Jamaíka
Jamaica | |
Fáni | Skjaldarmerki |
Kjörorð: Out of Many One People | |
Þjóðsöngur: Jamaica, Land We Love | |
Höfuðborg | Kingston |
Opinbert tungumál | enska |
Stjórnarfar | Þingbundin konungsstjórn
|
Konungur | Karl 3. |
Landstjóri | Patrick Allen |
Forsætisráðherra | Andrew Holness |
Sjálfstæði | frá Bretlandi |
• Veitt | 6. ágúst 1962 |
Flatarmál • Samtals • Vatn (%) |
160. sæti 10.991 km² 1,5 |
Mannfjöldi • Samtals (2018) • Þéttleiki byggðar |
141. sæti 2.726.667 266/km² |
VLF (KMJ) | áætl. 2018 |
• Samtals | 26,981 millj. dala (134. sæti) |
• Á mann | 9.434 dalir (109. sæti) |
VÞL (2019) | 0.734 (101. sæti) |
Gjaldmiðill | jamaískur dalur |
Tímabelti | UTC-5 |
Þjóðarlén | .jm |
Landsnúmer | +1-876 |
Jamaíka er eyríki í Karíbahafi, 145 km sunnan við Kúbu og 280 km vestan við eyjuna Hispaníólu (Haítí og Dóminíska lýðveldið). Breska hjálendan Cayman-eyjar er 215 km vestar. Eyjan er 240 km að lengd og 80 kílómetrar að breidd. Hún er þriðja stærsta eyjan af Stóru Antillaeyjum og líka þriðja stærsta Karíbahafseyjan (á eftir Kúbu og Hispaníólu).
Jamaíka var upphaflega byggð Taínóum. Eyjan komst undir yfirráð Spánar í kjölfar leiðangra Kristófers Kólumbusar á 15. öld. Spánverjar nefndu nýlenduna Santiago. Stór hluti frumbyggjanna var drepinn af spænskum landvinningamönnum eða létust úr sjúkdómum sem Evrópumenn báru með sér. Spánverjar fluttu þangað afríska þræla til að vinna á plantekrum. Bretar hertóku eyjuna árið 1655 og nefndu hana Jamaica. Bretar gerðu eyjuna að miðstöð fyrir ræktun á sykurreyr á plantekrum þar sem þrælar og afkomendur þeirra unnu. Þegar þrælahald var afnumið árið 1838 kusu margir þeirra að hefja sjálfsþurftarbúskap fremur en starfa áfram á plantekrunum. Eftir 1840 fluttu Bretar því inn verkafólk frá Kína og Indlandi til að vinna við sykurframleiðsluna. Árið 1958 varð Jamaíka hluti af Sambandsríki Vestur-Indía en lýsti yfir fullu sjálfstæði árið 1962.
Íbúar Jamaíku eru tæplega þrjár milljónir og landið er því þriðja fjölmennasta enskumælandi landið í Ameríku, á eftir Bandaríkjunum og Kanada. Jamaíka er fjórða fjölmennasta Karíbahafslandið. Höfuðborg ríkisins er Kingston með tæplega milljón íbúa. Flestir íbúar Jamaíku eru afkomendur Afríkubúa, en þar búa líka stórir hópar af evrópskum, austur-asískum, indverskum og líbönskum uppruna. Vegna mikils brottflutnings búa hópar fólks sem er upprunnið á Jamaíku í löndum eins og Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og öðrum Mið-Ameríkuríkjum. Langflestir íbúar Jamaíku eru kristnir og margir tilheyra nýtrúarhreyfingum. Rastafaratrú er upprunnin á Jamaíku. Menning Jamaíku hefur haft mikil áhrif um allan heim í gegnum tónlistarstefnur sem þar eru upprunnar, eins og ska, reggí, döbb og dancehall. Þaðan hefur líka komið heimsþekkt íþróttafólk í greinum eins og krikket, spretthlaupi og frjálsum íþróttum.
Jamaíka er miðtekjuland[1] með efnahagslíf sem reiðir sig mikið á ferðaþjónustu.[2] Jamaíka er hluti af Breska samveldinu og Karl 3. er þjóðhöfðingi landsins. Fulltrúi hans er landstjóri Jamaíku. Þing Jamaíku kemur saman í tveimur deildum, með skipaða öldungadeild og kjörna fullrúadeild.
