Brynjólfur Bjarnason
Íslensk heimspeki Heimspeki 20. aldar | |
---|---|
Nafn: | Brynjólfur Bjarnason |
Fædd/ur: | 26. maí 1898 |
Dáin/n: | 16. apríl 1989 (90 ára) |
Helstu ritverk: | Forn og ný vandamál; Gátan mikla; Vitund og verund; Á mörkum mannlegrar þekkingar; Lögmál og frelsi |
Helstu viðfangsefni: | frumspeki, þekkingarfræði |
Hafði áhrif á: | Eyjólf Kjalar Emilsson |
Brynjólfur Bjarnason (fæddur 26. maí 1898, látinn 16. apríl 1989) var einn áhrifamestu leiðtoga sósíalista á Íslandi á 20. öld. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1918, en Hjalti Jónsson konsúll hafði stutt hann til náms. Síðan stundaði hann nám í heimspeki í Kaupmannahöfn og Berlín, en lauk ekki prófi, og sneri hann sér aftur að heimspeki á efri árum.
Brynjólfur gerðist róttækur þegar á námsárum og hélt fast við þær grundvallarskoðanir alla ævi. Hann var annar af tveimur fulltrúum íslenskra kommúnista á öðru þingi Kominterns, alþjóðasambands kommúnista, í Moskvu 1920. Greiddi hann þar atkvæði með Moskvusetningunum svokölluðu sem kváðu á um skilyrðislausa fylgispekt aðildarflokka sambandsins við það. Brynjólfur var fulltrúi íslenskra kommúnista á fjórða þingi Kominterns í Moskvu 1924, þar sem var samþykkt ályktun um að stofna bæri kommúnistaflokk á Íslandi þegar aðstæður leyfðu.
Brynjólfur var fyrsti og eini formaður Kommúnistaflokks Íslands 1930 - 1938, en sá flokkur var deild í Alþjóðasambandi kommúnista og laut valdi þess samkvæmt Moskvusetningunum. Brynjólfur var fulltrúi íslenska kommúnistaflokksins á sjötta þingi Kominterns í Moskvu 1935, en þá skipti sambandið um stefnu og vildi taka upp samstarf við jafnaðarmannaflokka gegn fasisma. Hann var kjörinn á þing fyrir kommúnistaflokkinn 1937.
Brynjólfur var formaður miðstjórnar Sameiningarflokks alþýðu - Sósíalistaflokksins 1938 - 1949. Hann varði innrás Sovétríkjanna í Finnland í árslok 1939 og smíðaði orðið „Finnagaldur“ um óvægna gagnrýni á þá innrás. Brynjólfur þýddi ýmis rit eftir Maó Zedong á íslensku, þar á meðal Rauða kverið, sem kom út 1967. Brynjólfur sat á Alþingi í 19 ár, til 1956. Brynjólfur var einnig menntamálaráðherra 1944-1947 í svonefndri „nýsköpunarstjórn“.
Frá og með 1954 sinnti Brynjólfur í æ ríkara mæli heimspeki og ritaði fjölda bóka um þau efni. Jafnframt dró úr stjórnmálaþátttöku hans en hann var þó áfram virkur félagi í Sósíalistaflokknum og Alþýðubandalaginu.
Helstu ritverk
[breyta | breyta frumkóða]- Sósíalistaflokkurinn: Stefna og starfshættir (Reykjavík: Mál og menning, 1952)
- Forn og ný vandamál (Reykjavík: Mál og menning, 1954)
- Gátan mikla (Reykjavík: Mál og menning, 1956)
- Vitund og verund (Reykjavík: Mál og menning, 1961)
- Á mörkum mannlegrar þekkingar (Reykjavík: Mál og menning, 1965)
- Lögmál og frelsi (Reykjavík: Mál og menning, 1970)
- Með storminn í fangið: Greinar og ræður 1937–1972, I–II (Reykjavík: Mál og menning, 1973), 1972–1982, III (Reykjavík: Mál og menning, 1982).
- Heimur rúms og tíma (Reykjavík: Mál og menning, 1980)
- Samræður um heimspeki (Reykjavík: Mál og menning, 1987)
Brynjólfur þýddi auk þess rit eftir Karl Marx og Friedrich Engels, Maó Tse-tung og Líú Sjaó-sí.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Einar Ólafsson, „Hver var Brynjólfur Bjarnason?“ á Heimspekivef Háskóla Íslands
- Eyjólfur Kjalar Emilsson „Brynjólfur Bjarnason um frelsi viljans“ á Heimspekivef Háskóla Íslands
- Jóhann Björnsson „Tilgangurinn, hégóminn og hjómið: Um gagnrýni Brynjólfs Bjarnasonar á existensíalismann“ á Heimspekivef Háskóla Íslands
- Æviágrip á vef Alþingis
- Fólk fætt árið 1898
- Fólk dáið árið 1989
- Íslenskir heimspekingar
- Íslenskir stjórnmálamenn
- Þingmenn Kommúnistaflokks Íslands
- Þingmenn Sósíalistaflokks Íslands
- Kommúnistaleiðtogar
- Menntamálaráðherrar Íslands
- Kjörnir Alþingismenn 1931-1940
- Kjörnir Alþingismenn 1941-1950
- Kjörnir Alþingismenn 1951-1960
- Íslendingar sem gengið hafa í Kaupmannahafnarháskóla
- Íslenskir sósíalistar
- Stúdentar úr Menntaskólanum í Reykjavík