Höfði
Höfði er hús í Borgartúni í Reykjavík byggt 1909, Franski konsúllinn Jean-Paul Brillouin átti upprunalega aðsetur þar. Seinna átti Einar Benediktsson skáld húsið um nokkurt skeið og bjó í því með fjölskyldu sinni. Árið 2015 var styttan af Einari eftir Ásmund Sveinsson, sem staðið hafði á Miklatúni, flutt að Höfða og sett upp austanmegin við húsið.
Íslandsfundurinn á milli Ronalds Reagan og Mikhaíls Gorbatsjev átti sér stað þar 1986. Fáni Bandaríkjanna og fáni Sovétríkjanna hanga þar til minnis um fundinn.
Í ágúst 1991 komu utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna til fundar í Höfða, en þá var sjálfstæðisbarátta ríkjanna á lokastigi. Hittust þeir í Höfða ásamt Jóni Baldvin Hannibalssyni, þáverandi utanríkisráðherra og Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra. Á þessum fundi í Höfða viðurkenndu Íslendingar sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna fyrstir allra þjóða.
Kunnir íbúar
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsti íbúi hússins var Brillouin, konsúll Frakka á Íslandi. Hann var kvæntur norskri konu sem kann að hafa ráðið því að ákveðið var að kaupa tilhöggvið hús frá Noregi. Á þessu fyrsta skeiði hússins var aðalinngangurinn sjávarmegin, en því var breytt fljótlega eftir að konsúlshjónin fluttu þaðan árið 1913.
Skáldið Einar Benediktsson bjó í Höfða ásamt fjölskyldu sinni milli 1914 og 1917. Í kjölfarið komst húsið í eigu Fossafélagsins Títan sem átti það næstu árin og er ekki vitað með fullri vissu um íbúa þess á þeim tíma.
Árið 1920 nýtti Reykjavíkurbær lagaheimild til að taka Höfða leigunámi til að bregðast við húsnæðisskorti. Húsið var fengið Páli Einarssyni til afnota. Hann var áður fyrsti borgarstjóri Reykjavíkur en hafði tekið við embætti hæstaréttardómara.
Frá 1924 til 1938 var húsið í eigu Matthíasar Einarssonar læknis og bjó dóttir hans, listakonan Louisa Matthíasdóttir þar einnig.
Breska utanríkisþjónustan keypti húsið af Matthíasi og hýsti það sendiráð og sendiherrabústað til ársins 1951. Eftir það hefur ekki verið búið í Höfða en byggingin gegnt ýmsum öðrum hlutverkum.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Höfði; grein í Morgunblaðinu 1993 Geymt 9 mars 2016 í Wayback Machine
- Var eitt sinn híbýli róna; grein af Vísi.is Geymt 27 september 2009 í Wayback Machine