamlegu viðskipti sem Jón Ásgeir og félagar komu í kring og sem að endingu leiddu til falls bankans í október 2008.“[2]

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Greinar eftir Jón Ásgeir

Erlendir tenglar

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina .