Sovétríkin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sovétríkin
Союз Советских Социалистических Республик
Sojúz Sovetskíkh Sotsíalístítsjeskíkh Respúblík
Fáni Sovétríkjanna Skjaldarmerki Sovétríkjanna
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Пролетарии всех стран, соединяйтесь! (Rússneska)
Verkamenn allra landa sameinist!
Þjóðsöngur:
Internatsjónalinn (til 1944)

Gimn Sovetskogo Sojuza
Staðsetning Sovétríkjanna
Höfuðborg Moskva
Opinbert tungumál Ekkert (rússneska í reynd)
Stjórnarfar Flokksræði

Leiðtogi Míkhaíl Gorbatsjov (síðastur)
Nýtt ríki
 - Stofnun 1922 
 - Upplausn 1991 
Flatarmál
 - Samtals
1. sæti
22.402.200 km²
Mannfjöldi
 - Samtals (1991)
 - Þéttleiki byggðar
3. sæti
293.047.571
13,08/km²
VÞL (1990) 2.700 (2. sæti)
Gjaldmiðill sovésk rúbla
Tímabelti UTC +3 til +11
Þjóðarlén .su

Sovétríkin eða Советский Союз á rússnesku (einnig kallað Ráðstjórnarríkin eða Союз Советских Социалистических Республик (СССР) á rússnesku, umritað Sojúz Sovetskíkh Sotsíalístítsjeskíkh Respúblík (SSSR), í íslenskri þýðingu Sambandsríki sósíalískra sovétlýðvelda) var sambandsríki með sósíaslíska stjórnarskrá í Austur-Evrópu og Asíu sem sett var á laggirnar árið 1922 og leystist upp 1991.

Stjórnmálakerfi Sovétríkjanna var einsflokkskerfi þar sem Kommúnistaflokkurinn var við völd fram til ársins 1990. Enda þótt Sovétríkin ættu að heita samband sovétlýðvelda (sem voru 15 talsins eftir 1956) með Moskvu að höfuðborg var í raun um að ræða ríki sem alla tíð var mjög miðstýrt. Efnahagskerfi Sovétríkjanna byggðist á áætlanabúskap.

Saga Sovétríkjanna[breyta | breyta frumkóða]

Sögu Sovétríkjanna má skipta upp í tímabil pólitískra staðnana og framfara. Þegar Stalín tók við sem aðalritari Kommúnistaflokksins urðu pólitískar framfarir engar, og frelsi alþýðu var ekkert. Á þeim tíma sem Stalín var við völd var almenningur kúgaður, og hver sem tjáði sig um sínar skoðanir var settur í fangabúðir, þar sem viðkomandi einstaklingur var látinn vinna þar til hann endanlega lét lífið. 20 milljónir dauðsfalla má rekja til 30 ára valdatímabils Stalín, sem gerir það að næststærsta fjöldamorði sögunnar. Eftir að Stalín lést árið 1953 tók við maður að nafni Níkíta Khrústsjov. Hans stefnur voru töluvert ólíkar Stalíns. Khrústsjov bætti frelsi til almennings og slakaði á Kalda stríðinu. Khrústsjov var við völd til ársins 1964, eða þar til flokksfélagar hans ráku hann burt. Þá tók við Brezhnev-tímabilið, seinna stöðnunartímabilið. Brezhnev lagði mjög mikla áherslu á vopnaframleiðslu, til þess að halda í við Bandaríkjamenn í vopnakapphlaupinu. Þessi aukna framleiðsla á vopnum kom niður á framleiðslu neysluvarnings, sem var allur í höndum ríkisins. Þessi aukna vopnaframleiðsla kom hinsvegar ekki bara niður á neysluvarningi, heldur líka tækni- og vísindaþróun. Þetta naut ekki mikilla vinsælda meðal alþýðu í landinu.

