Eystribyggð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Kortið sýnir meginhluta Eystribyggðar. Rauðu punktarnir sýna þá staði og örnefni sem með nokkurri vissu er hægt að staðsetja. Nöfnin eru rituð samkvæmt nútímarithætti.

Eystribyggð var aðalbyggðarlag norrænna manna á Grænlandi. Aðalbyggðin náði yfir það sem nú eru sveitarfélögin Nanortalik, Qaqortoq og Narsaq syðst á landinu. Norðvestan við lá svo nefnd Miðbyggð. Önnur meginbyggð norrænna manna á Grænlandi var Vestribyggð, og var um 600 - 700 km fjarlægð mill byggðasvæðanna og samkvæmt miðaldaheimildum var talinn sex daga róður þar á milli. Rústir eftir um 500 bæi hafa fundist í Eystribyggð, bæði út við strönd og inn til dala. Flest stærri býlin hafa verið innarlega í fjörðunum. Eitthvað af rústunum hafa sennilega verið sel og jafnvel önnur útihús. Ógerlegt er að vita hversu margir íbúar voru, hafa ágiskanir oft á bilinu 3000 til 6000 manns. Fornleifafræðingar gera þó nú ráð fyrir að íbúar hafi aldrei verið fleiri en um 2000 ef gengið er út frá fjölda kirkjugarða og grafa í þeim.

Megnið af þeim rituðu heimildum sem til eru um búsetu Grænlendinga hinna fornu fjalla um Eystribyggð og mannlífið þar. Gerir það meðal annars að fjöldi staðanafna og örnefna hafa varðveist til seinni tíma. Það eru þó einungis tveir staðir sem með fullri vissu er hægt að staðsetja. Er það annars vegar biskupssetrið að Görðum en þar hefur fundist gröf biskups með biskupskræklu og er það þar sem nú heitir Igaliku. Hins vegar er Hrafnsfjörður (sem í frásögu Ívars Bárðarsonar er skrifað sem Rampnessfiord), í firðinum var sögð eyja þar sem heitt vatn kom úr jörðu. Á eyju í þeim firði sem nú er nefndur Uunartoq er eina heita uppsprettan á Grænlandi. Útfrá þessum stöðum hefur verið hægt að staðsetja með allnokkru öryggi fjölda annarra staða meðal annars Bröttuhlíð, Hvalsey, Herjólfsnes og klaustrin tvö. Var annað nunnuklaustur í reglu Benediktínusar í Hrafnsfirði og hitt munkaklaustur í reglu Bendediktínusar sem helgað var Ólafi helga og heilögum Ágústínusi í Ketilsfirði.

Samkvæmt C-14 aldursgreiningum hafa fornleifafræðingar getað séð að landnám gerðist í tveimur áföngum, sá fyrri á áratugunum fyrir ár 1000 í kringum Eiríksfjörð og Einarsfjörð og sá seinni frá 1000 fram til 1050 á svæðinu fyrir sunnan og norðan þessa firði. Landslagið var þá að nokkru frábrugðið því sem seinna var, uppgröftur sýnir að strandlengjan með innfjörðum og dalir voru vaxnir birkitrjám sem náðu milli 4 og 6 metra hæð og upp til heiða óx víðikjarr og gras. Því má segja að nafngiftin Grænland hafi verið réttnefni. En landnám norrænna manna hafði samskonar áhrif á gróðurfar og á Íslandi, birkiskógurinn höggvinn og kjarrið notað í brennsli og við vetrarbeit.

Grænlendingar í Eystribyggð stunduðu jöfnum höndum landbúnað og veiðar. Þeir höfðu með sér sauðfé, geitur, svín, kýr, hesta, hunda og ketti (og þar að auki húsamýs) frá Íslandi. Sauðfé og geitur virðast hafa að mestu gengið úti á vetrum. Komið hefur á óvart hversu mikilvægar kýr voru í búskap Grænlendinga. Á minni bæjum voru 2 - 4 kýr en á stórbæjum mun fleiri til dæmis á Hvalsey um 16 kýr og á Görðum þar sem hægt var að hýsa um hundrað nautgripi. Veiðiskapur skipti miklu, bæði fiskveiði og sel- og hreindýraveiði. Hægt hefur verið að lesa úr beinamælingum að hlutfall sjávarafurða og landdýra í mataræði Grænlendinga snerist algjörlega við á þeim nærri 500 árum sem þeir bjuggu á Grænlandi. Mælingar í elstu gröfum við Þjóðhildarkirkju sýna þeir sem þar voru grafnir fljótlega eftir ár 1000 höfðu lifað á um 40% sjáfarafurða, bein þeirra sem grafnir voru um miðja 15. öld höfðu hins vegar lifað á 60-80% sjáfarafurða.

Selir og hreindýr (Rangifer tarandus groenlandicus) voru veidd í nágrenninu, selir sennilega við vorgöngur frá Labrador og Nýfundnalandi. Í Eystribyggð voru einkum veiddir vöðuselir (Pagophilus groenlandicus) og blöðruselir (Cystophora cristata). Önnur veiðidýr voru snæhérar (Lepus arcticus), heimskautarefir (Alopex lagopus) og úlfar (Canis lupus). Fuglaveiðar voru einnig stundaðar, meðal annars voru lifandi fálkar (Falco rusticolus) fluttir út.

En fyrir utan heimaslóðirnar voru mikilvæg veiðisvæði bæði á austurströndinni og sérlega norður þar sem nú heitir Diskóflói en Grænlendingar hinir fornu nefndu Norðursetu. Lítið er vitað um veiðistöðvarnar á austurströndinni nema nöfnin Finnsbúð og Krosseyjar en engin vitneskja um hvar þær voru. Voru menn sendir á verðtíð í þessar veiðistöðvar, austur og norður fyrir. Þar var helst verið að sækjast eftir rostungum (Odobenus rosmarus), náhvölum (Monodon monoceros) og hvítabjörnum (Ursus maritimus). Helstu útflutningsvörur Grænlendinga voru rostungstennur, náhvalstennur og hvítabjarnaskinn.

Eystribyggð fór í eyði um miðja 15. öld eða seinnihluta þeirrar aldrar. Ýmsar tilgátur eru um hvers vegna Grænlendingar hurfu af sjónarsviðinu en á engan hátt er hægt að sanna neinar af þeim.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]