Fara í innihald

Ivittuut

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Krýolítnáma í Ivittuut sumarið 1940

Ivittuut, (eldri stafsettning Ivigtût) var sjálfstætt sveitarfélag á Suðvestur-Grænlandi frá 1951 til 2009 en er nú hluti af Sermersooq. Ivittuut nær yfir 600 km² og liggur á milli Arsukfjarðar í norðri og Qoornoqfjarðar í suðri. Einungis um 50 km² af landsvæðinu eru huldir jökli. Ivittuut er einnig nafn á þorpi í byggðarlaginu sem nú er í eyði.

Eitt af búsetusvæðum norrænna manna á miðöldum var þar sem nú er byggðarlagið Ivittuut. Afar lítið er vitað um þá byggð, engar ritaðar heimildir finnast um hana og þó að mikið sé um rústir frá þessari búsetu hafa þær lítið verið rannsakaðar. Álitið er byggðin hafi verið hluti af Eystribyggð, en sagnfræðingar og fornleifafræðingar nefna hana Miðbyggð í ritum sínum.

Þorpið Ivittuut var stofnað sem námubær og var það alla tíð. Árið 1806 fannst krýolít á svæðinu og var námuvinnsla hafin 1865. Þetta málmríka jarðefni hefur einungis fundist á fáeinum öðrum stöðum í heiminum. Efnafræðileg formúla krýolíts er Na3AlF6 og kallast það natríumhexaflúoralúmínat. Það er nú framleitt með efnafræðilegum aðferðum. Krýolít er mikilvægt hráefni í gerð áls og var náman í Ivittuut þess vegna mjög mikilvæg, ekki síst í seinni heimstyrjöldinni þegar mikið magn var flutt til Bandaríkjanna til að nota í framleiðslu herflugvéla. En námurnar tæmdust og var lokað 1987 og við það lagðist byggðin þar í eyði. Eina byggðin í Ivittuut er nú herstöðin í Kangilinnguit (sem á dönsku nefnist Grønnedal). Áætlanir eru um að sameina byggðarlagið Narsaq í náinni framtíð.

Bandaríkjaher hóf byggingu herstöðvarinnar í Kangilinnguit 1941 og var hún tilbúin 1943. Hlutverk hennar var þá að vernda krýolítnámurnar. Danir tóku við stöðinni árið 1951 og er hún nú aðalbækistöð sjóhers þeirra á Grænlandi.

Nefna má að í bókinni Lesið í snjóinn eftir danska rithöfundinn Peter Høeg kemur krýolít og námugröftur á Grænlandi mjög við sögu.