Í kjölfar andláts Brezhnevs árið 1982 tóku við Júríj Andropov og Konstantín Tsjernenko, en þeir voru báðir háaldraðir menn og voru við völd í mjög stuttan tíma. Eftir andlát Tsjernenko urðu loksins breytingar á stjórnarfari kommúnistaflokksins, og stöðnunartímabilið sem Brezhnev hafði komið á 20 árum fyrr var loks á enda þegar Míkhaíl Gorbatsjov tók við sem síðasti aðalritari Sovétríkjanna árið 1985. Valdaklíkan innan flokksins samanstóð á þessum tíma nánast eingöngu af háöldruðum flokksmönnum sem höfðu alist upp innan klíkunnar í áratugi í skjóli Brezhnevs. Brezhnev-klíkan var upphaflega aðferð hans til að minnka einveldi aðalritarans innan flokksins eins og tíðkast hafði áður fyrr en breyttist fljótlega í nokkuð spillt stjórnarráð fárra manna. Gorbatsjov, sem varð fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna sem var fæddur eftir byltinguna, hafði ekki verið áberandi innan Brezhnev-klíkunnar en var þó náinn samstarfsmaður Andropovs og í samstarfi við hann náði Gorbatsjov að koma á töluverðum breytingum. Þessar breytingar fólust meðal annars í því að 20% af yfirstjórn kommúnistaflokksins, öldruðum brezhnevistum, var skipt út fyrir yngri róttæka kommúnista. En þrátt fyrir róttækni Andropovs og Gorbatsjovs varð hinn 72 ára gamli Tsjernenko að aðalritara við dauða Andropovs og hélt áfram með stefnu Brezhnevs í þetta eina ár sem hann var við stjórn.

Framtíð Sovétríkjanna var því ekki björt þegar Gorbatsjov tók við þeim, og þrátt fyrir að hafa eytt gríðarlegur fjárhæðum í hernað og vopnaframleiðslu, höfðu þeir orðið undir Bandaríkjamönnum í vopnakapphlaupinu. Vegna þess hve miklu Bandaríkin og Sovétríkin eyddu í hernað, drógust þau aftur úr öðrum iðnríkjum í tækniþróun. Tækniþróunin var orðin svo ör á þessum tíma að þó svo að Sovétríkin framleiddu tæknivörur fyrir almennan markað voru þau alltaf langt á eftir samtíma sínum. Þannig héldust miðstýrða hagkerfið og hernaðariðnaður í hendur við að draga Sovétríkin smátt og smátt aftur úr Vestur Evrópu og lama efnahagskerfið. Áhrifin urðu þó minni í Bandaríkjunum þar sem kapítalisminn bætti upp tapið með því að græða á heimsvaldastefnunni.

Gorbatsjov sá hversu illa stríðskommúnismi hefði farið með ríkið og vildi koma fram breytingum. Gorbatsjov fannst vera þörf fyrir að opna og betrumbæta sovéskt samfélag sem var orðið staðnað. Hann vildi breyta pólitísku kerfi Sovétríkjanna og dreifa efnahag landsins betur.

Til þess gerði hann þrjár áætlanir:

  1. Glasnost (opnun) sem snerist um að auka gagnsæi í hinu sovéska kerfi gagnvart almenningi. Leynd hvíldi ekki lengur yfir stjórnarathöfnum og dregið var úr ritskoðun. Hætt var að bæla þjóðina niður og fékk fólk nú útrás fyrir uppsafnaða gremju.
  2. Perestroika (endurskipulagning) snerist um endurskoðun og endurskipulagning á hinu staðnaða sovéska framleiðslukerfi og hinu pólitíska kerfi.
  3. Demokratizatsiya (lýðræðisvæðing) var kynnt árið 1987. Hún snerist um að opna fyrir fleiri en einn frambjóðanda innan hins kommúnistíska kerfis en ekki koma á fjölflokkakerfi. Þjóðin fékk í fyrsta sinn síðan 1917 að kjósa um opinbera fulltrúa þjóðarinnar.[1][2]