Heiti
[breyta | breyta frumkóða]Taínóar, frumbyggjar Jamaíku, nefndu eyjuna Xaymaca, sem merkir „land viðar og vatns“ eða „uppsprettulandið“.[3] Eftir Kólumbusi er talið að eldra heiti yfir eyjuna hafi verið Yamaye.[4]
Í almennu tali kalla Jamaíkubúar eyjuna oft „klettinn“ („the rock“) og draga af því samsettu heitin „Jamrock“, „Jamdown“ og jafnvel „Ja“.[5]
Landfræði
[breyta | breyta frumkóða]Jamaíka er þriðja stærsta eyjan í Karíbahafi.[6] Hún liggur milli 17. og 19. gráðu norður og 76. og 78 gráðu vestur. Eyjan er fjalllend í miðjunni: Don Figuerero-fjöll, Santa Cruz-fjöll og May Day-fjöll í vestri; Dry Harbour-fjöll í miðið og John Crow-fjöll og Bláfjöll í austri. Hæsta fjall Jamaíku er Bláfjallstindur sem nær 2.256 metra hæð. Umhverfis fjöllin er mjó strandlengja. Á Jamaíku eru tvær borgir: Kingston er höfuðborg og viðskiptamiðstöð eyjarinnar, á suðurströndinni; og Montego Bay, sem er fræg fyrir ferðaþjónustu, á norðurströndinni. Kingstonhöfn er fjórða stærsta náttúruhöfn heims,[7] og gerði að verkum að Kingston var valin sem höfuðstaður eyjarinnar árið 1872. Aðrir stórir bæir eru Portmore, Spanish Town, Savanna la Mar, Mandeville og sumardvalarbæirnir Ocho Ríos, Port Antonio og Negril.[8]
Þekktir ferðamannastaðir á eyjunni eru meðal annars fossarnir Dunn's River Falls, YS Falls, Bláa lónið í Portland. sem er talið vera askja kulnaðs eldfjalls, og rústir Port Royal sem eyðilagðist í jarðskjálfta 1692. Sá jarðskjálfti átti þátt í að mynda eiðið Palisadoes sem ver Kingstonhöfn.[9][10][11][12]
Á eyjunni er að finna fjölbreytt vistkerfi í sjó, ferskvatni og á landi. Þar eru þurrir og votir kalksteinsskógar, regnskógar, árskógar, hellar, ár, sjávargrös og kóralrif. Sum af þessum svæðum eru náttúruverndarsvæði. Meðal þeirra helstu eru Cockpit Country, Hellshire Hills og Litchfield-skógarnir. Árið 1992 stofnaði Jamaíka fyrsta þjóðgarðinn í sjó, á 15 ferkílómetra svæði í Montegoflóa. Verndarsvæðið í Portlandbugt var stofnað árið 1999.[13] Næsta ár var Blue and John Crow Mountains-þjóðgarðurinn stofnaður á um 300 ferkílómetra svæði þar sem finna má þúsundir tegunda trjáa og burkna og sjaldgæfra dýra.
Undan strönd Jamaíku eru nokkrar smáeyjar, þær helstu í Portlandbugt, eins og Dove Island, Salt Island, Dolphin Island, Long Island, Great Goat Island og Little Goat Island. Lime Cay liggur lengra í austur. Smáeyjarnar Morant Cays og Pedro Cays liggja í um 50-80 km fjarlægð frá strönd Jamaíku.
Stjórnmál
[breyta | breyta frumkóða]Sóknir
[breyta | breyta frumkóða]Jamaíka skiptist í fjórtán sóknir í þremur sögulegum sýslum sem hafa enga stjórnsýslulega þýðingu.
Cornwall-sýsla | Höfuðstaður | km2 | Middlesex-sýsla | Höfuðstaður | km2 | Surrey-sýsla | Höfuðstaður | km2 | |||
1 | Hanover | Lucea | 450 | 6 | Clarendon | May Pen | 1.196 | 11 | Kingston | Kingston | 25 |
2 | Saint Elizabeth | Black River | 1,212 | 7 | Manchester | Mandeville | 830 | 12 | Portland | Port Antonio | 814 |
3 | Saint James | Montego Bay | 595 | 8 | Saint Ann | St. Ann's Bay | 1.213 | 13 | Saint Andrew | Half Way Tree | 453 |
4 | Trelawny | Falmouth | 875 | 9 | Saint Catherine | Spanish Town | 1.192 | 14 | Saint Thomas | Morant Bay | 743 |
5 | Westmoreland | Savanna-la-Mar | 807 | 10 | Saint Mary | Port Maria | 611 | ||||
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Jamaica (country)“. World Bank. Afrit af uppruna á 22. febrúar 2019. Sótt 21. febrúar 2019.
- ↑ „Record 4.3 Million Tourist Arrivals in 2017“. Jamaica Information Service (Government of Jamaica). Afrit af uppruna á 21. febrúar 2019. Sótt 21. febrúar 2019.
- ↑ „Taíno Dictionary“ (spænska). The United Confederation of Taíno People. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. október 2007. Sótt 18. október 2007.
- ↑ Atkinson, Lesley-Gail (2006). The Earliest Inhabitants: The Dynamics of the Jamaican Taíno (enska). University of the West Indies Press. bls. 1. ISBN 978-976-640-149-8. Sótt 1. mars 2021.
- ↑ „Jamaica - Caribbean Customs Law Enforcement Council“. aribbean Customs Law Enforcement Council. 2018. Sótt 30. júní 2020. „Colloquially Jamaicans refer to their home island as the "Rock"..“
- ↑ „County Background – Jamaica“ (PDF). Pan American Health Organization. Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 30. nóvember 2016. Sótt 11. október 2010.
- ↑ „Jamaican Cities“. My Island Jamaica. Afrit af upprunalegu geymt þann 17. september 2010. Sótt 11. október 2010.
- ↑ „Kingston tourist destinations“. Planet Aware. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. júlí 2010. Sótt 11. október 2010.
- ↑ „Jamaican tourist attractions“. Planet Aware. Afrit af upprunalegu geymt þann 9. febrúar 2010. Sótt 11. október 2010.
- ↑ „Port Antonio tourist attractions“. Planet Aware. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. febrúar 2011. Sótt 11. október 2010.
- ↑ „Ocho Rios tourist attractions“. Planet Aware. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. febrúar 2010. Sótt 11. október 2010.
- ↑ „CSI Activities (Portland Bight, Jamaica)“. Unesco.org. Afrit af uppruna á 9. mars 2013. Sótt 20. október 2012.