Þjóðarsáttin á Íslandi 1990

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þjóðarsáttin 1990. Hinn 2. febrúar 1990 voru kjarasamningar milli verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ríkisins undirritaðir. Þessir samningar eru kenndir við þjóðarsátt og hafa fest sig í sessi sem efnahagslegt afrek. Með samningunum var klippt á áralangar víxlhækkanir launa og verðlags. Verðbólgudraugurinn var kveðinn niður og stöðugleiki komst á í efnahagsmálum.

Það sem gerði þjóðarsáttina einstaka var að aldrei áður höfðu jafnmargir ólíkir hagsmunaaðilar komið að kjarasamningagerð. Aldrei áður höfðu eins umfangsmiklar efnahagslegar forsendur legið til grundvallar kjarasamningum. Þar var m.a. að finna þau nýmæli að allir skyldu fá sömu kauphækkanir og að verðbólguspár yrðu lagðar til grundvallar kaupmáttarmarkmiðum. Hornsteinninn var stöðugt gengi sem kom í stað verðtryggingar í eldri kjarasamningum.

Þjóðarsáttin var helsta forsenda þeirra efnahagslegu breytinga sem stjórnvöld stóðu fyrir á tíunda áratugnum.[1][2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Árni H. Kristjánsson, Þjóðarsáttin 1990. Forsagan og goðsögnin. B.A.-ritgerð í sagnfræði við Háskóla Íslands 2008.
  2. Árni H. Kristjánsson, Goðsögnin um þjóðarsáttina 1990, Sagnir 1. tbl. 29. árgangur 2009