Hann byrjaði að draga úr hernaðargjöldum og vildi enda deiluna milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Hann samdi við Bandaríkjamenn um afvopnun og kallaði herinn heim frá Afganistan, sem stuðlaði að bættum samskiptum við vesturveldin. Einnig gerði Gorbatsjov miklar breytingar á kommúnistaflokknum sjálfum, þar sem hann skipti helmingnum af flokksforystunni út fyrir yngri stjórnmálamenn sem voru sammála hugmyndum hans. Gorbatsjov gerði miklar breytingar á efnahagskerfinu og tók að mestu leiti upp markaðshagkerfi. Hann lagði mikla áherslu á það að hann væri ekki að reyna að skemma hið kommúníska kerfi sem ríkið var byggt á, heldur gera það skilvirkara. Einnig kynnti Gorbatsjov stefnu sem átti að auka tjáningarfrelsi almúgans, auka flæði upplýsinga frá ríkisstjórninni til hans og leyfa opna og gagnrýna umræðu um ríkið auk þess að efla þáttöku fólks í stjórnmálum og auk þess var kosningakerfið innan kommúnistaflokksins gert lýðræðislegra.

Í kjölfar þess að gefa aukið tjáningarfrelsi fékk flokkurinn þó nokkurra gagnrýni. Fólk fór að krefjast frekari lífsgæða og meira frelsis og nýtti tækifærið til að mótmæla. Flokkurinn missti einnig tök á fjölmiðlum eftir að hafa slakað á ritskoðun og pólitísk og efnahagsleg vandamál sem flokkurinn hafði átt við og haldið leyndu komu upp á yfirborðið. Auk þess urðu til þjóðernislegar umbótahreyfingar í sovétlýðveldunum og árið 1990 var krafa um sjálfstæði orðin hávær. Sama ár tók miðstjórn kommúnistaflokksins þá ákvörðun að leggja niður einflokkakerfið.

Á svipuðum tíma hófust átök innan flokksins og ríkisstjórnarinnar. Annars vegar voru þar frjálslyndir kommúnistar sem vildu flýta fyrir endurbótunum og hins vegar gamlir íhaldssamir kommúnistar sem fannst endurbæturnar vera svik við kommúnismann. Óánægja meðal hersins, KGB og íhaldssamra kommúnista var orðin svo mikil að hún leiddi til valdaránstilrauna KGB undir stjórn Vladímírs Krjútsjkov. 18. ágúst, tveimur dögum áður en skrifa átti undir lög sem myndu minnka völd alríkisins og auka völd sovétlýðveldanna, var Gorbatsjov, sem staddur var á Krímskaga, tjáð að hann skyldi segja af sér, en þegar hann neitaði var hann tekinn til fanga og það gefið út að hann hefði sagt af sér vegna heilsubrests.

Eystrasaltslöndin: Eistland, Lettland og Litháen voru undir stjórn Sóvétríkjanna og urðu sjálfstæð ríki á árunum 1988-1990 og síðan Úkraína árið 1991.[1]

Árið 1991 var skrifað undir frumvarp sem bannaði kommúnistaflokkinn m.a. vegna aðildar hans að valdaráninu. Í framhaldi af því skrifuðu öll fyrrum sovétlýðveldin undir samning um stofnun SSR, Samveldi sjálfstæðra ríkja, en það var samningur um stjórnmálalega og efnahagslega samvinnu í kjölfar hrunsins, og 21. desember skrifuðu fulltrúar allra sovétlýðveldanna undir Alma-Ata yfirlýsinguna sem staðfesti niðurlagningu Sovétríkjanna. Fjórum dögum seinna sagði Gorbatsjov loks af sér sem forseti Sovétríkjanna og aðalritari flokksins og færði öll völd embættis síns í hendur rússneska forsetaembættinu. Daginn eftir viðurkenndi æðstaráð Sovétríkjanna hrunið formlega og sagði af sér.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Kommúnisminn – Sögulegt ágrip.
  2. „Hverjar voru helstu ástæðurnar fyrir hruni Sovétríkjanna?“. Vísindavefurinn . Sótt 27. apríl 2021.
  Þessi sagnfræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.